BloggEr stafræn umbreyting virkilega nauðsynleg?
author image
Gísli Þorsteinsson3/1/2020

Breytingar í stafrænni tækni eru gríðarlega örar. Á meðal kosta sem fylgja stafrænni umbreytingu eru nýjar leiðir til að eiga samskipti við viðskiptavini, nýjungar í starfsmannahaldi og aukin tækifæri til að nýta upplýsingar og gögn, að því er fram kemur í grein hjá itpro.co.uk.

Samkvæmt nýlegum rannsóknum er áætlað að fjárfesting í tækni og þjónustu á heimsvísu nemi í kringum 2 billjónum Bandaríkjadala á árinu 2022. Fyrirtæki muni ennfremur verja 10% tekna sinna til fjárfestingar í stafrænni vegferð. Á þessu ári verður yfir 75% af allri fjárfestingu í stafrænni umbreytingu varið til fjárfestingar í vélbúnaði og þjónustu. Þessar tölur sýna að fyrirtæki eru sífellt að átta sig betur á kostum stafrænnar umbreytingar sem langtímafjárfestingar.

Stefna fyrirtækja í upplýsingatækni eru nú mikilvægari þáttur í heildarstefnu þeirra en nokkru sinni áður. Hver svo sem framtíðarsýn fyrirtækis kann að vera þá þarf hún að ná til stafrænnar umbreytingar svo fyrirtækið eigi kost á að vaxa og geti staðið sig í samkeppni. Einnig er nauðsynlegt að fyrirtæki búi yfir upplýsingatækni sem styður við markmið þess.

Þessi breyting getur falið í sér ýmsar áskoranir. Meira framboð af hugbúnaðarlausnum, aukinn fjöldi tengdra tækja og auknar væntingar gera það að verkum að sérfræðingar í upplýsingatækni þurfa að starfa á sama hraða og þeir sem eru í beinum samskiptum við viðskiptavini. Starf þeirra snýst ekki lengur um hefðbundna tæknistjórnun heldur verkefni sem geta virkilega breytt rekstrinum og búið hann undir framtíðina.

Hér eru fimm ástæður fyrir því að stafræn umbreyting skiptir sköpum fyrir fyrirtæki sem leitast við að vaxa og ná forskoti á samkeppnisaðila í heimi þar sem stafræn tækni ræður ríkjum, að meti itpro.co.uk.

1# Allir vilja fá afgreiðslu strax

Viðskiptavinir nútímans, innan fyrirtækis eða utan þess, vænta þess að tæknin virki jafn vel og þeir eru vanir í einkalífinu. En það getur reynst krefjandi fyrir fyrirtæki að ná því markmiði. Aldrei hafa fleiri valkostir staðið til boða, bæði varðandi hvernig og hvaðan skuli afhenda hugbúnað og varðandi val á samstarfsaðilum við afhendingu á þjónustu.

Fyrirtæki krefjast í auknum mæli sveigjanlegri upplýsingatækniþjónustu og öflugrar tengingar. Það er mikilvæg forsenda fyrir umbreytingu fyrirtækja að ná réttri notendaupplifun. Það nær ekki eingöngu yfir nytsemi hugbúnaðar fyrir starfsmenn eða utanaðkomandi viðskiptavini heldur felur í sér að vinna með upplýsingatækniteymum.

Sérfræðingar í upplýsingatækni munu þó áfram leggja megináherslu á að viðhalda aga í rekstri þegar kemur að öryggi og afköstum.

2# Aukin skilvirkni starfsfólks

Þátttaka starfsfólks er vinsælt umræðuefni. Vinnuveitendur leita nýrra leiða til að bæta frammistöðu starfsfólks, og þar gegnir stafræn tækni lykilhlutverk við að stuðla að aukinni skilvirkni starfsfólks.

Stafræn umbreyting veitir einingum fyrirtækja, eins og fjármálasviði, markaðsdeildum og starfsmannasviði, dýrmætt tækifæri til að segja skilið við handstýrða ferla og gera ýmsa lykilþætti, eins og eins og launagreiðslur, sjálfvirka. Um leið getur starfsfólk einbeitt sér að víðtækari viðskiptatækifærum.

Hlutverk netsins í nýsköpun - með því að gefa möguleika á fjarvinnu og veita aðgang að tækni og þjónustu um leið og hennar er óskað – skiptir gríðarlega miklu máli við að skapa umhverfi þannig að starfsfólk eigi þess kost á að ná árangri.

En álagið sem fylgir því að veita þjónustu sem stenst kröfur neytenda, frábæra afkastagetu og uppfylla strangar öryggiskröfur fyrirtækja getur þýtt að flýtiþjónusta gæti orðið myllusteinn um háls upplýsingatæknideilda.

