13/12/2022 • Magnús Már Steinþórsson
Miðlægt lyfjakort og kostir þess fyrir heilbrigðiskerfið
Heilbrigðisstarfsfólki getur reynst erfitt að fá góða yfirsýn yfir lyfjameðferð skjólstæðinga en með miðlægum lyfjaupplýsingum mun fást betri yfirsýn yfir lyfjanotkun og lyfjaávísanir sem mun auka öryggi til muna.
Í fyrirlestri sem Sigríður Pálína Arnardóttir Lyfjafræðingur hélt á málþinginu Lyf án Skaða kom fram að opinberar tölur í Noregi benda til að kostnaður vegna rangrar lyfjanotkunar sé gífurlega hár, en þar er áætlaður kostnaður um 74 milljarðar íslenskra króna á ári. Ef þessi kostnaður er heimfærður yfir á Ísland má gera ráð fyrir að röng lyfjanotkun kosti um 5 milljarða íslenskra króna á hverju ári. Þá er ekki tekið mið af því að lyfjaverð er almennt hærra hér landi en í Noregi og því má gera ráð fyrir enn hærri raunkostnaði.
Miðlægt lyfjakort - aukin yfirsýn og minni kostnaður
Heilbrigðisstarfsfólki getur reynst erfitt að fá góða yfirsýn yfir lyfjameðferð skjólstæðinga með því að rýna í upplýsingar sjúkraskrárkerfa eða í lyfjaávísanir í Lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis. Markmiðið með miðlægu lyfjakorti er að miðla upplýsingum um lyfjanotkun einstaklinga í rauntíma. Á það bæði við um almenn lyf sem sótt er í apótek sem og lyf sem eru gefin á dagdeildum sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana.

Með miðlægum lyfjaupplýsingum næst betri yfirsýn yfir lyfjanotkun og lyfjaávísanir sem eykur öryggi til muna. Þannig mun kostnaður minnka og verðmætur tími heilbrigðisstarfsfólks sparast. Starfsfólk eyðir miklum tíma í að fletta upp í gögnum skjólstæðinga frá öðrum stofnunum til að komast að því hvaða lyfjum hefur verið ávísað eða gefin á stofnun.
Upplýsingar um miðlægt lyfjakort verða geymdar í Heklu heilbrigðisneti, eins og önnur sambærileg gögn en þangað munu allar heilbrigðisstofnanir og apótek sem koma að lyfjameðferð einstaklinga tengjast.

Einnig mun miðlægt lyfjakort hjálpa til við að koma í veg fyrir að einstaklingar geti fengið sama lyf ávísað af fleiri en einum lækni og þar með minnkar svokallað ‚,lyfjaráp‘‘.

Kostirnir eru því ótvíræðir fyrir þjóðfélagið, skipulag eykst og upplýsingar flytjast með einstaklingum þegar þeir færast á milli þjónustustiga.
Aukin ábyrgð einstaklinga
Þegar fram í sækir mun lyfjakortið verður aðgengilegt einstaklingum í gegnum Heilsuveru sem geta þannig skoðað lyfjakortið í rauntíma, ásamt því að óska eftir endurnýjun eins og áður. Við trúum því að ábyrgð einstaklinga á sinni heilsu eykst með betra aðgengi að upplýsingum um eigin meðferð.
Hér má sjá erindi frá á Notendaráðstefnu Heilbrigðislausna þar sem fjallað var um Miðlægt Lyfjakort:
Höfundur blogs
Magnús Már Steinþórsson
Vörustjóri Heilbrigðislausna
Deila bloggi