Blogg7 byltingarkenndar tækniframfarir 2020
author image
Gísli Þorsteinsson19/11/2019

"Við erum stödd mitt í fjórðu iðnbyltingunni og tækninni fleygir fram sem aldrei fyrr. Fyrirtæki og einstaklingar sem fylgjast ekki grannt með helstu tækniframförum eiga það á hættu að heltast úr lestinni. Að skilja það helsta sem er á döfinni gerir fólk og fyrirtæki í stakk búið að búa sig undir og grípa tækifærin, segir Bernhard Marr dálkahöfundur hjá Forbes. 

 Hann segir að hluti af starfi sínu sé að spá fyrir um framtíð atvinnulífsins og tækni, líta fram á veginn og sjá fyrir helstu tækniframfarir. Hann hefur tekið saman 7 mikilvægustu tækniframfarir ársins 2020.

1# Nú tekur gervigreindin til starfa

Gervigreind hefur valdið hvað mestum straumhvörfum í tækniþróun vorra daga. "Eins og ég benti á í bók minni „Artificial Intelligence in Practice“ (Gervigreind í framkvæmd) eru flest fyrirtæki nú að skoða hvernig þau geti notað gervigreind til að bæta upplifun viðskiptavina og auka skilvirkni rekstrar síns. Þessi þróun mun halda áfram á árinu 2020, en þótt það færist sífellt í vöxt að fólk vinni samhliða gervigreind, þá verður eftir sem áður kostnaðarsamt fyrir flest fyrirtæki að þróa og innleiða eigin gervigreindarlausnir."

Þá segir Marr: "Af þeim sökum verður gervigreind áfram að mestu þjónusta sem veitt er af þriðja aðila, með lausnum sem gera okkur kleift að færa inn eigin gögn og greiða fyrir reikniritin eða fá útreiknaðar niðurstöður eftir sem þörf krefur."

Hann segir að sem stendur séu slíkar lausnir veittar af aðilum á borð við Amazon, Google og Microsoft, og séu gjarnan almenns eðlis, þannig að þróa þurfi sérsniðnar útfærslur (oft með miklum tilkostnaði) til að þær mæti þörfum einstakra fyrirtækja. "Á árinu 2020 munu sífellt fleiri fyrirtæki vilja nýta gervigreind og því má búast við að fleiri aðilar muni bjóða lausnir sem eru sérsniðnar að tilteknum eða sérhæfðum verkefnum. Þar með verður fyrirtækjum ekkert að vanbúnaði að hefja innleiðingu gervigreindar."

2# Þjarkar og 5G farsímakerfið

Fimmta kynslóð farsímanets mun færa okkur ofurfljóta niðurhals- og upphalshraða og stöðugri tengingar. Þótt 5G farsímanettengingar hafi orðið fáanlegar í fyrsta sinn á árinu 2019 voru þær háðar þeim annmörkum að kostnaður var hár og virkni þeirra einskorðaðist við tiltekin svæði eða stórar borgir. Sennilega mun notkun 5G aukast til muna á árinu 2020, þökk sé viðráðanlegra verði og stóraukinni útbreiðslu, þannig að allir geti tekið þátt í fjörinu.

"Ofurhratt farsímanet mun ekki aðeins gera okkur kleift að horfa á kvikmyndir og hlusta á tónlist í auknum gæðum þegar við erum á ferðinni, heldur mun hinn stóraukni hraði gera það að verkum að farsímanetið verður jafnvel enn öflugra en hefðbundið fasttengt net sem liggur að heimilum og fyrirtækjum. Fyrirtæki þurfa að velta fyrir sér hvernig ofurhröð og stöðug nettenging geti nýst rekstri þeirra. Hin aukna bandvídd mun gera vélum, þjörkum og sjálfakandi farartækjum kleift að safna og flytja meira magn gagna en nokkru sinni áður, og þannig stuðla að framförum á sviði Internets hlutanna (e. Internet of Things, IoT) og snjalls vélbúnaðar."

3# Sjálfvirkar bremsur og sjálfvirk akreinaskipti 

Þótt við séum enn ekki komin svo langt við getum vænst þess að ferðast að staðaldri í sjálfkeyrandi bílum, eða jafnvel bera þá augum, á árinu 2020, þá munu þeir vafalaust halda áfram að vekja mikla athygli, segir Marr.

