Anna Hafberg

07/04/2021

Blogg

Örprófíll: Anna Hafberg

Undanfarið ár hefur einkennst af miklu annríki hjá Önnu Hafberg. Hún tók þátt í stofnun Covid göngudeildarinnar á LSH og þróaði ferli í kringum landamæraskimanir. Utan vinnu á söngurinn allan hennar hug, en Anna hefur sungið í mörgum kórum í gegnum tíðina.

Drápuhlíðin - Kópavogur - Drápuhlíðin og aftur Kópavogur

Ég er fædd í Reykjavík, bjó í Drápuhlíðinni fyrsta árið. Var svo flutt eins árs í Kópavoginn og hef verið þar síðan utan við að ég flutti sjálfviljug aftur í Drápuhlíðina og bjó þar í fjögur ár en flutti þá aftur í Kópavoginn og hef verið þar síðan enda gott að búa í Kópavogi.

Einsöngspróf og námskeið í IBM System/36

Ég kláraði stúdentinn í MK, fór svo í hjúkrun af því að mamma sagði að ég þyrfti aldrei að óttast atvinnuleysi með þá menntun og það hefur reynst orð að sönnu. Ég tók Business Administration & Management diplómu í London fyrir margt löngu, einsöngvararpróf fyrir ekki eins löngu, diplómu í stjórnun á heilbrigðissviði frá HA ásamt því að fara á alls konar námskeið í tölvumálum og verkefnastjórnun, t.d. IBM System/36 umsjón árið 1988.

Hef alltaf unnið hjá Landspítalanum í einhverri mynd, stundum lítið og stundum mikið eftir því hvort spítalinn er aðalstarf eða annað. Eftir að ég hóf störf hjá Origo hef ég verið í 10% vinnu á skurðdeild svona til að halda mér við fagið.

Anna Hafberg að skoða sögu á tölvuskjá
Anna Hafberg að skoða sögu á tölvuskjá

Vann að stofnun Covid göngudeildar

Hjá Origo vinn ég við að þróa rafræna sjúkraskrárkerfið Sögu með ýmsu góðu fólki og þeysist svo um að kenna og innleiða það sem er búið er að þróa um allt land t.d. lyfja og gjafaskráningu og rafræna heimahjúkrun.

Í mars 2020 fór ég á Landspítalann til að taka þátt í því að stofna og vinna við Covid göngudeild sem var kapphlaup við tímann, þróuð um leið og faraldurinn braust út. Stofnað var símahringiver hvar hringt var í alla Covid smitaða á meðan á einangrun stóð til að koma í veg fyrir að þeir leituðu inn á spítalann að óþörfu og svo var sett upp göngudeild þar sem hægt var að skoða sjúklinga eftir því sem við sem hringdum greindum ástand hvers og eins.

Svo komu landamæraæfingarnar, þegar ég ætlaði í sumarfrí í júní var komið að því að taka á móti og skima alla sem komu í gegn um landamæri og í stað þess að fara í sumarfrí, tók ég þátt í að þróa það áfram. Svo hafa bylgjurnar komið ein af annarri og nú sitjum við í þeirri fjórðu.

Gefandi að styðja fólk í gegnum veikindi

Það sem er mest gefandi við þessi störf öll er að geta stutt fólk í gegnum erfið veikindi, getað hjálpað því með því að halda viðkomandi heima og veita aðhlynningu í gegn um síma, verið styrkur og stuðningur án þess að leggja viðkomandi inn á spítala. Svo hefur verið ótrúlega gaman að þróa alls konar rafræn kerfi og samræma vinnulag milli ólíkra aðila, td. rakningarteymis og LSH. Það er líka ótrúlega gefandi að fá að starfa með alls konar fólki hjá ólíkum stofnunum, bæði núna í þessum faraldri sem og að fara á milli stofnana og kenna á kerfin.

Tónlistin er númer eitt, tvö og þrjú

Aðaláhugamálið tengist tónlist, bæði að syngja í kór, hef sungið í mörgum kórum og er gjarnan í fleiri en einum, er núna félagi í Kammerkór Dómkirkjunnar, Dómkórnum og Kammerkór Seltjarnarneskirkju. Svo sæki ég gjarnan alls konar tónleika sem því miður hefur legið í láginni undanfarið ár sem og kóræfingar. Svo eru náttúrulega alls konar svokallaðir saumaklúbbar sem þarf að sinna.

Hanna Rut Sigurjónsdóttir, viðskiptastjóri Helix

Höfundur bloggs

Hanna Rut Sigurjónsdóttir

Viðskiptastjóri hjá Helix

Deildu gleðinni