22/11/2021 • Stefán Jóhannsson

Aukin skilvirkni og umhverfisvænni rekstur með handtölvum

Metnaðarfullir stjórnendur hafa augu og eyru sífellt opin fyrir tækifærum til hagræðingar í rekstri fyrirtækja sinna. Tækifærin geta legið í breyttu verklagi, nýrri tækni eða jafnvel blöndu hvoru tveggja.

Kröfur um að geta tekið ákvarðanir út frá fyrirliggjandi gögnum á hverjum tíma eru sífellt að aukast. Þörf á rauntímagögnum eykst þá að sama skapi og þar af leiðandi eftirspurnin eftir lausnum til að gera það mögulegt. Svar tæknigeirans við þessu er að bjóða upp á lausnir til skráningar og uppflettingar gagna „úti á gólfi“ á rauntíma með hug- og vélbúnaði við hæfi.

Hreyfanleiki býður upp á tækifæri

Með því að nota hug- og vélbúnaðar í stað pappírs skapast miklir möguleikar til hagræðingar ásamt því að vera umhverfisvænna. Ekki þarf lengur að prenta út úr bakendakerfum fyrirmæli eins og tiltektarseðla ásamt því að tvíverknaður eins og handskráning á minnisblöð sem síðar þarf að skrá aftur inn í bakendakerfi, verður úr sögunni. Tölvubúnaður, sem jafnvel er sítengdur bakendakerfinu, býður upp á áreiðanlegri upplýsingar, meiri hraða, færri villur og stuðlar að aukinni afkastagetu starfsmanna og þar með fyrirtækisins í heild.

Verkferli og tækni

Eitt er að koma skráningu og uppflettingu gagna út af skrifstofunum en annað er að gera það mögulegt á sem einfaldastan hátt. Til þess þarf góða innsýn í viðfangsefnið hverju sinni ásamt þekkingu á tækninni sem í boði er. Skynsamleg samþætting þessara þátta skilar síðan af sér vel heppnaðri lausn.

Með hagnýtingu tækni á borð við strikamerkja, QR kóða og RFID er hægt að ná miklum árangri þar sem lestur þessara merkja sparar bæði tíma og kemur í veg fyrir innsláttarmistök. Einnig eru í boði prentarar sem hægt er að hengja í belti og tengja við handtölvur en það gerir okkur mögulegt að prenta út hillu- og vörumerkingar beint frá handtölvunum. Í gegnum WiFi og 4G tengingar getum við síðan verið sítengd bakendakerfum eins og fjárhags- eða vöruhúsakerfum.

Algeng handtölvuferli

Handtölvur koma víða við sögu. Alls kyns sérlausnir eru til en oft eru fyrirtæki líka bara á höttunum eftir hefðbundnum lausnum fyrir klassísk verkferli fyrirtækja sinna.

Hér eru nokkur dæmi um algeng handtölvuferli:

  • Vörutalning

  • Vörumóttaka

  • Vörutiltekt

  • Vörurýrnun

  • Innkaupapantanir

  • Sölupantanir

  • Framleiðsluskráningar

  • Ýmis konar eftirlit

Þrátt fyrir að skjáir handtölva séu smærri en á borðtölvu, þá hefur notandinn þá yfirsýn sem þarf.

Mismunandi handtölvur

Eins og sést á upptalningu verkferlanna hér að ofan eru viðfangsefni handtölva mörg og mismunandi. Framfarir á sviði mobile tölvubúnaðar hafa verið mjög hraðar síðustu ár og skilað okkur tækjum sem gefa hefðbundnum borðtölvum lítið eftir í getu. Með fjölbreyttum möguleikum til gagnasamskipta (WiFi, 4G og Bluetooth), meira geymsluplássi og auknum vinnsluhraða verða handtölvur sífellt betur í stakk búnar til að ráða við keyrslu stærri og flóknari hugbúnaðarlausna. Þar er þó ekki bara átt við hversu öflugar þær eru heldur eru þær líka notaðar við mismunandi aðstæður. Stundum hentar að hafa þær stórar, stundum smáar, í sumum tilfellum spenntar á framhandlegg notandans en í öllum tilfellum viljum við hafa þær sterkar og gerðar til að þola það umhverfi sem þeim er ætlað að vera í.

Handtölvur eiga auðvitað ekki alltaf við, en þar sem þær nýtast má segja að þær séu ómissandi þáttur í stafrænni vegferð fyrirtækja.

Hafið samband til að fá ráðgjöf

Vandamál með tölvuvinnslu á þeim stöðum þar sem borðtölvum verður ekki komið við? Við hjá Origo höfum náð mjög góðum tökum á aðlögun hug- og vélbúnaðar að þeim verkferlum. Hafið endilega samband við okkur til að fá ráðgjöf.

https://images.prismic.io/new-origo/2bca0f53-57e4-4b32-a724-d3dc6f16c027_Stefan+%281%29.jpg?auto=compress,format

Höfundur bloggs

Stefán Jóhannsson

Verkefnastjóri

Deila bloggi