BloggHvernig finnur þú rétta starfsfólkið?
2/1/2020
TODO

Í dag dugar ekki lengur að birta bara atvinnuauglýsingar og lesa ferilskrár og hæfasta fólkið er sjaldan á lausu lengi. Hvað getur þú gert til að laða að þessa einstaklinga og vonandi ráða þá? Í þessari grein gefum við nokkur góð ráð sem geta nýst þér í ráðningum í framtíðinni.

Til að finna rétta starfsfólkið fyrir þitt fyrirtæki er gott að nýta sér miðla á borð við LinkedIn og mæta á ráðstefnur og aðra viðburði, en til að ná langtíma árangri þarftu að vera útsjónarsamari en það. Við deilum hér með þér fimm aðferðum sem við teljum mikilvægt að nýta við ráðningu nýrra starfsmanna á árinu 2020 og fyrir nánustu framtíð.

1. Upplifun umsækjenda

Þegar við tölum um upplifun umsækjenda er átt við hvernig núverandi, fyrri og framtíðar umsækjendur upplifa ráðningarferlið þitt, en það verður jafnvel enn mikilvægara í framtíðinni. Afar mikilvægt er að þú hugir að líðan umsækjenda í ferlinu, allt frá fyrstu samskiptum þar til nýr starfsmaður hefur störf.

Ef umsækjandi upplifir ráðningarferlið á jákvæðan hátt og finnst hann metinn að verðleikum meðan á því stendur, þá er líklegra en ella að hann beri jákvæð tilfinningar til fyrirtækisins þegar hann hefur störf. Ef upplifun hans er aftur á móti neikvæð áttu ekki aðeins á hættu að missa af frábærum starfskrafti heldur gæti orðspor þitt beðið hnekki líka.

2. Notkun samfélagsmiðla

Það færist sífellt í aukana að nota samfélagsmiðla í ráðningarferlinu og mun sú notkun að öllum líkindum aukast á næstu árum. Vegna þess hversu miklum tíma fólk eyðir núorðið á samfélagsmiðlum er orðið auðveldara en áður að finna og laða að tilvonandi starfsfólk í gegnum þá.

Samfélagsmiðlar nýtast ekki eingöngu til að auglýsa lausar stöður heldur einnig til að finna eftirsóknarvert fólk og efla tengslanetið. Jafnvel þótt það sé ekki á milli starfa einmitt þá stundina eða í atvinnuleit er alltaf gagnlegt að mynda tengsl við áhugaverða einstaklinga. Kannski það verði á lausu næst þegar þú þarft að ráða í lausa stöðu.

3. Vinnustaður sem laðar að nýtt starfsfólk

Á undanförnum árum hefur færst í aukana að fyrirtæki séu sífellt að vinna í því að laða að tilvonandi umsækjendur í stað þess að leita eingöngu eftir nýjum starfskröftum þegar stöður losna. Mörg fyrirtæki hafa breytt alfarið um stefnu og leggja nú allt kapp á að vera eftirsóknarverður vinnustaður, þannig að tilvonandi starfsfólk leiti til þeirra en ekki öfugt eins og jafnan hefur tíðkast.

Þessi aðferð felur í sér að fyrirtæki laða að sér tilvonandi starfsfólk með því að birta staðreyndir, fréttir og annað um fyrirtækið sem þykir eftirsóknarvert. Algengasta leiðin er að birta efnið á síðu fyrirtækisins og deila því á miðlum á borð við Linkedin og öðrum samfélagsmiðlum.

4. Orðspor þitt sem vinnuveitandi

Orðspor og ímynd fyrirtækis þíns hefur mikið að segja í ráðningarferlinu. Í því sambandi skiptir ekki síður máli hvernig núverandi starfsfólki líður, þ.e. hvaða orðspor fer af þér sem vinnuveitanda. Þetta er nokkuð sem öll fyrirtæki þurfa að huga að í dag ef þau vilja laða til sín eftirsóknarvert starfsfólk.

Tilvonandi starfsmenn geta og munu ráðast í athugun á fyrirtæki þínu, því í dag er allt orðið aðgengilegt á netinu. Núorðið leitar hæfasta fólkið að fyrirtækjum sem deila gildum og sjónarmiðum þess um jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Það leitar líka að fyrirtækjum sem státa af menningu sem það telur eftirsóknarverða. Ef það verður þess áskynja að orðspor fyrirtækis sé slæmt er ólíklegt að það sæki um starf hjá því.

Þú verður því að huga að orðspori þínu sem vinnuveitanda og draga fram allt það besta sem fyrirtækið hefur fram á að færa. Markmiðið er að skapa eftirsóknarverða fyrirtækjamenningu og koma því til skila að fyrirtæki þitt sé staður þar sem fólk nýtur þess að starfa. Mikilvægt er að draga fram ávinning á borð við sveigjanlegan vinnutíma og möguleika á fjarvinnu. Sjáðu til þess að þessi atriði komist til skila á heimasíðu fyrirtækisins.

5. Ráðningar byggðar á gögnum / mannauðsgreiningar

Burtséð frá því hvernig fyrirtæki er um að ræða snýst allt um gögn núorðið. Þú getur safnað miklu magni gagna um horfur og starfsfólk – en spurningin er ekki hvort það sé unnt að safna þessum gögnum heldur hvernig þú greinir og notar þau. Ef þú kemst upp á lagið með greiningu gagna öðlast þú gagnlegar upplýsingar um það hvort ráðningaraðferðir þínar séu að skila árangri eða ekki.

Ráðningar byggðar á gögnum (e. data-driven recruiting) og mannauðsgreiningar (e. HR analytics) eru ráðningaraðferðir þar sem áætlanagerð og ákvörðunartaka byggir að einhverju leiti á gögnum sem aflað er með mannauðstækni. Á meðal þeirra aðferða sem notaðar eru til að finna hæfileikaríkt starfsfólk er notkun gagna til að meta hvernig fólk fann fyrirtæki þitt, t.d. í gegnum hvaða miðla eða vefsíður. Síðan er undir þér komið að nýta þessar upplýsingar til að setja aukinn kraft í þær ráðningaraðferðir og miðla sem gögnin sýna að skili árangri.

Með gagnagreiningu getur þú einnig komist að því hvort tilteknar spurningar séu að valda því að sumir umsækjendur ljúki ekki við að fylla út starfsumsóknina. Sé það raunin getur þú endurorðað spurninguna eða einfaldlega fjarlægt hana. Slík greining getur veitt þér upplýsingar um hvaða tilteknu orð virki jákvæð á umsækjendur og hvaða orð séu fráhrindandi.

Grein  5 nýjustu trendin í mannauðsmálum 2020 Sækja greinina

Hefur þú verkefni í huga?

origo-logo
Skiptiborð
Mánudagar - föstudagarkl. 08:00-16:00Sími: 516-1000
Verslun í Borgartúni 37105 Reykjavík
Mánudagar - föstudagarkl. 08:00-17:00Laugardagarkl. 11:00-15:00
Verkstæði og vöruafgreiðslaKöllunarklettsvegi 8104 Reykjavík
Mánudagar - föstudagarkl. 09:00-17:00
StarfsstöðvarAkureyriÍsafjörðurNeskaupsstaðurEgilsstaðir
Origo, Borgartún 37, 105 Reykjavík, kt: 530292-2079. S: 516 1000