29. APRÍL 2021

Árshlutauppgjör Origo F1 2021

EBITDA 301 mkr á fyrsta ársfjórðungi 2021

Helstu fjárhagsupplýsingar:Helstu fréttir úr starfsemi:
Sala á vöru og þjónustu nam 4.174 mkr á fyrsta ársfjórðungi 2021 (2,4% tekjusamdráttur frá F1 2020) [F1 2020: 4.277 mkr]Origo keypti 100% hlut í netöryggisfyrirtækinu Syndis ehf.
Framlegð nam 1.094 mkr (26,2%) á fyrsta ársfjórðungi 2021 [F1 2020: 1.050 mkr (24,6%)]Origo fjárfesti í 30% eignarhlut í tæknifyrirtækinu Datalab
EBITDA nam 301 mkr (7,2%) á fyrsta ársfjórðungi 2021 [F1 2020: 237 mkr (5,5%)]44% vöxtur í sölu á eigin hugbúnaði
Rekstrarliðir færðir beint á eigið fé voru neikvæðir um 18 mkr á fyrsta ársfjórðungi [F1 2020: +460 mkr]Áframhaldandi vöxtur á notendabúnaði þrátt fyrir vöruskort
Heildarhagnaður nam 163 mkr á fyrsta ársfjórðungi [F1 2020: 425 mkr]Stærsti fjórðungur í sögu Tempo
Eiginfjárhlutfall er 58,6% en var 56,5% í lok árs 2020
Veltufjárhlutfall er 1,20 en var 1,27 í lok árs 2020

Jón Björnsson forstjóri Origo hf:

„Fyrsti fjórðungur 2021 kemur ágætlega út fyrir félagið. Samanburður við fyrra ár er vissulega erfiður sökum breytinga í efnahagslífinu, sem urðu á sama fjórðungi síðasta árs. Fjórðungurinn endar 2,4% undir veltu síðasta árs sem skýrist eingöngu af lítilli innviðasölu miðað við síðasta ár þegar fyrirtækið gekk frá stórum sölum til gagnavera. Tekjur annarra þátta eru hins vegar að vaxa. Rekstrarafkoma er góð en félagið skilar 10% hærri EBITDA en á 1F 2020 og afkomulega séð besta 1F í þrjú ár. Sá árangur byggir að mestu leyti á tekjusamsetningu og lægri rekstrarkostnaði. Þá er ánægjulegt að sjá frábæran árangur hjá Tempo.

Origo hefur keypt 100% hlut í Syndis, einu fremsta og mest spennandi netöryggisfyrirtækis landsins. Með kaupunum munu öryggislausnir Origo og Syndis sameinast undir vörumerki Syndis. Markmiðið með kaupunum er að taka tvær sterkar einingar sem bæta hvora aðra upp og hafa verið á fleygiferð í netöryggismálum. Með þessum kaupum skipum við okkur fremst í flokki innan öryggismála í stafrænum heimi hérlendis. Við sjáum þetta sem sterka einingu sem býður heildstæða stafræna öryggisþjónustu og ráðgjöf. Origo hefur um árabil byggt upp öflugt sérfræðingateymi í öryggislausnum sem er með sterkt bakland birgja. Ljóst er að sá hópur sem verður hluti af Syndis muni stækka lausnaframboðið og þekkingu til muna á einum mest stækkandi markaði innan upplýsingatækni. Við munum geta boðið sólarhringsvöktun á kerfum, aukna netöryggisþjónustu og ráðgjöf í skýjaþjónustu ásamt því að framkvæma öryggisprófanir, kóðarýni og fræðslu fyrir starfsfólk og sérstök námskeið fyrir forritara. Syndis mun jafnframt leitast við að efla nýsköpun í formi þróunar á aðferðum til að fylgjast með UTumhverfi viðskiptavina, áhættugreina ytra umhverfi og veita ráðgjöf til að aðstoða fyrirtæki sem þurfa að uppfylla hlítingum.
Origo hefur einnig keypt 30% hlut í tæknifyrirtækinu DataLab, sem þróar lausnir sem byggja á gervigreindartækni og veitir ráðgjöf um hagnýtingu slíkra lausna. Markmið með kaupum í DataLab er að efla þjónustu á gagnadrifnum og snjöllum lausnum, þar sem fjölbreytt gögn og aðferðir úr smiðju gervigreindar og gagnavísinda eru nýttar til að sjálfvirknivæða viðskiptaferla, bæta upplifun notenda, auka sölu, draga úr óvissu, áhættu og kostnaði og auka skilvirkni í rekstri.

