15/02/2021
Origo aðstoðar WHO við þróun á bólusetningarvottorði
Sérfræðingar frá Origo aðstoða Alþjóða heilbrigðismálastofnunina (World Healthcare Organization) við þróun á stafrænu bólusetningarvottorði. Ísland er fyrst þjóða til að gefa út stafrænt bólusetningarvottorð en lausnin, sem er þróuð af Origo, hefur vakið athygli víða um heim.
Bólusetningarverkefnið er tvíþætt, en það snýr annars vegar að bólusetningum og hins vegar útgáfu bólusetningarvottorða. „Við höfum unnið hörðum höndum síðustu vikur við lausnina sem heldur utan um bólusetningar. Þróunarvinnan gekk hratt fyrir sig og við teljum okkur geta brugðist í skyndi við breytingum sem koma síðar,“ Segir Björk Grétarsdóttir, verkefnastjóri hjá Origo.

Ísland var fyrst þjóða til að gefa út bólusetningarvottorð og hafa nú þegar nokkur hundruð Íslendingar fengið vottorð.
,,Bólusetningarvottorðin eru hluti að evrópskri samvinnu. Hægt er að sækja um vottorð um leið og seinni bólusetningu lýkur. Sótt erum vottorðið á Heilsuveru með rafrænum skilríkjum. Það hefur nýst okkur vel að nota Heilsuveru, sem búið er að leggja mikla vinnu í, fyrir Covid-19 verkefni,” segir Arnaldur Skúli Baldursson, vörustjóri Heilsuveru hjá Origo.
Gott gengi Íslands í baráttunni gegn Covid-19 hefur vakið mikla athygli utan landsteinanna. Meðal annars hafa fulltrúar frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum sagt frá þeim lausnum sem Íslendingar hafa notast við í baráttu sinni á alþjóðlegum fundum og ráðstefnum. Ísland þykir standa afar framarlega í gerð hugbúnaðarlausna og eru til að mynda sérfræðingar hjá Origo að aðstoða WHO (World Healthcare Organization) í frekari þróun á bólusetningarvottorðum.