3# Öryggi er forgangsatriði

Eitt af stærstu vandamálum í upplýsingatækni er hvernig má koma fyrir aukið magn af gögnum sem eru á jaðri kerfa og tryggja um leið öryggi þessara gagna. Þetta verkefni verður sífellt flóknara og krefst strangs eftirlits í kringum aðgang, regluvörslu á sviði gagna og varnir gegn árásum. En jafnvel ströngustu öryggiskröfur eru gagnslausar ef netkerfi sem annar ekki eftirspurn neyðir starfsfólk til að leita annað eftir sveigjanleika og auknum hraða.

Nauðsynlegt er að framsækin fyrirtæki komi sér upp samræmdri öryggisstefnu sem nær yfir öll netkerfi, hugbúnað og gögn, óháð því hvaða þjónusta eða þjónustuaðili er notaður.

Til þess að áhrif stafrænnar umbreytingar geti sannarlega verið byltingarkennd ættu framkvæmdastjórar upplýsingatæknisviða að leita að samstarfsaðilum bæði á sviði viðskipta og tækni sem skilja víðtækari viðskiptamarkmið og geta starfað af heiðarleika og gagnsæi við að ná þeim markmiðum.

4# Efling viðskiptasambands

Kröfur viðskiptavina aukast og samkeppni innan atvinnugreina er hörð. Fyrirtæki eru í auknum mæli háð hvert öðru, í samstarfi við birgja og dreifingaraðila, undirverktaka og sérhæfða ráðgjafa, með það að markmiði að framleiða fjölbreytt úrval af vörum og þjónustu sem viðskiptavinir hafa áhuga á.

Umsjón með þessum samstarfsaðilum krefst oft skjalfestra samskipta, en það ferli hefur löngum þótt krefjandi og draga úr skilvirkni. En nú stendur til boða tækni sem getur auðveldað þetta ferli. Notkun kerfis með rafrænar undirskriftir [e. eSignature system] getur skilað straumlínulöguðu verkflæði sem er gagnsærra og nákvæmara Slík tækni nær einnig til snjalltækja og getur stuðlað að aukinni skilvirkni og afkastagetu starfsfólks í daglegum störfum. 

Þau atriði í viðskiptum sem eru sýnilegri njóta oft forgangs umfram innri endurbætur innan fyrirtækis, sérstaklega þar sem álag á upplýsingatæknideildir eykst sífellt og ráðstöfunarfé getur verið af skornum skammti. En það eru mistök, að mati itpro.co.uk.

Með því að byggja upp stafrænt ferli frá byrjun og samþætta tækni innan fyrirtækisins með víðtækum hætti geta fyrirtæki náð forskoti og orðið ákjósanlegri kostur fyrir samstarfsaðila í framtíðinni. Innri ferli geta orðið skilvirkari og sveigjanlegri með möguleika á stækkun eftir því sem fyrirtækið vex. Með tímanum framleiðir stafræn umbreyting verkfæri sem skila tímasparnaði, draga úr kostnaði og efla viðskiptasamstarf.

5# Betri og hraðari ákvarðanataka

Með því að leggja aðaláherslu á gögn og greiningar í vegferð sinni að stafrænni umbreytingu geta fyrirtæki nýtt sér gagnagnótt (e. big data).

Í dag hafa fyrirtæki aðgang að meira magni af gögnum en nokkru sinni fyrr. Það má að miklu leyti rekja til internets hlutanna (e. Internet of Things). Með réttum greiningartækjum má breyta þessum gögnum í dýrmæta innsýn í viðskiptum sem má nota til að taka upplýstari og sneggri ákvarðanir. Því dýpra sem greiningartæki eru innbyggð í fyrirtækjarekstur, þeim mun meiri samþættingu og áhrifum geta þau komið til leiðar.

Nýting tækni sem byggir á gervigreind getur verið lykillinn að því að nýta möguleika stórgagna. Nýsköpun á sviði gagna og greininga er sífellt að koma upp á yfirborðið og stór hluti býr yfir gervigreindarmöguleikum sem bæði nútímavæða fyrirliggjandi hugbúnað og sía gögn með hraðari og áreiðanlegri hætti, en allt hjálpar þetta leiðtogum í viðleitni sinni við að taka betri og hraðari ákvarðanir sem leiða til framfara.

Nær ómögulegt er að fylgjast með allri þeirri þróun á sviði upplýsingatækni sem stuðlar að stafrænni umbreytingu, en ef fylgst er grannt með því hvernig framfarir á sviði gervigreindar geta stutt við framtaksverkefni í tengslum við stórgögn er örugglega hægt að ná góðu forskoti.

Hefur þú verkefni í huga?

origo-logo
Skiptiborð
Mánudagar - föstudagarkl. 08:00-16:00Sími: 516-1000
Verslun í Borgartúni 37105 Reykjavík
Mánudagar - föstudagarkl. 08:00-17:00Laugardagarkl. 11:00-15:00
Verkstæði og vöruafgreiðslaKöllunarklettsvegi 8104 Reykjavík
Mánudagar - föstudagarkl. 09:00-17:00
StarfsstöðvarAkureyriÍsafjörðurNeskaupsstaðurEgilsstaðir
Origo, Borgartún 37, 105 Reykjavík, kt: 530292-2079. S: 516 1000