10/09/2020

Fengu 10 daga til að þróa lausnir fyrir skimun á landamærum

Landamæraverkefnið

Origo hefur gegnt lykilhlutverki í skimun og prófunum á landamærum vegna Covid-19. Þar hefur reynsla og þekking Origo á umhverfi heilbrigðisþjónustunnar, hugbúnaðarþróunar og samtengingu stafrænna lausna stutt við aðgerðir stjórnvalda.

Landamæraskimunin er afar umfangsmikið verkefni sem var sett saman á metttíma. Landamæraeftirlitið hefur verið framkvæmt á flugvöllunum í Keflavík, Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum og auk þess við höfnina á Seyðisfirði.

55 starfsstöðvar á 14 stöðum á landinu

„Það er í raun magnaður árangur að ná að setja saman svo stórt og flókið verkefni sem landamæraskimunin er á aðeins 10 dögum. Það sem gerði þetta mögulegt er sú mikla breidd í þjónustu og lausnum Origo sem hefur gert félaginu mögulegt að bjóða í nánast alla þætti lausnarinnar, þ.m.t hefðbundinn tölvubúnað, sjálfsafgreiðslustanda, sérhæfða prentara og yfir í þróun hugbúnaðarlausna. Hugbúnaðarlausnirnar tengjast við sjúkraskrár, rannsóknarstofur og Heilsuveru, sem eru notaðar af heilbrigðisstarfsmönnum, almenningi, ferðamönnum, almannavörnum og fleirum í stjórnsýslunni," segir Björk Grétarsdóttir, verkefnastjóri hjá Origo.

Margir komu að verkefninu; almannavarnir, heilsugæslur, læknar, lögregla, Isavia og Origo. Í þessu viðamikla verkefni er heilsugæslan með 55 starfsstöðvar á 14 stöðum á landinu. ,,Þetta er ekki bara tæknilega flókið verkefni heldur þarf mjög mikið skipulag enda ferlar sem fara þvert á marga aðila. Og það má ekkert klikka enda svo mikið í húfi," segir Björk.

Þróuðu 3 stór hugbúnaðarkerfi

Guðjón Vilhjálmsson, forstöðumaður heilbrigðislausna Origo, segir að verkefnið hafa verið mjög umfangsmikið og tímaramminn afar stuttur. Hann segir að ótrúlega margt hafi þurft að ganga upp til að hægt væri að leysa verkefni af þessari stærðargráðu á 10 dögum. ,,Í raun þurfti að þróa þrjú tiltölulega stór hugbúnaðarkerfi á þessum tíma sem virka fullkomlega saman ásamt því að tengjast þeim innviðum sem þegar eru til staðar í heilbrigðiskerfinu, hjá sóttvarnalækni og almannavörnum."

Einn mikilvægasti hluti verkefnisins er að sögn Guðjóns að tryggja flæði upplýsinga milli aðila eins og rannsóknarstofa, almannavarna, sóttvarnalæknis, heilsugæslu og Covid göngudeildar en þar gegndi hugbúnaður sem þróaður var af Origo lykilhlutverki. ,,Í hvert skipti sem sýni greinist jákvætt fá allir viðbragðsaðilar upplýsingar um smitið í rauntíma sem og allar heilbrigðisstofnanir landsins sem gætu þurft að sinna þeim einstakling. Einnig þurfti að velja og setja upp vélbúnað á öllum landamærastöðvum á landinu, sú stærsta var Leifsstöð en í raun geta ferðamenn komið til landsins á öllum stærstu flugvöllum landsins auk þess að mikill fjöldi ferðamanna kemur til Seyðisfjarðar með Norrænu."

Sýnataka tekur ekki nema rúma mínútu

Guðjón segir að mikil áhersla hafi verið lögð á það í verkefninu að flæði ferðamanna í gegnum sýnatökubása gengi hratt og vel fyrir sig og að lítill tími færi í rafræna skráningu hjá starfsfólki í sýnatöku og má segja að það hafi tekist vel. ,,Mælingar strax eftir innleiðingu sýna að sýnataka tekur ekki nema rúma mínútu fyrir hvern farþega og tíminn sem fer í rafræna skráningu er aðeins lítið brot af þeim tíma. Í upphafi var gert ráð fyrir að sýnataka myndi taka um 2 mínútur fyrir hvern farþega."

Guðjón bætir við að áskorunin hafi verið mikil en verkefnið hafi gengið framar vonum. ,,Þetta gekk það vel að heilsugæslustöðvar hafa í kjölfarið beðið okkur um að almennar sýnatökur færu fram í gegnum þetta kerfi því að er svo miklu einfaldara en annað sem er í boði."

Gátu nýtt þekkingu frá öllum sviðum Origo

Björk segir að mjög mikið álag hafi verið á starfsmönnum Origo sem og öllum þeim sem að verkefninu komu. Það var oft mjög knappur tími sem við fengum til að bregðast við breytingum sem upp komu á upplýsingafundum. Um 10-15 starfsmenn Origo voru eins konar kjarnateymi en alls um 50 manns í fyrirtækinu unnu að þessu verkefni. Við gátum nýtt þekkingu úr öllum sviðum fyrirtækisins sem tengjast m.a. netöryggi, hýsingu, sjálfsafgreiðlsustanda, strikamerkja- og límmiðaprentara. Styrkleiki Origo sýndi sig mjög í þessu verkefni," segir hún.

Starfsfólk Origo sýndi mikla fórnfýsi 

Aðspurður hver var helsta áskorunin við verkefnið segir Ingi Steinar Ingason, sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis, að hún hafi snúist um að þróa flókna lausn með stórum ólíkum notendahópum á skömmum tíma. „það kom á óvart að svona flókið kerfi sem búið var til í svona miklum flýti hefur keyrt algjörlega vandræðalaust frá fyrsta degi.“

Hann segir að verkefnið hafi gengið ótrúlega vel; Origo hefur leyst alla hluti hratt og vel, þannig að eftir er tekið.

„Starfsmenn Origo hafa sýnt mikla fórnfýsi og þrautseigju og hafa unnið dag og nótt ef þörf er á með bros á vör. Breidd fyrirtækisins hefur þýtt að við höfum getað fengið allar lausnir frá einum aðila hvort sem um er að ræða veflausnir, öpp, vélbúnað, hýsingu eða þjónustu. Þetta hefur gert hið ómögulega verkefni, að búa til skimunarkerfi fyrir COVID-19 á landamærum á 10 dögum, mögulegt,“ segir Ingi Steinar.