11/02/2021

Heitasta tæknin 2021

Heitasta tæknin 2021

 

Fjarlausnir halda áfram að aukast

Hrönn V. Runólfsdóttir, gæða- og umbótastjóri hjá notendalausnum Origo:

„Eftir Covid þá munum við fara til baka inn í breyttan heim þar sem tæknin mun leika enn stærra hlutverk en áður. Með hjálp tækninnar munum við eiga auðveldar með að aðlagast nýjum raunveruleika. Ég tel að notkun á ýmiskonar fjarlausnum eigi eftir að halda áfram að aukast og hafa bein áhrif á okkar daglega líf. Hybrid eða blönduð kennsla og vinna, þar sem hluti nemenda eða starfsfólks mætir í skóla eða vinnu á meðan aðrir eru heima við verður eðlilegur hlutur. Okkur líkar vel þessi nýi rauveruleiki þar sem við getum nýtt tímann betur í stað þess að vera að ferðast á milli staða. Svo við tölum ekki um þau jákvæðu áhrif sem minni útblástur frá einkabílnum hefur á umhverfið.

Það er áskorun fyrir kennslustofnanir og fyrirtæki að mæta þessum nýja raunveruleika, að skapa jafngóða upplifun fyrir þá sem sitja við skjáinn heima og þá sem mæta á staðinn. Kennslustofnanir og símenntunarfyrirtæki þurfa að setja upp Hybrid kennslustofur þar sem streymi og gagnvirkir skjáir eru nauðsynlegir hlutir af kennslunni. Ef fyrirtæki hafa ekki gert fundarherbergin sín klár nú þegar, þá munu þau gera það á árinu. Það er mikilvægt að vera með rétta búnaðinn til að fundirnir verði markvissir og skapi þá upplifun að allir sitji við sama borð. Tækninni fleygir ört fram í fjarfundabúnaði, til að mynda þá eru fundarherbergi hjá Origo útbúin myndavélum sem hafa yfirsýn yfir herbergið en  zoomar inn á þann sem er að tala hverju sinni.

Aukin notkun á gervigreind

Við munum halda áfram að sjá aukna notkun á gervigreind (AI) í öllum geirum. Hún gerir okkur kleift að sjálfvirknivæða ýmislegt út frá gögnum, spá fyrir um trend, og þar af leiðandi getum við brugðist við strax. Nú eru flest fyrirtæki farin að hugsa um stafræna umbreytingu og með hjálp gervigreindar geta fyrirtæki og stofnanir sjálfvirknivætt ákveðna starfsemi hjá sér. Við sjáum notkun á gervigreind út um allt í umhverfinu okkar. Sem dæmi hafa fjölmörg fyrirtæki tekið upp spjallmenni á heimasíðum sínum sem svarar spurningum viðskiptavinarins í stað þjónusturáðgjafa. 

Það er oft ruglað saman viðbættum veruleika (AR) og sýndarveruleika (VR). Viðbættur veruleiki bætir við raunveruleikann á meðan sýndarveruleiki tekur hann alveg yfir. Við munum sjá aukningu af hvoru tveggja, í kennslu, tölvuleikjum, heilbrigðisþjónustu, verkfræði og viðskiptum. Viðbættur veruleiki getur til að mynda sett kennsluna í samhengi, dýpkað og gert hana skemmtilegri þar sem auka upplýsingar birtast notandanum á meðan hann er að nota appið, gleraugun eða það sem er verið að nota hverju sinni. Dæmi um þetta eru ýmiskonar filterar í öppum eins og Snapchat.

Nú þegar er sýndarveruleiki (VR) notaður mikið í tölvuleikjum og töluvert í kennslu. Í dag er hægt að fara í vettvangsferðir á söfn í gegnum sýndarveruleika og hann er notaður í þjálfun í læknisfræði, við endurhæfingu og í hermun í flugi. Að geta skoðað inn í mannslíkann, farið inn í tæki, ofan í sjó, upp í geim, inn í fortíðina og inn í óbyggð hús gefur óendanlega möguleika.

Við erum við farin að sjá Internet hlutanna (e. Internet of Things / IoT) í ótrúlegustu hlutum. Sífellt fleiri hlutir eru tengdir við netið inni á heimilum okkar. Til að mynda eru allmörg heimili með nettengdar ljósaperur og ísskápa. Við hjá Origo erum að selja vörur frá Google sem eru tengdar við internetið og gerir heimilið enn snjallara. Það er líka hægt að klæðast nettengdum hlutum og eru mörg okkar til að mynda með snjallúr. Í fyrrasumar byrjuðum við að selja sólgleraugu frá Bose sem eru með innbyggðum bluetooth hátalara. Þetta á bara eftir að aukast.”

Gervigreind mun þróast hratt í heilbrigðistækni

Arna Harðardóttir, viðskiptastjóri í heilbrigðislausnum Origo:

,,Árið 2020 hefur sýnt okkur þá möguleika sem fylgja heilbrigðistækni. Í Covid þurfti að bregðast fljótt við krefjandi aðstæðum og auka notkun fjarlækninga. Fjarlækningar geta aukið þjónustu til einstaklings til muna og auðveldað alla ferla innan heilbrigðiskerfisins. Covid sýndi okkur ýmsa nýja valmöguleika með aukinni notkun myndsímtala og öðrum stafrænum boðleiðum við heilbrigðisstarfsfólk. Einnig höfum við séð aukningu á notkun ýmissa appa í heilbrigðisþjónustu. Ég tel að 2021 færi okkur enn lengra í þessari þróun og mörg spennandi tækifæri eru framundan í heilbrigðistækni. Flest stóru tækifærin byggja að miklu leyti að aukinni gagnsöfnun bæði þvert á stofnanir og milli landa.

