Ábyrgðarþjónusta

Ábyrgðarþjónusta fyrir vélbúnað, hugbúnað og gögn

Vélbúnaður

Kaup á búnaði frá Origo eru háð lögum um lausafjárkaup, lögum um neytendakaup og Almennum skilmálum félagsins eftir því sem við á. Reikningur fyrir vélbúnaði gildir sem ábyrgðarskírteini og hefst ábyrgðartími þegar vélbúnaðurinn er tekinn í notkun eða við dagsetningu reiknings hvort sem fyrr er.

Origo fer fram á það við kaupanda að við kaup á tölvubúnaði kynni hann sér innihald handbóka og leiðbeininga sem fylgja til að tryggja rétta notkun búnaðarins. Enn fremur er kaupanda bent á að leita sérfræðiaðstoðar hjá tæknimönnum Origo, ef breyta þarf búnaðinum eða bæta þarf við hann á ábyrgðartímanum.

Ábyrgð og þjónusta Origo við vélbúnað er háð því að notkun hans og þjónusta við hann hafi verið í samræmi við lýsingarkröfur framleiðanda, handbækur og aðrar leiðbeiningar um notkun.

Vélbúnaður er framleiddur úr nýjum hlutum og/eða notuðum hlutum er hafa sama notagildi og nýir hlutir frá verksmiðju. Vera kann að vélbúnaður hafi verið settur upp, gangsettur eða prófaður áður en hann er afhentur. Origo ábyrgist að vélbúnaður sé í góðu lagi til vinnslu á afhendingardegi og á ábyrgðartíma vélbúnaðarins.

Allur nýr vélbúnaður, sem Origo afhendir, nýtur ábyrgðar frá afhendingardegi á skilgreindu þjónustutímabili. Sé ábyrgðartími ekki skilgreindur er hann eitt ár. Neytendaábyrgðartími til einstaklinga utan atvinnureksturs er tvö ár. Semja má um aukna ábyrgð og aukinn ábyrgðartíma.

Neytandi, sem nýtur neytendaábyrgðar, er sá aðili sem kaupir vélbúnað utan atvinnustarfsemi og kaupin eru ekki
í atvinnuskyni eða í tengslum við starf hans.

Notaður vélbúnaður, sem seldur er sem slíkur, nýtur ekki ábyrgðar nema um það sé samið sérstaklega.

Ábyrgð á vélbúnaði tekur til allra framleiðslugalla, lagfæringa og viðgerða að meðtöldum varahlutum og vinnutíma tæknimanna. Ábyrgð gildir ekki ef bilun verður sem rekja má til annarra orsaka en framleiðslugalla, svo sem rangrar meðferðar, slits eða notkunar á rekstrarvöru. Ábyrgð á rafhlöðum er eitt ár.

Ákveðinn vélbúnaður hefur þjónustu á staðnum hjá notanda og er hún þá veitt þar samkvæmt nánari skilmálum. Að öðru leyti er ábyrgðarvinna á vélbúnaði unnin á verkstæði Origo á venjulegum dagvinnutíma frá kl. 9.00-17.00 alla virka daga. Sendingarkostnaður er ekki innifalinn.

Ábyrgð á vélbúnaði fellur niður ef fyrir hendi eru skilyrði sem tilgreind eru í köflum 2.2 og 3.1 í Almennum skilmálum Origo.

Hugbúnaður

Við kaup á einkatölvum fylgir afnotaréttur á stýriforritum og forritapökkum. Kaupandi fær í hendur heimild til þessara afnota og er rétt að hann varðveiti þau gögn.

Origo ber ekki ábyrgð á hugbúnaði á einkatölvum og tækjum sem óháðir framleiðendur hafa þróað og framleitt og fylgja vélbúnaðinum. Origo innir því ekki af hendi forritaþjónustu, ábyrgðarþjónustu eða villuleiðréttingar í neinni mynd nema um það sé samið sérstaklega. Jafnframt er Origo ekki ábyrgt fyrir forritapakkanum eða notagildi hans í tilteknu skyni.

Skilmálar framleiðanda hugbúnaðar á einkatölvur fylgja með stýribúnaði og forritapökkum, en annars er hægt að afla sér þeirra með því að snúa sér beint til framleiðanda. Gilda þeir skilmálar um þann hugbúnað sem Origo selur með vélbúnaði.

Origo afhendir að jafnaði einkatölvur með uppsettum hugbúnaði í staðlaðri mynd og hefur virkni hans verið sannreynd áður en búnaðurinn er seldur. Sé þess óskað getur Origo einnig sett upp og sannreynt hugbúnað á einkatölvur eftir ósk. Breytingar kaupanda á þessum uppsetningum eru á hans ábyrgð.

Afnotaréttur hugbúnaðar á einkatölvur er seldur miðað við það ástand sem hugbúnaðurinn er í við afhendingu frá framleiðanda og er án þjónustuskuldbindinga af hálfu Origo. Þjónusta Origo við hugbúnað tölva á ábyrgðartíma þeirra er því ávallt gjaldfærð nema um annað hafi verið samið.

Gögn

Gögn eru alfarið á ábyrgð kaupanda tölvubúnaðarins. Ábyrgð á hörðum diski tölvunnar nær eingöngu til hans sjálfs en hvorki til forrita né gagna. Við bilun í diskinum getur þurft að grípa til öryggisafrita notanda til að endurheimta gögn. Þurfi að skipta um harðan disk vegna bilunar mun uppsetning hans vera með sama hætti og þegar tölvan var keypt. Öll björgun gagna gjaldfærist því sérstaklega. Origo hvetur notendur tölvubúnaðar til að huga sérstaklega að afritun eða geymslu hugverka.

Skilmála Origo í heild sinni er að finna hér.

Ábyrgð fellur niður ef:

Leiðbeiningum framleiðanda tölvubúnaðarins og Origo um hirðu, notkun, álag, íhluti eða viðhald er ekki fylgt.

  • Bilun má rekja til illrar eða rangrar meðferðar.

  • Óviðkomandi aðili hefur opnað eða átt við tölvubúnaðinn eða breytt honum.

  • Innsigli á tölvubúnaðinum, sé það til staðar, er rofið.

  • Bilun má rekja til þess að tölvubúnaðurinn hafi verið tengdur við ranga rafspennu.

  • Bilun stafar af rangri tengingu við rafkerfi eða netkerfi.

  • Bilun má rekja til óhæfs umhverfis, svo sem ryks, hitastigs eða rakastigs.

Viðbótarþjónusta

Valkvæm viðbótarþjónusta Origo tryggir þér aukinn stuðning við ábyrgðarskilmálum framleiðanda á viðkomandi tölvubúnaði og tækjum.

Þjónustan er almennt veitt virka daga frá mánudegi til föstudags á dagvinnutíma frá kl. 9:00 til 17:00 og miðast við að viðgerð sé hafin næsta virka dag frá því að tilkynning berst.

Við lausn á tæknilegum vandamálum, bilanagreiningu og viðgerð á biluðum búnaði er stjórn og framkvæmd aðgerða í höndum þjónustusala en alltaf er unnið í fullu samráði og samvinnu við kaupanda.

Megin verkþættir þjónustu er viðgerðarþjónusta á búnaði. Í henni felst m.a. bilanagreining og lagfæringar eftir þörfum og útskipti á biluðum hlutum. Einnig felst í viðbótarþjónustunni gangsetning og prófun að lokinni viðgerð og vöktun með framvindu aðgerða.