"Elon Musk, forstjóri Tesla, hefur sagt að hann vænti þess að fyrirtæki hans muni skapa bíl sem er sannarlega „algerlega“ sjálfakandi eigi síðar en á næsta ári, og að bílum sem nýta sjálfvirkni að einhverju marki – svo sem sjálfvirkar bremsur og sjálfvirk akreinaskipti – muni fara sífellt fjölgandi. Þessu til viðbótar munu önnur kerfi í bílum sem ekki tengjast akstri beint, svo sem öryggis- og afþreyingarkerfi – í auknum mæli verða sjálfvirk og byggja á söfnun og greiningu gagna. Systurfyrirtæki Google, Waymo, hefur nýlokið reynsluprófun á sjálfakandi leigubílum í Kaliforníu, sem fluttu yfir 6200 farþega fyrsta mánuðinn."

Þá segir Marr: "Auðvitað einskorðast þetta ekki við bíla – sjálfvirkni fer vaxandi í vöruflutningum með flutningabílum og skipum, og framfarir á þessu sviði munu sennilega áfram verða í fréttum allt árið 2020."

Eftir því sem sjálfaksturstækni vindur fram má einnig gera ráð fyrir að fregnir berist af ráðstöfunum sem eftirlitsaðilar, löggjafar og stjórnvöld grípa til. Sennilega er þörf á breytingum á lögum, innviðum og félagslegum viðhorfum áður en sjálfakstur verður að veruleika fyrir allan almenning. "Á árinu 2020 munum við sennilega sjá umræðuna um sjálfakstur breiðast út fyrir tækniheiminn, og sífellt fleiri munu átta sig á því að spurningin sé ekki „hvort“ heldur „hvenær“ hann verði að veruleika."

4# Fyrirbyggjandi læknismeðferð

Tæknin umbreytir nú heilbrigðisþjónustu hraðar en nokkru sinni fyrr. "Geta okkar til að safna gögnum úr klæðanlegum tækjum á borð við snjallúr mun gera okkur kleift að spá fyrir um heilsufarsvandamál og veita viðeigandi meðferð jafnvel áður en nokkur einkenni koma fram," segir Marr.

Meðferð verður einstaklingsmiðuð í mun ríkari mæli. Þetta er einnig kallað nákvæmnislækningar (e. precision medicine) því það gerir læknum kleift að ávísa lyfjum og beita meðferðum af meiri nákvæmni en áður, þökk sé gagnabyggðum skilningi á þeim árangri sem hver sjúklingur megi vænta. 

"Þótt þessi hugmynd sé ekki ný af nálinni, þá veitir hún okkur betri vitneskju um það hvernig ólíkir einstaklingar eru betur eða verr í stakk búnir að verjast tilteknum sjúkdómum, og hvernig þeir muni sennilega bregðast við mismunandi lyfjum eða meðferðum, þökk sé nýjustu tækniframförum, einkum á svæði erfðamengjafræði og gervigreindar.

Á árinu 2020 munum við sjá nýjungar á sviði fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu og tilkomu einstaklingsmiðaðri og áhrifaríkari meðferða sjúklingum til góða."

5# Tölvusjónin vaktar okkur

Í tölvuheiminum er með orðinu „sjón“ átt við kerfi sem geta borið kennsl á hluti, staði eða manneskjur á myndum sem teknar eru með myndavél eða skynjara. Það er þessi tækni sem gerir snjallsímanum þínum kleift að greina hvaða hluti myndar sem tekin er með símanum sé andlit, og hún liggur til grundvallar tækni á borð við  myndaleit Google (e. Google Image Search).

"Á árinu 2020 mun sífellt fleiri notendum standa til boða tæki og tækni sem nýta tölvusjón. Hún er nauðsynleg svo sjálfakandi bílar geti „séð“ og sneitt hjá hættum.Verksmiðjur munu nýta tölvusjón til að greina gallaðar vörur eða bilun í búnaði og öryggismyndavélar munu geta varað okkur við ef þær verða varar við eitthvað óvenjulegt, þannig að óþarfi verður að vakta þær allan sólarhringinn."

Þá segir Marr að tölvusjón auðveldi einnig andlitsgreiningu, sem verður ofarlega á baugi á árinu 2020. "Við höfum þegar séð hvernig þessi tækni nýtist til að stýra aðgangi að snjallsímum okkar með FaceID eiginleika Apple og hvernig flugvöllurinn í Dubai notar hana til að auðvelda fólki ferðalög. En eftir því sem notkun þessarar tækni breiðist út á árinu 2020 má búast við aukinni umræðu um að nauðsynlegt sé að setja henni skorður sökum þess að hún geti grafið undan friðhelgi einkalífs og auðveldað „stórabróður“ að fylgjast með almúganum."

