15/09/2022

Nýir starfsmenn efla Heilbrigðislausnir Origo

Heilbrigðislausnir Origo hafa ráðið til sín 8 nýja starfsmenn það sem af er ári. Ráðningarnar eru liður í aukinni áherslu Origo á sviðinu sem nú er orðið sjálfstætt innan fyrirtækisins.

Nýtt starfsfólk heilbrigðislausna Origo

Markmið heilbrigðislausna er að auðvelda störf heilbrigðisstarfsfólks og bæta upplifun skjólstæðinga þeirra. Heilbrigðislausnir hafa verið leiðandi í þróun á fjölbreyttum lausnum síðustu 30 ár og í stefnumótun sviðsins er aukin áhersla lögð á að þróa áfram nýjar og traustar lausnir.

Mikil reynsla og sérfræðiþekking í gerð hugbúnaðarlausna fyrir heilbrigðiskerfið er innan sviðsins en þar starfa yfir 60 sérfræðingar með fjölbreyttan bakgrunn og munu þessar nýju ráðningar styrkja vinnu Heilbrigðislausna enn frekar.

Guðfinna Ýr Róbertsdóttir var ráðinn inn í byrjun árs sem viðmótshönnuður og heldur hún utan um hönnunarteymi heilbrigðislausna. Guðfinna Ýr er með BA í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands og MA í stafrænni hönnun frá Oakville í Kanada. Hún er með yfir 20 ára reynslu af hönnun bæði á hugbúnaði og fyrir auglýsingastofur, ásamt að hafa unnið fjölda verðlauna í gegnum árin fyrir hönnun sína.

Þorkell Máni Pétursson var ráðinn inn sem hugbúnaðarprófari og kemur frá Side Kick Health. Þorkell Máni er með BA próf í sálfræði og heimspeki og M.Sc. í umhverfisfræði. Hann hefur mikla reynslu af hugbúnaðarprófun og þekkir umhverfi Heilbrigðislausna vel.

Hanna Rut Sigurjónsdóttir hefur verið ráðin viðskiptastjóri heilbrigðislausna og er með B.Sc í hjúkrunarfræði. Hún hefur reynslu af störfum bæði innan Landspítalans og heilsugæslunnar og kemur með dýrmæta þekkingu inn í teymið.

Arnar Ólafsson og Fannar Hrafn Haraldsson voru ráðnir inn sem hugbúnaðarsérfræðingar í fjölbreytt störf innan sviðsins. Arnar útskrifaðist í vor úr tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og skrifaði lokaverkefni sitt í samstarfi við Origo. Fannar er að klára B.S gráðu í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík og starfar hjá Heilbrigðislausnum samhliða námi.

Á myndina vantar Moaz Salaheldin Mahmoud, Janko Mirkovic og Damjan Vasojevic sem allir voru ráðnir sem hugbúnaðarsérfræðingar. Moaz er búsettur á Eskifirði og er með 20 ára reynslu af forritun í fjölbreyttum verkefnum. Janko og Damjan komu til liðs við skrifstofu Origo í Serbíu og styrkja heilbrigðislausna teymið þar með sinni reynslu og þekkingu.

 Við bjóðum þau velkomin í teymið og hlökkum til að takast á við spennandi verkefni með þeim.

Deila frétt