3. FEBRÚAR 2022

Origo hf. - Tilkynning um framkvæmd endurkaupaáætlunar

Reykjavík, 3. febrúar 2022

Á aðalfundi Origo þann 4. mars 2021 var samþykkt að veita stjórn heimild til að kaupa í eitt skipti eða oftar á næstu 18 mánuðum hlutabréf í félaginu þannig að það ásamt dótturfélögum þess eigi, að öðrum lagaskilyrðum uppfylltum, allt að 10% af hlutafé þess, þ.e. að hámarki kr. 43.500.000 að nafnverði. Stjórn Origo hefur á grundvelli fyrrgreindrar samþykktar tekið ákvörðun um framkvæmd endurkaupaáætlunar um kaup á eigin bréfum. Endurkaupaáætlunin er í gildi til 31. júlí 2022, eða skemur ef skilyrði um hámarkskaup eru uppfyllt fyrir þann tíma.

Hámarksfjöldi hluta sem áætlunin kveður á um að verði keyptir eru 4.350.000 hlutir að nafnverði, en það jafngildir um 1% af útgefnu hlutafé félagsins. Fjárhæð endurkaupanna verður þó aldrei hærri en kr. 300.000.000.

Endurkaupin verða framkvæmd af Kviku banka hf. sem tekur allar viðskiptaákvarðanir er varða kaup á hlutum og tímasetningu kaupanna óháð félaginu. Framkvæmd endurkaupaáætlunar verður í samræmi við lög um hlutafélög nr. 2/1995 og viðauka við reglugerð um innherjaupplýsingar og markaðssvik nr. 630/2005. Verð fyrir hvern hlut skal að hámarki vera hæsta verð í síðustu óháðu viðskiptum eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í viðskiptakerfi Nasdaq á Íslandi, hvort sem er hærra. Hámarksmagn hvers viðskiptadags er 330.128 hlutir að nafnvirði.

Kaup samkvæmt endurkaupaáætluninni hefjast mánudaginn 7.febrúar næstkomandi.

Viðskipti félagsins með eigin hluti í samræmi við endurkaupaáætlunina verða tilkynnt í samræmi við lög og reglugerðir.

Origo hf. á í dag 132.940 hluti að nafnverði í félaginu eða um 0,03%.

Nánari upplýsingar veitir Gunnar Petersen framkvæmdastjóri fjármálasviðs s: 825-9001 eða gp@origo.is