6# Hvað er framlengdur veruleiki?

  • Framlengdur veruleiki (e. Extended Reality - XR) er yfirgripsmikið hugtak sem nær yfir fjölbreytta nýja tækni sem er notuð til að skapa dýpri stafræna upplifun. Nánar tiltekið vísar það til sýndarveruleika, viðbætts veruleika og blandaðs veruleika.
  • Sýndarveruleiki (e. virtual reality - VR) veitir notandanum alltumlykjandi stafræna upplifun sem er fólgin í því að hann stígur inn í tölvuskapaðan heim og notar til þess sýndarveruleikagleraugu sem einangra hann frá raunheiminum.
  • Viðbættur veruleiki (e. augmented reality - AR) felur í sér að stafrænir hlutir eru lagðir ofan á raunheiminn á snjallsímaskjá (Snapchat-síur eru gott dæmi).
  • Blandaður veruleiki (e. mixed reality - MR) er framlenging á viðbættum veruleika og felur í sér að notendur geta notað stafræna hluti sem leggjast ofan á raunheiminn (t.d. má hugsa sér að notandi geti spilað á heilmyndapíanó sem birtist í herbergi ef AR-gleraugu eru sett upp).

Þessi tækni hefur verið við lýði um nokkurra ára skeið, en hefur að mestu einskorðast við afþreyingariðnaðinn – þar sem notendum hefur staðið til boða að nota Oculus Rift og Vive sýndarveruleikagleraugu til að njóta þess nýjasta sem tölvuleikir hafa upp á bjóða, á meðan augljósustu dæmin um viðbættan veruleika eru snjallsímaeiginleikar á borð við síur fyrir myndavélar og leikir á borð við Pokemon Go.

"Frá og með árinu 2020 má búast við að þetta muni allt breytast, eftir því sem fyrirtæki komast upp á lagið með að nýta hina fjölmörgu spennandi möguleika sem báðar núverandi gerðir framlengds veruleika bjóða upp á. Sýndarveruleiki og viðbættur veruleiki verða í auknum mæli notaðir til þjálfunar og hermunar og munu auk þess skapa nýjar leiðir til að eiga samskipti við viðskiptavini."

7# Rafmynt frá Facebook sem byggir á bitakeðjutækni

"Bitakeðja (e. blockchain) er tækninýjung sem ég hef fjallað ítarlega um á þessu ári, en þó er ólíklegt að hún hringi bjöllum ef þú nefnir hana við fyrirtæki sem ekki eru vel að sér í tækni. Þetta gæti þó breyst á árinu 2020. Bitakeðja er í raun stafræn færsluskrá sem er notuð til að skrá viðskiptafærslur, en með öruggum hætti þökk sé dulkóðun og því að skráin er dreifð. Á árinu 2019 héldu sumir álitsgjafar því fram að of mikið væri gert úr kostum þessarar tækni og hún væri ekki eins gagnleg og fyrst var talið. Þó mó gera ráð fyrir því að fjárfestingar sem aðilar á borð við FedEx, IBM, Walmart og Mastercard réðust í á árinu 2019 muni byrja að skila árangri, og ef þeim tekst að sýna fram á kosti tækninnar gætu smærri aðilar verið fljótir að taka við sér við innleiðingu hennar," segir Marr.

Ef áætlanir standast mun Facebook gefa út sýna eigin rafmynt sem byggir á bitakeðjutækni á árinu 2020. Hún mun heita Libra og mun ábygglega vekja mikla athygli, segir Marr.

Ef þú vilt lesa meira frá Bernhard Marr í Forbes

Hefur þú verkefni í huga?

origo-logo
Skiptiborð
Mánudagar - föstudagarkl. 08:00-16:00Sími: 516-1000
Verslun í Borgartúni 37105 Reykjavík
Mánudagar - föstudagarkl. 08:00-17:00Laugardagarkl. 11:00-15:00
Verkstæði og vöruafgreiðslaKöllunarklettsvegi 8104 Reykjavík
Mánudagar - föstudagarkl. 09:00-17:00
StarfsstöðvarAkureyriÍsafjörðurNeskaupsstaðurEgilsstaðir
Origo, Borgartún 37, 105 Reykjavík, kt: 530292-2079. S: 516 1000