05/10/2021 • Arna Harðardóttir

Nýsköpun og vöruþróun: Heilbrigðislausnir Origo

Heilbrigðislausnir

Covid-19 faraldurinn hraðaði stafrænni þróun í heilbrigðisþjónustu svo um munar. Mikið af þeim áskorunum sem upp komu, eins og skipulag skimana, rakning smita og utanumhald smitaðra einstaklinga þurfti að leysa með upplýsingatækni. Lausnir íslenska heilbrigðiskerfisins á þessum áskorunum vöktu mikla athygli utan landsteinanna en velgengnina má að stórum hluta þakka mikilli uppbyggingu stafrænna innviða.

Heilbrigðislausnir Origo hafa verið leiðandi í þróun á fjölbreyttum stafrænum lausnum fyrir heilbrigðiskerfið síðustu 30 ár. Sjúkraskrákerfið Saga var tekið í notkun árið 1993 og umbylti skráningu sjúkraskráupplýsinga hér á landi. Þróun Heilsuveru sem miðlæg heilbrigðisgátt var önnur mikilvæg stoð en hún einfaldar samskipti við heilbrigðisstarfsfólk til muna og gefur einstaklingum aukinn aðgang að sínum heilbrigðisupplýsingum. Til að mynda fjölgaði lyfjaendurnýjunarbeiðnum gegnum Heilsuveru um 94% milli ára og er hægt að áætla að það hafi sparað heilbrigðisstarfsfólki gríðarlegan tíma sem áður fór áður í að svara beiðnum um lyfjaendurnýjanir.

Mikilvægi fjarheilbrigðisþjónustu á eftir að aukast til muna á næstu árum en þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu með hækkandi hlutfalli aldraðra er alltaf að aukast en fjöldi sérhæfðra heilbrigðisstarfsmanna mun ekki aukast í sama hlutfalli. Nokkur skref hafa verið tekið í þessa átt, t.a.m. utanumhald sjúklinga gegnum Heilsuveru. Þar er hægt að fylgjast með líðan einstaklinga með reglulegum spurningalistum og fræðsluefni (Nánar: blogg - Stafræn heilbrigðisþjónusta). Aukin notkun lausna eins og Heilsuveru færir einstaklinginn nær sinni meðferð og getur aðstoðað hann við að taka upplýstar ákvarðanir í málum sem varða eigin heilsu. Vegna smæðar okkar erum við á Íslandi í einstakri stöðu að standa einna fremst hvað varðar samvinnu einstaklinga og kerfisins í gegnum stafrænar heilbrigðislausnir.

Sérfræðingar með reynslu og þekkingu

Rúmlega 60 sérfræðingar starfa innan heilbrigðislausna Origo. Starfsmenn með fjölbreyttan bakgrunn, en öll með sama markmið - að smíða hugbúnaðarlausnir sem bæta þjónustu heilbrigðiskerfisins - fyrir heilbrigðisstarfsmenn en einnig fyrir almenning.

Héðinn Jónson er vörustjóri heilbrigðislausna Origo, hann er menntaður sjúkraþjálfari og heilsuhagfræðingur og hefur starfað innan mismunandi eininga velferðarkerfisins síðustu ár. Hann horfir lausnamiðað á þær áskoranir sem finna má í heilbrigðiskerfinu og leitar leiða hvernig megi leysa þær með upplýsingatækni.

Það hefur alltaf verið ástríða mín að starf mitt snúi að því að bæta lífsgæði annarra. Með því að starfa í upplýsingatækni á sviði heilbrigðislausna sé ég möguleikana á því að hafa áhrif á líf svo margra einstaklinga

Héðinn Jónson

vörustjóri heilbrigðislausna Origo

Héðinn Jónsson, vörustjóri í heilbrigðislausnum OrigoHéðinn Jónsson, vörustjóri í heilbrigðislausnum Origo

Að sögn Héðins er framtíðin björt og spennandi fyrir heilbrigðislausnir og vonar hann að stærsta breytingin á næstu árum verði að einstaklingurinn verði með betri yfirsýn yfir sín heilbrigðismál og þar af leiðandi stærri þáttakandi í sinni meðferð. „Kerfin okkar eiga að vera stuðningur við einstaklinginn og þannig færum við valdið til þeirra. Heilbrigðiskerfið styður svo einstaklinginn í sínum ákvörðunum og sinni meðferð“ .

Næstu verkefni: Aukin yfirsýn með stafrænu viðmóti

Starfsfólk heilbrigðislausna Origo eru í sífelldri þróun og nýsköpun á okkar lausnum. Stór hluti af okkar vinnu byggir á sjúkraskránni Sögu, en þar sjáum við mikil tækifæri til að þróa hana áfram og koma meðal annars yfir í vefviðmót.

Sú breyting gefur okkur tækifæri til að taka stærri skref í verkefnum okkar tengdum nýsköpun og þróun. Þau skref tökum við með eftirfarandi áherslur í huga

  • Einstaklingur hafi yfirsýn yfir mál sín í Heilsuveru

  • Starfsfólk hafi yfirsýn yfir einstaklinga á þeirra ábyrgð

  • Yfirsýn þvert á stofnanir

Við erum stolt af því að vera leiðandi í þróun á heilbrigðislausnum á Íslandi og þakklát fyrir áframhaldandi farsæla samvinnu með heilbrigðiskerfinu.

Hefur þú áhuga á meira efni um þróun heilbrigðislausna?

Hér að neðan getur þú skráð þig á póstlista svo þú fáir upplýsingar um nýtt fræðsluefni tengt heilbrigðislausnum Origo.

https://images.prismic.io/new-origo/7b27b858-0c7b-483a-90ca-05701014c350_arna_hardardottir+%282%29.jpg?auto=compress,format

Höfundur blogs

Arna Harðardóttir

Sölu- og markaðsstjóri Heilbrigðislausna

Deila bloggi