BloggVegferð að aðgengilegum vef
author image
Guðný Þórfríður Magnúsdóttir1/3/2018
TODO

Embætti landlæknis

Í lok árs voru niðurstöður könnunarinnar Hvað er spunnið í opinbera vefi gerðar opinberar. Könnunin er gerð á tveggja ára fresti og felst í því að óháðir aðilar meta gæði opinberra vefja í nokkrum flokkum.

Í ár voru flokkarnir innihald, nytsemi, aðgengi, þjónusta, lýðræðisleg þátttaka og öryggi.

Staðan á opinberum vefjum

Það er sérstaklega mikilvægt fyrir vefi opinberra stofnana að þeir séu aðgengilegir öllum notendum. Þær upplýsingar sem þessir vefir hafa að geyma eiga erindi við alla borgara, óháð aldri eða getu, og því verður að gæta þess að ekkert hindri upplýsingaöflun notandans. En raunin er sú að sá flokkur sem fæstir vefir fá fullt hús stiga fyrir, er aðgengi.

Breytingar á vef Embætti landlæknis

Embætti landlæknis ákvað í byrjun síðasta árs að fara í mikla vinnu við að bæta aðgengið á sínum vef til að gæta jafnræðis fyrir alla notendur.

Verkefnið var unnið skipulega í góðu samstarfi, þar sem allir voru með sama markmið að leiðarljósi; að gera vefinn aðgengilegan og þar með bæta notendaupplifun allra notenda. Ferlið skiptist upp í þrjá hluta:

 

1. Úttekt á vefnum

Fyrsta skref verkefnisins var að gera úttekt á núverandi stöðu vefsins. Sérfræðingar Origo framkvæmdu úttektina samkvæmt þeim aðgengisstaðli sem algengastur er í dag, eða WCAG 2.0 - stig AA.

 

2. Atriðum forgangsraðað

Niðurstöður úttektarinnar voru flokkaðar niður og atriðum forgangsraðað.

  1. Atriði þess valdandi að ómögulegt reynist ákveðnum notendum að nota vefinn
  2. Atriði sem gera það erfitt, en ekki ómögulegt, fyrir ákveðna notendur að nota vefinn
  3. Önnur atriði sem ekki standast kröfur en valda minniháttar óþægindum

 

3. Verkaskipting

Þau atriði sem þurfti að lagfæra eða breyta voru greind og skipt niður eftir hlutverkum.

  • Þarf forritari að koma að verkefninu?
  • Þarfnast verkefnið nýrrar hönnunar?
  • Þarf að breyta innihaldi eða efnistökum?

 

Ákveðin verkefni voru leyst hjá hugbúnaðarsérfræðingum og ráðgjöfum Origo og önnur hjá vefdeild Embættis landlæknis, allt eftir eðli verkefna. Hvert hlutverk ber ákveðna ábyrgð þegar kemur að góðu aðgengi og því er mikilvægt að allir séu meðvitaðir og hafi þekkingu á því sem þarf til að leysa vandamálin.

 

Með því að forgangsraða verkefnum var hægt að vera viss um að þau sem mestu máli skipta væru unnin fyrst. Þegar öll verkefni voru leyst var vefurinn sannprófaður til að tryggja gott aðgengi.

 

Árangurinn

Þessi góða vinna bar tilætlaðan árangur, þar sem Embætti landlæknis fékk fullt hús stiga fyrir aðgengi á Hvað er spunnið í opinbera vefi könnuninni, en einungis 6% af þeim 239 vefjum sem teknir voru fyrir í könnuninni náðu þeim árangri. Á milli kannana fór vefurinn því úr 68 stigum og upp í 100.

 

Á línuritinu má sjá þróun á skori Embætti landlæknis borið saman við meðaltal fyrir ríkisstofnanir.

Framhaldið

Í þessu ferli hefur Embætti landlæknis tileinkað sér nýjar vinnureglur við ákveðin verkefni til að tryggja að allt nýtt efni fylgi sömu stöðlum, enda er vefurinn lifandi og virkur og því nauðsynlegt að halda honum við. Það gildir fyrir alla vefi að þó ákveðnu takmarki sé náð í aðgengismálum verður að hafa þessar vinnureglur í huga framvegis, til að tapa ekki niður þeim góða árangri sem náðst hefur.

 

Vitnisburður Embætti Landlæknis

„Embætti landlæknis er afar stolt af þeim niðurstöðum sem vefur stofnunarinnar fékk í könnuninni „Hvað er spunnið í opinbera vefi”. Auðvitað á vefur embættisins að vera aðgengilegur öllum og náðum við svo sannarlega þeim markmiðum sem voru sett. Það er virkilega góð tilfinning að vita til þess að allir geti lesið og nýtt sér allt það fjölbreytta efni sem er á vefnum.

Úttektin opnaði einnig augu okkar fyrir hvað uppsetning og hönnun, skráning og innsetning efnis hefur gífurlega mikið að segja fyrir notandann. Samstarfið við Origo hefur gengið vel, ætíð fljót að bregðast við og leiðbeina ef þurfti á að halda."

Hrafnhildur Stefánsdóttir, útgáfu- og vefstjóri Embætti landlæknis

Hvernig er staðan á þínum vef?

Hvernig stendur þinn vefur þegar kemur að aðgengi fyrir alla? Getur verið að einhver notendahópur sé útilokaður? Smelltu hér til að lesa meira um aðgengi og til að hafa samband við okkur fyrir upplýsingar um ráðgjöf.

Hefur þú verkefni í huga?

origo-logo
Skiptiborð
Mánudagar - föstudagarkl. 08:00-16:00Sími: 516-1000
Verslun í Borgartúni 37105 Reykjavík
Mánudagar - föstudagarkl. 08:00-17:00Laugardagarkl. 11:00-15:00
Verkstæði og vöruafgreiðslaKöllunarklettsvegi 8104 Reykjavík
Mánudagar - föstudagarkl. 09:00-17:00
StarfsstöðvarAkureyriÍsafjörðurNeskaupsstaðurEgilsstaðir
Origo, Borgartún 37, 105 Reykjavík, kt: 530292-2079. S: 516 1000