Blogg5 leiðir til að skapa betri starfsupplifun
2/1/2020

Starfsfólk hverfur frá fyrirtækjum af ýmsum ástæðum, en það er staðreynd að þegar það hverfur á brott eykst álagið á þá sem eftir eru með neikvæðum áhrifum á framleiðni og vinnuanda. Með það í huga erum við með nokkur góð ráð um hvernig hægt er að halda lengur í starfsfólkið með því að skapa betri starfsupplifun.

Eftir því sem hin stafræna umbreyting hefur haft meiri áhrif í heiminum þá hafa fyrirtæki gert sér betur grein fyrir hvað hæfileikaríkt starfsfólk hefur mikið að segja fyrir velgengni fyrirtækja. Undanfarin ár hefur starfsupplifun (e. employee experience) rutt sér til rúms, en starfsupplifun snýr að því að hanna starfsumhverfi þar sem starfsmanni langar að mæta í vinnuna, en ekki stað þar sem hann finnur sig knúinn til að mæta.

Þessi þróun hefur m.a. speglast yfir í samræður í ráðningarviðtölum, því í dag gerir hæfileikaríkt starfsfólk auknar kröfur til fyrirtækjanna sem það vill starfa hjá. Mannauðsdeildir ættu því að leggja áherslu á að tryggja góða starfsupplifun svo fyrirtæki þeirra verði ekki undir í hinni hörðu samkeppni um gott starfsfólk.

Hvað er starfsupplifun?

Um margra ára skeið hefur verið talið að upplifun viðskiptavina sé það sem helst ráði því hvernig fyrirtækjum vegni. Vissulega er það mikilvægt, en nú eru fyrirtæki í auknum mæli að átta sig á að upplifun starfsfólks skiptir ekki síður máli. Undir það falla allir snertifletir starfsmannsins við fyrirtækið, allt frá fyrstu samskiptum og þar til hann hverfur frá störfum.

Til einföldunar er hægt að skipta starfsupplifun í þrjú aðskilin umhverfi, samkvæmt líkani sem Jacob Morgan lagði til.

Menningarumhverfi

Menningarumhverfið lýtur að því hvernig starfsfólk fyrirtækisins upplifir fyrirtækjamenninguna. Sú upplifun er eðlilega einstaklingsbundin, en henni er hægt að lýsa með ýmsum hætti. Fyrirtæki getur staðið fyrir ákveðin gildi og viðhaft tiltekið verklag, en það segir ekki endilega til um hvernig starfsfólki þess líður í vinnunni.

Raunumhverfi

Ef menningarumhverfið lýtur að skynjun starfsfólks og hvernig því líður á vinnustaðnum þá er raunumhverfið það sem er áþreifanlegt: það sem hægt er að sjá og snerta – fólkið í byggingunni, skrifborðið og stóllinn, opna skrifstofurýmið, eldhúsið og setustofan.

Tækniumhverfi

Tækniumhverfið skiptir sköpum í flestum daglegum störfum og má í því sambandi nefna atriði á eins og tölvur, skjái, nettengingar og hugbúnað. Ófullnægjandi tæknilausnir geta valdið mikilli gremju og leitt til þess að vinnuumhverfið verði óskilvirkt.

Til að bæta starfsupplifunina þarftu að vita hvernig starfsfólki þínu líður og hvernig þeir upplifa vinnustaðinn. Hvað finnst starfsfólkinu þínu um þessi þrjú umhverfi og hvernig er hægt að bæta þau? Ef stjórnendur vilja að starfsupplifunin verði eins og best verður á kosið þarf að huga að öllum þessum þáttum.

Hvers vegna starfsupplifun er svona mikilvæg?

Hún getur aukið virka þátttöku starfsfólks

Jákvæð starfsupplifun er frábær leið til að auka virka þátttöku starfsfólks. Ef fólk nýtur þess að starfa hjá fyrirtækinu má líka gera ráð fyrir því að það sýni meiri metnað og verði virkara í starfi sínu.

Hún getur laðað að hæfileikaríkt starfsfólk og lækkað starfsmannaveltu

Í mörgum atvinnugreinum verður sífellt erfiðara fyrir vinnuveitendur að halda í hæfileikaríkt starfsfólk. Hæfasta fólkið getur valið úr störfum og er yfirleitt vandfengið. Auk þess fer tryggð starfsmanna almennt við sinn vinnustað minnkandi sem leiðir af sér hærri starfsmannaveltu, sem auðveldar mannauðsdeildinni ekki lífið.