Kaupin á Syndis og fjárfestingin í Datalab eru hluti af þeim breytingum sem við erum að gera í rekstrarþjónustu Origo. Miklar breytingar hafa orðið á UT umhverfi fyrirtækja með aukinni sókn hugbúnaðar í skýið og minni áherslu á eigin gagnaver. Það hefur breytt eðli innviðasölu og eru þær nú töluvert færri en áður en að sama skapi stærri þegar þær koma. Rekstrarumhverfið er að breytast og fyrirtæki hafa í auknum mæli meiri þörf fyrir viðtækari þjónustu í kringum hvernig þau vinna í fjölbreyttara umhverfi; hvernig þau nýta gögn og hvernig þau gæta að öryggi gagna og reksturs. Origo leggur áherslu á að geta tekið við þjónustu og rekið hana fyrir viðskiptavini, hvort sem hún er hýst á Íslandi eða hjá erlendum skýjum.
Origo vinnur að því að gera slíka þjónustu enn betri og hagkvæmari. Fjárfesting okkar í eigin innviðum er á lokametrum og getum við nú boðið íslenskum fyrirtækjum landfræðilegan aðskilnað kerfa og gagna, tvöfalda uppsetningu á milli kerfissala auk þess að reka og vakta þjónustu viðskiptavina í skýinu. Samhliða því sjáum við tækifæri í nýtingu á grænni orku, uppbyggingu sem hefur átt sér stað í gagnaverum innanlands og aukinni eftirspurn eftir HPC reikniþyrpingum. Við erum að stíga skref í þá átt að bjóða slíka þjónustu til viðskiptavina innanlands sem utan.

Á hugbúnaðarsviðum félagsins er viðvarandi vöxtur. Origo er sterkt í viðskiptahugbúnað frá þriðja aðila og hefur bætt sig í þróun eigin lausna innan viðskiptahugbúnaðar eins og SAP, SAP S/4Hana og Microsoft Business Central. Félagið brýtur nú nýtt blað í sögu sinni með því að setja á fyrsta fjórðungi þrjár eigin hugbúnaðarvörur fyrir Business Central á markaðstorg Micrsoft og væntir þess að bæta við einni nýrri á öðrum ársfjórðungi. Í eigin hugbúnaði, sem er nokkuð vel skilgreindur í kringum heilbrigðismarkaðinn, mannauðslausnir, gæðakerfi og lausnir fyrir ferðaþjónustu, hefur gengið vel en um 44% aukning er í tekjum milli ára. Mesti vöxturinn er innan sprotahlutans, eða 68%, en þar eru sex mismunandi lausnir á nokkuð breiðu þroskastigi. Almennt séð var verkefnisstaða góð á 1F og vel hefur tekist til að við vinnu er tengist endurskipulagningu sölu- og markaðsstarfs og samhæfingar þátta er lúta að markaðsstarfi og hvernig við vinnum með okkar kjarnasvið.

