16/10/2020 • Jóhann Rúnar Þorgeirsson

Svona einfalt er að búa til hlaðvarp

Hlaðvörp eru geysivinsæl um þessar mundir og því kemur ekki á óvart að það eru margar lausnir í boði þegar kemur að velja búnað fyrir hlaðvörp. Ef þú ert að byrja með hlaðvarp þá getur verið erfitt að gera sér grein fyrir hvaða búnaður er mikilvægur til að koma sér af stað. Það er nefnilega alls ekki nauðsynlegt að hlaupa af stað og kaupa allan búnað strax. Þó það sé hægt að byrja með hlaðvarp með aðeins snjallsíma í hönd og nettengingu, þá mælum við eindregið með að notast hið minnsta við góða tölvu og hljóðnema. Góð hljómgæði skipta öllu máli til að gott hlaðvarp skili sér til hlustandans.  

Við mælum með að byrja einfalt og bæta svo við eftir þörfum.  

Við erum búin að taka saman nokkrar mismunandi lausnir og fróðleik sem gæti nýst þér ef þú hefur hug á að byrja með hlaðvarp.  

Tölva 

Þú þarft tölvu til að taka upp og hlaða niður .mp3 skránum þínum. Ef þú átt nýlega tölvu, þá ætti hún í flestum tilfellum að duga. Hins vegar ef tölvan er orðin gömul þá er upplagt að kíkja í verslun Origo en þar erum við með fjölbreytt úrval af Lenovo tölvum. Við mælum með tölvu sem er með a.m.k. 16 GB vinnsluminni þar sem þú vilt geta haft möguleikann á að bæta við einum skjá eða fleirum. Við upptöku þá er mjög líklegt að þú viljir hafa nokkur forrit í gang á sama tíma.  

Forrit  

Það eru til þó nokkur forrit til að nota við upptöku. Við upptökur á hlaðvarpi þá mælum við með að vera með einfalt og gott forrit. Til dæmis er Audacity frítt og virkar það vel á bæði Windows og Mac. Ef þú ert að taka upp margar rásir í einu þá er mælt með að skoða önnur forrit. Þar eru vinsælust ReaperPro Tools og Logic Pro (Mac). 

Hljóðnemar 

Þú þarft að hafa góðan hljóðnema sem hentar þínu rými og aðstæðum. Staðsetning hljóðnemans skiptir líka miklu máli. Það er mikilvægt að staðsetja sig nálægt hljóðnemanum til þess að fá sem minnst af rými inn á hljóðupptökuna. 

Hægt er að kaupa einfaldan USB-hljóðnema sem tengist beint í tölvu. Þessir hljóðnemar eru mjög einfaldir í uppsetningu og henta vel fyrir þá sem eru að byrja með hlaðvörp. Það er bara hægt að tengja einn svona hljóðnema við hverja tölvu og hentar þeir því best þegar það er bara einn að tala.

Algengast er að vera með hljóðnema með svokölluðu XLR tengi. Þá er hægt er að vera með mikinn fjölda af hljóðnemum tengda á sama tíma. Til þess að koma hljóðinu úr hljóðnemum með XLR tengi þarf að tengja hljóðkort eða mixer við tölvuna. 

Tvær tegundir hljóðnema eru algengastar við upptökur á hlaðvörpum, annars vegar „condenser“ hljóðnemar og hinsvegar „dynamic“ hljóðnemar. 

Condenser hljóðnemar eru mjög næmir og taka upp skýrt og gott hljóð. Þessir hljóðnemar eru algengastir í að taka upp hljóðfæri og raddir í þeim tilgangi að skila upptökunni til hlustandans á sem náttúrulegastan hátt sem hægt er. 

Dynamic hljóðnemar eru gríðarlega vinsælir á útvarpsstöðvum og hjá þeim sem vilja að hlustandi upplifi að sá sem talar hljómi eins og hann sé risastór. Þessi tegund af hljóðnemum þarf meiri kraft frá viðmælanda til að fá skýran hljóm og þar af leiðandi kemur minni herbergishljómur inn á upptökuna. 