Jákvæð starfsupplifun getur gert það að verkum að umsetinn einstaklingur velji fyrirtækið þitt fram yfir önnur eða að frábær starfsmaður starfi lengur hjá fyrirtækinu en ella. Leiðir til aukins frama innan fyrirtækisins eða aukinn sveigjanleiki, svo sem fjarvinnslu möguleikar, geta svo sannarlega ráðið úrslitum í slíkum tilvikum.

5 leiðir til að skapa betri starfsupplifun

Starfsupplifun er nokkuð sem þú þarft stöðugt að huga að, en gott er að byrja á eftirtöldu.

1. Settu markmið

Jákvæð starfsupplifun getur laðað að hæfileikaríkt starfsfólk, dregið úr brotthvarfi þess og aukið virka þátttöku. Þessir þættir hafa bein áhrif á velgengni fyrirtækisins og því ætti fyrirtækið að fjárfesta í starfsupplifun. En til þess að tryggja nauðsynlega fjárveitingu þarf að útbúa áætlun með skýrum markmiðum þar sem kemur fram hver ávinningur fyrirtækisins sé af bættri starfsupplifun.

2. Kortlegðu hvernig bæta á starfsupplifunina

Kortlegðu ferðalag starfsmannsins frá viðtali til starfsloka. Hvað virkar vel og hvað þarf að bæta? Hvernig væri ákjósanlegasta starfsupplifunin hjá þínu fyrirtæki? Þegar það liggur fyrir þarftu að útbúa áætlun um hvernig hægt er að ná því markmiði.

3. Mundu að fyrsti dagurinn skiptir afar miklu máli

Fyrsti vinnudagur nýs starfsmanns er sú stund þegar hann á sín fyrstu eiginlegu samskipti við fyrirtækið þitt, ef frá er talið starfsviðtalið og önnur samskipti á meðan ráðningarferlinu stóð. Þú þarft að skipuleggja þennan dag í þaula, því það getur verið erfitt að vinda ofan af neikvæðri upplifun fyrsta daginn.

Láttu nánasta samstarfsfólk og starfsmenn í móttöku vita að nýr samstarfsmaður muni mæta til vinnu þennan dag og sjáðu til þess að tekið sé á móti honum. Gakktu einnig úr skugga um að starfsþjálfunarferli sé til staðar og að hann verði kynntur fyrir samstarfsfólki sínu þannig að hann finni sig velkominn.

4. Skapaðu upplifun sem starfsfólki þínu líkar

Áður fyrr voru launaseðlar og önnur áþreifanleg fríðindi meginástæða þess að starfsfólk hélt kyrru fyrir hjá fyrirtæki. Í dag horfir þetta dálítið öðruvísi við þegar starfsmenn taka slíka ákvörðun. Þeir horfa fremur til þess að eiga möguleika á að geta unnið hvaðan sem er, haft sveigjanlegan vinnutíma, nútímaleg vinnutæki, mötuneyti með hollum og góðum mat og almennt að þeim líði vel í vinnunni.

5. Leggðu mat á allt ferlið

Til að tryggja að hin nýja og bætta starfsupplifun skili tilætluðum árangri þarf að mæla og leggja mat á árangurinn. Hafðu í huga markmiðin sem þú settir og notaðu viðeigandi mælikvarða til að ákvarða hvort þeim hafi verið náð. Athugaðu hvort hin ólíku ferli séu jafn skilvirk og þau ættu að vera og sé það ekki raunin, hvað megi gera til að bæta þau?

Stjórnendur þurfa að fylgjast með stefnum og straumum í starfsupplifun og fylgjast vel með væntingum og þörfum ólíkra kynslóða sem starfa hjá fyrirtækinu vilji þeir hámarka starfsánægju og auka hagnað.

Grein  5 nýjustu trendin í mannauðsmálum 2020 Sækja greinina

Hefur þú verkefni í huga?

origo-logo
Skiptiborð
Mánudagar - föstudagarkl. 08:00-16:00Sími: 516-1000
Verslun í Borgartúni 37105 Reykjavík
Mánudagar - föstudagarkl. 08:00-17:00Laugardagarkl. 11:00-15:00
Verkstæði og vöruafgreiðslaKöllunarklettsvegi 8104 Reykjavík
Mánudagar - föstudagarkl. 09:00-17:00
StarfsstöðvarAkureyriÍsafjörðurNeskaupsstaðurEgilsstaðir
Origo, Borgartún 37, 105 Reykjavík, kt: 530292-2079. S: 516 1000