14/12/2020 • Arna Harðardóttir

Covid-19 hefur breytt því hvernig við sækjum heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðislausnir Origo

Hvernig Covid-19 hefur breytt því hvernig við sækjum heilbrigðisþjónustu

 

Árið 2020 hefur verið ár breytinga. Við höfum þurft að taka stór skref hvað varðar upplýsingatækni bæði í persónulegu lífi og vinnu. Til að mynda höfum við þurft að endurhugsa hvernig við umgöngumst vini og fjölskyldu, hvernig og hvar við mætum til vinnu og þar að auki hvernig við sækjum heilbrigðisþjónustu. Með tilkomu Covid-19 var ljóst að heilbrigðiskerfið þyrfti að takast á við mismunandi og margar áskoranir ekki síst er varða upplýsingatækni. Til að mæta auknu álagi á heilbrigðiskerfið og uppfylla þær einstöku þarfir sem þar spruttu upp var lagður aukinn kraftur í að þróa Heilsuveru.

Covid-19 skimanir

Þegar Covid-19 smit fóru að greinast hér á landi jókst þörfin hratt á skimun. Til að byrja með var ferlið við einkennaskimun á þann hátt að einstaklingar hringdu inn á sína heilsugæslu og lýstu einkennum og báðu um Covid-19 skimun. Starfsmaður heilsugæslu skráði niður umsókn eftirfarandi einstaklings og bókaði hann í skimun. Skömmu síðar varð þörf á starfsmanni sem eingöngu sá um að bóka einstaklinga í skimanir og heilt nýtt stöðugildi varð til. Þrátt fyrir það náðist ekki að skima þann fjölda sem þurfti og nauðsynlegt var að finna skilvirkara kerfi.

Góð reynsla var af notkun landamærakerfisins og því var ákveðið að yfirfæra það yfir á almennar skimanir. Heilsuvera var augljós kostur til að nýta sem samskiptagátt til að auðvelda og straumlínulaga beiðnir einstaklinga um einkennaskimanir. Nú getur einstaklingur skráð sig inn á Heilsuveru og valið þau einkenni sem hrjá hann og fær, ef við á, bókun í sýnatöku. Þetta kerfi auðveldaði ferlið og samskipti á milli skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins og heilbrigðisstarfsfólks jókst til muna. Áður náðu heilsugæslur að skima í kringum 200-400 einstaklinga á dag en með nýju kerfi í gegnum Heilsuveru getur Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins skimað um 4000 einstaklinga á dag.

Þetta var aðeins fyrsta skrefið í aukinni þróun Heilsuveru. Fleiri tækifæri til stafrænnar þróunar heilbrigðisþjónustu voru nýtt og meðal annars er nú hægt að fá vottorð undirskrifað af sóttvarnalækni ef einstaklingur er í sóttkví sem og staðfest vottorð um Covid-19 smit, ef þess þarf.

Aukin notkun Heilsuveru

Notkun Heilsuveru hefur aukist gífurlega á síðustu árum en eftirfarandi tölfræði á við um árið 2020

-          Innskráðum notendum fjölgaði um 43% á árinu 2020 frá því á árinu 2019

-          Að meðaltali eru um 8000 innskráningar á dag inn á Heilsuveru

-          Lyfjaendurnýjun í gegnum Heilsuveru fjölgaði um 94% í mars 2020 m.v. mars 2019

-          Samskipti milli skjólstæðinga og heilbrigðisstarfsfólks gegnum Heilsuveru hafa næstum þrefaldast síðan 2019

Þróun og möguleikar

Í þessu ástandi sem við höfum upplifað síðasta árið höfum við þurft að breyta út frá venjum til að minnka samneyti við mismunandi einstaklinga sem mest. Heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk heilsugæsla og annarra læknastöðva þurfti einnig að gera það. Til að minnka umferð á læknastöðvum var notast við myndasímtöl gegnum Heilsuveru. Þá gátu einstaklingar lýst sínu erindi og ef við átti, fengið úrlausn í gegnum símtalið.

Heilsuveruteymi Origo hefur haldið áfram að bæta við möguleikum í kerfið á síðasta ári. Bætt hefur verið inn valmöguleika um lyfjaumboð. Þar geta notendur skráð þá einstaklinga sem þeir vilja heimila til að leysa út lyf fyrir þeirra hönd.

Einnig er vinna fyrir almenn umboð á lokametrunum. Þar munu einstaklingar geta veitt öðrum aðgang að sínum upplýsingum í gegnum Heilsuveru. Þá getur umboðsaðili meðal annars sent skilaboð, bókað tíma hjá lækni og endurnýjað lyf. Umboðsaðili fær samt sem áður ekki aðgang að sjúkraskrám einstaklings.

Stafræn heilbrigðisþjónusta

Aukin notkun Heilsuveru gefur einstaklingum betri yfirsýn á heilbrigðisupplýsingar og eykur bæði þjónustu og öryggi.

2020 hefur verið ár breytinga og fengið okkur flest öll til að hugsa út fyrir kassann. Á þessu ári höfum við fengið möguleika til að þróa Heilsuveru áfram og sjáum ótal tækifæri til að halda áfram að þeirri uppbyggingu. Heilsuvera hefur sýnt styrkleika sinn sem miðlæg heilbrigðisgátt og getur átt stóran þátt í því að byggja upp frekari stafræna heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

https://images.prismic.io/new-origo/7b27b858-0c7b-483a-90ca-05701014c350_arna_hardardottir+%282%29.jpg?auto=compress,format

Höfundur blogs

Arna Harðardóttir

Sölu- og markaðsstjóri Heilbrigðislausna

Deila bloggi