Hljóðnemar sem við mælum með: 

Hljóðkort og mixerar 

Gott er að vera með utanáliggjandi hljóðkort eða mixer til þess að fanga sem best hljóðið sem kemur úr hljóðnemanum. Formagnarar í hljóðkortum eru af hærri gæðum en þeir sem eru t.d. innbyggðir í USB-hljóðnemum. Algengast er að byrja á tveggja til fjögra rása hljóðkorti en það fer eftir fjölda viðmælenda. Gott er að hugsa vel um hvort að þörf sé á að hafa auka innganga lausa ef fjöldi viðmælanda verður meiri seinna. Mixerar með innbyggðum hljóðkortum eru oft með fleiri innganga sem er hægt að blanda saman inn á upptökuna. Þetta getur hentað þeim vel sem þurfa að tengja hljóðfæri eða margar tölvur saman og taka upp eða senda út í beinni útsendingu. 

Hljóðkort og mixerar sem við mælum með: 

Rýmið 

Rými er mikilvægur þáttur ef vel á að takast til við upptöku. Mikill glymjandi hentar illa fyrir upptökur á samtölum. Best er ef þú gætir komið þér vel fyrir í dempuðu rými. Gott er að hafa teppi, sófa, bókahillur og allt sem brýtur upp hljóðbylgjur til þess að minnka endurkast af veggjum og gólfi. Einnig er gott að forðast mikinn utanaðkomandi hávaða, til að mynda henta kaffi- og veitingahús illa fyrir upptöku á viðtölum. Umferð getur einnig truflað mikið og það er gott ráð að loka öllum gluggum áður er upptaka á viðtalinu hefst. 

Aukahlutir 

Góð heyrnartól eru mikilvægur aukahlutur sem gerir þér kleift að hlusta á upptökuna bæði meðan hún á sér stað og eftir að henni er lokið til að athuga hvernig til tókst. Mælt er með að allir viðmælendur séu með heyrnartól til þess að heyra vel í hvert öðru og vera meðvitaður um að allir séu að tala í hljóðnemann. 

Hér eru nokkur heyrnartól sem við mælum með: 

Gott er að hafa góða festingu fyrir hljóðnemann. Það er vinsælt að notast við arm, en þeir eru mjög meðfærilegir og auðvelt er að færa þá til. Standar sem settir eru upp á borð eru einnig mikið notaðir og mjög einfalt er að koma þeim fyrir. En allt fer þetta eftir aðstæðum og þeim hljóðnema sem er valinn hverju sinni. 

Þessi festing og standur hafa verið vinsæl hjá okkur:

Ef þú ert mikið á ferðinni þá geturðu notast við minni upptökutæki sem þurfa ekki að tengjast tölvu. Það eru til nokkrar gerðir af tækjum. Á sumum er hægt að taka beint upp í gegnum hljóðnemana á tækinu sjálfu. Ef þú ert nú þegar búinn að fjárfesta í góðum hljóðnemum þá geturðu tengt þá beint í græjuna. Tascam DR-40Xupptökutæki hefur verið mjög vinsælt hjá okkur.

Ekki má gleyma að eiga gott minniskort í upptökutækið. Við mælum með að eiga allavegana eitt minniskort aukalega ef eitt kortið fyllist og ekki næst að flytja upptökurnar á annað tæki.  

Ef þig vantar aðstoð við að setja upp hlaðvarpið þitt, þá máttu endilega hafa samband við okkur. Hjá Origo starfar fjöldinn allur af reynslumiklum sérfræðingum í hljóðlausnum sem elska að búa til gott hlaðvarp.

https://images.prismic.io/new-origo/34654d20-62d3-4e0f-b31c-f8c94e5f60d7_Johann_Runar.jpg?auto=compress,format

Höfundur bloggs

Jóhann Rúnar Þorgeirsson

Söluráðgjafi í hljóð og myndlausnum

Deila bloggi