8. JANÚAR 2021

Breytingar á framkvæmdarstjórn Origo hf. -Sylvía Ólafsdóttir ráðin framkvæmdarstjóri viðskiptaþróunar og markaðsmála.-

Sylvía Ólafsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og markaðsmála hjá Origo og tekur sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Sylvía kemur frá Icelandair þar sem hún hefur verið forstöðumaður leiðakerfisins.

Sylvía hefur starfað fyrir Landsvirkjun þar sem hún var deildarstjóri jarðvarmadeildar á orkusviði og fyrir Amazon í Evrópu, fyrst við rekstur og áætlanagerð og síðan við Kindle deild fyrirtækisins þar sem hún sá um viðskiptagreind og vöruþróun fyrir vefbækur auk þess að leiða greiningar- og stefnumótunarvinnu fyrir samningagerð við bókaútgefendur.

Sylvía er með M.Sc. próf í Operational Research frá London School of Economics og B.Sc. próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur sinnt stundakennslu við verkfræðideild HÍ í rekstrarfræði, kvikum kerfislíkönum og verkefnastjórnun (MPM). Sylvía situr einnig í stjórn Ölgerðarinnar og Símans.

Hlutverk Sylvíu hjá Origo verður að styrkja og gera vöru- og lausnarframboð félagsins skýrara, vinna að þróun kjarnamarkaða og efla vörumerki Origo.

Sylvía mun hefja störf í mars.

Jón Björnsson forstjóri Origo er afar ánægður með að fá Sylvíu í teymið. „Það er frábært að fá Sylvíu til liðs við Origo. Við erum á fleygiferð að ná að pakka betur inn okkar lausnarframboði og gera vegferð okkar skýrari. Sylvía er með réttu menntunina og bakgrunn og þekkingu frá Amazon, fjármálageiranum, orkugeiranum og fluggeiranum sem ætti að bæta miklu við.“

Sylvía er spennt að hefja störf hjá Origo.  ,,Upplýsingatæknigeirinn er í miklum vexti og það kemur sífellt betur í ljós að upplýsingatækni er ekki lengur til að styðja við þjónustu og rekstur fyrirtækja og stofnana heldur lykillinn að því að bæta og umbreyta honum. Ég hef fylgst með Origo og veit að það býr yfir öflugu starfsfólki og ég hlakka til að fá að starfa með því.“

Nánari upplýsingar
Jón Björnsson forstjóri í síma 693 500 eða jb@origo.is