Gervigreind (e. Artificial intelligence) mun að öllum líkindum þróast hratt í heilbrigðistækni á þessu ári og komandi árum. Með aukinni notkun á stafrænni skráningu í heilbrigðiskerfinu er hægt að nýta þá gagnasöfnun fyrir gervigreind. Þá er til dæmis hægt að kortleggja flókinn og nákvæman feril einstaklings í gegnum heilbrigðiskerfið. Þá er hægt að greina ákveðin atriði í ferlinu fyrr en væri kannski gert annars. Ýmsar væntingar eru líka að öll þessi gagnasöfnun getur bætt og flýtt til að mynda þróun lyfja þar sem gervigreindin getur greint og metið mikið magn af gögnum mun hraðar en hægt væri annars.

Sýndarveruleiki (e. Virtual reality) mun geta styrkt þessa framþróun mikið. Sýndarveruleiki getur boðið upp á frekari dýpt í samskiptum heilbrigðisstarfsfólks við sína skjólstæðinga ef notast er við fjarlækningar. Einnig hafa verið spennandi rannsóknir víða um heim um notkun sýndarveruleika við hinar ýmsu meðferðir. Má þar nefna endurhæfingu eftir slys og aðgerðir eða sálfræðilegar meðferðir. Einnig hefur verið horft á sýndarveruleika sem gagnlegt tól í kennslu fyrir lækna og hjúkrunarfræðinga.

Öryggismálin í brennidepli

Inga Steinunn Björgvinsdóttir, sölustjóri hjá Origo:

Vitund um mikilvægi öryggis í upplýsingatækni hefur aukist til muna undanfarin misseri. Hvað sem því líður þá þróast aðferðir tölvuþrjóta á ógnarhraða og þurfum við sem erum að vinna í öryggismálum því að gera það líka.

Það er okkar von að öryggisvitund haldi áfram að aukast enn frekar á nýju ári. Fyrirtæki og stofnanir virðast vera að vakna til lífsins hvað varðar tölvuöryggismál. Það þarf að huga að öryggismálum sama hversu lítið eða stórt fyrirtækið er. Það hefur sýnt sig á síðustu mánuðum að tölvuþrjótar eru orðnir mjög óvægir og árásum fjölgar ekki síst í kjölfar Covid þar sem fjarvinna hefur aukist mjög mikið. Stórar árásir á íslensk og erlend fyrirtæki og stofnanir undanfarið hafa sýnt það er á allra ábyrgð að vera með öryggismálin á hreinu.

Það er ekki hægt að bregðast við eftir á. Fyrirtæki þurfa að vera meðvituð um að það eru mikil verðmæti fólgin að vera vel varin á netinu. Fyrirtæki sem lenda í tölvuárásum geta orðið fyrir töfum eða jafnvel stöðvun á starfsemi og þannig tapað miklum fjármunum. Það er því dýrkeypt að hafa ekki réttu öryggislausnirnar til staðar. Þörfin fyrir slíkar varnir fer ekki eftir stærð fyrirtækisins eða fjölda starfsmanna. Þótt fyrirtækið sé ekki mjög stórt eða fjölmennt þá er það í samskiptum við viðskiptavini og samstarfsaðila og þurfa þar af leiðandi að verja þau samskipti og þau gögn sem verða til.

Næsta kynslóð vírusvarna og DdoS-öryggisvarnarbúnaður

Við hjá Origo höfum byggt upp öflugt teymi öryggissérfræðinga sem vinna að því að tryggja öryggi okkar viðskiptavina. Við hjálpum viðskiptavinum okkar að kortleggja sitt umhverfi með Origo öryggismati og leggjum til viðeigandi úrbætur í kjölfarið. Þar mætti meðal annars nefna næstu kynslóð vírusvarna sem veitir víðtækari og nútímalegri vernd, m.a. með notkun gervigreindar til að greina möguleg árásarmynstur tölvuþrjóta. Það veitir ekki af því þar sem sem árásir eru nú þróaðri og það hefur það aukist að  hefðbundinn vírusvarnarhugbúnaður er ekki fær um að veita fulla vernd.

DdoS-álagsárásum (Distributed Denial of Service) hefur fjölgað mjög. Þær valda fyrirtækjum ört vaxandi vandræðum. Sökum þess hve margar tölvur taka þátt í árásinni dugar ekki að loka á umferð frá einni tölvu. Árásir sem þessar geta valdið því að vefsíður fara niður eða virka ekki sem skyldi sem getur það haft í för með sér mikið fjárhagslegt tjón og neikvæða umfjöllun. Origo býður uppá sérstakan DDoS-varnarhugbúnað sem tryggir öryggi og uppi tíma vefsíðna og netkerfa í samstarfi við öflugasta fyrirtæki heims á því sviði, Cloudflare.