Sala og áherslur Origo í notendabúnaði heldur áfram jákvæðri vegferð á þessu ári. Notendabúnaður skilar 5% aukningu ofan á 38% aukningu s.l. ár þrátt fyrir töluverðar áskoranir á innkaupahliðinni, en verulegur vöruskortur hefur verið á vélbúnaði vegna skorts á örgjörvum í heiminum. Origo er með áherslusvið sem snýr að stafrænni skrifstofu þar sem viðskiptavinir geta treyst því að fá heildarlausn, ráðgjöf og þjónustu í nútímaumhverfi. Innan þess má nefna fjarfundalausnir, snjallheimilið og snjallskrifstofuna. Fjárfesting Origo í afgreiðslutengdum lausnum er farin að hafa jákvæði áhrif á rekstur félagsins enda margar lausnir sem eru í mikilli eftirspurn þegar fyrirtæki leggja meiri áherslu á hagræðingu og stafrænt viðmót. Hér má nefna vörur eins og sjálfsafgreiðslukerfi, biðraðakerfi, skanna og rafræna hillumiða.

Hjá Tempo var fyrsti ársfjórðungur 2021 stærsti fjórðungur sem fyrirtækið hefur séð. Breytingar á skilmálum Atlassian markaðstorgsins, sem fólu í sér að Atlassian er hætt að selja hefðbundin hugbúnaðarleyfi og einblínir á stuðning við gagnaver og skýjalausnir, höfðu mjög jákvæð áhrif á sölu á fyrsta ársfjórðungi. Ekki er búist við sama vexti í öðrum ársfjórðungi. 32% tekjuvöxtur var á fyrsta ársfjórðung og 43% EBIDTA vöxtur. Fyrirtækið stendur mjög vel fjárhagslega og unnið er markvisst að stöðugum umbótum á eiginleikum varanna og sjálfvirknivæðingu en Tempo stefnir að því að vera leiðtogi á sviði stafrænna tímaskráninga og ná einnig frekari fótfestu utan Atlassian markaðstorgsins. Félagið bætti við sig töluvert af starfsfólki á fyrsta ársfjórðungi og langri leit að forstjóra lauk með ráðningu Mark Lorian, en hann er með mjög sterkan bakgrunn í rekstri fyrirtæki á borð við Tempo. Mark hefur mikla reynslu af sölu hugbúnaðar og tæknilausna auk þess að hafa reynslu að því að stýra stækkandi hugbúnaðarfyrirtæki.

Origo tók fyrstu skref í að skerpa samfélagslegar áherslur Origo á seinni hluta síðasta árs og ljóst að félagið getur gefið mikið af sér þegar kemur að jafnrétti kynjanna, eflingu nýsköpunar, umhverfismálum, heilsu og vellíðan starfsfólks. Félagið hefur sett sér markmið í sjálfbærnimálum og mun reglulega fylgja eftir þeim mælingum sem það notar við að ná frekari árangri á þessu sviði. Origo stefnir að auknum hlut kvenna í tæknistörfum og af 25 nýráðningum 2021 eru 52% konur.

Origo á von á ágætu framhaldi af fyrsta fjórðungi inn á annan fjórðung ársins. Áframhaldandi vinna félagsins í að gera einingar sjálfstæðari og vinna í auknum sveigjanleika og hagræðingu er ætlað að skila sterkara fyrirtæki og bættum rekstri. Með markvissri nálgun í sölu- og markaðsmálum munum við ná að nýta þá stærðarhagkvæmni sem félagið hefur yfir að ráða og byggja betur undir sterka stöðu okkar sem þjónustufyrirtæki með framtíð í að hjálpa fyrirtækjum og einstaklingum að takast á við og nýta sér tækifærin í tækni og þeim breytingum sem stafrænt umhverfi hefur fram að færa. Framundan er töluvert af stórum og spennandi umbreytingarverkefnum í umhverfinu ásamt því að við erum vongóð að verkefni tengd ferðaiðnaðinum fari í gang á næstu mánuðum. Samhliða þessu erum við mjög spennt fyrir verkefnum í upplýsingaöryggi og teljum það vera lykilatriði að hjálpa fyrirtækjum og stofnunum að auka öryggisvitund þeirra og hlúa að stafrænum öryggismálum, ekki síður en þau huga að öðrum öryggismálum sínum.“