11/05/2022

Örprófíll: Róbert Marvin forritari og rithöfundur

Róbert Marvin Gíslason, forritari hjá Origo

Róbert Marvin Gíslason, forritari hjá Origo og "villingur" úr Efra Breiðholti, er sannkallaður þúsundþjalasmiður. Hann hefur sent frá sér nokkrar smásögur, unnið við forritun í Grikklandi og Svíþjóð og stundað ljósmyndanám í New York. Þegar Róbert er ekki að búa til kóða, fanga minningar á myndavélina eða semja krimma grípur hann reglulega í golfkylfurnar.

,,Ég er Reykvíkingur, alinn upp í miðborginni. Á unglingsárunum bjó ég í Breiðholti. Það má segja að ég sé villingur úr Efra Breiðholti,” segir hann og brosir.

 Róbert bjó í Svíþjóð í sex ár og starfaði þar fyrir dótturfyrirtæki Boeing.

Forritun í Svíþjóð og í Grikklandi

,,Ég var að starfa við forritun og var m.a. kerfisstjóri. Það var áhugaverður tími í Svíþjóð. Ég kom svo heim til Íslands og fór að vinna fyrir Sabre. Þar var ég einnig að forrita. Ég starfaði síðan í bakendaforritun fyrir happdrætti í Grikklandi hjá fyrirtækinu NLS. Ég var líklega alltaf að bíða eftir happdrættisvinningum sem aldrei kom þannig að ég ákvað að leita á önnur mið,” segir hann.

Róbert hóf störf hjá Origo fyrir þremur árum síðan. ,,Ég er bakendaforritari í heilbrigðislausnum og er í app þróun. Við erum að vinna í heimahjúkrunar-appinu, sækja og senda gögn á milli Sögu og appsins. Ég er að búa til REST þjónustu þarna á milli. Ég er líka í öðru teymi innan Origo sem er Saga vef teymið. Það er verið að brúa bilið á milli Sögu og vefsins.

Mikli keyrsla þegar COVID breiddist út

það er mjög áhugavert og virkilega gaman að vera hluti af teyminu sérstaklega á þessum krefjandi tímum. Það var mjög mikilvægt að vinna heimahjúkrunar appið hratt og vel í byrjun og koma því í notkun þegar Covid-19 braust út. Það var því mikil keyrsla á okkur og pressa að vinna þetta hratt og vel. Það þurfti m.a. allt að vera klárt fyrir hjúkrunarfræðinga svo þeir þyrftu ekki að hittast innbyrðis og fjölga þannig smitleiðum og fara í kjölfarið til veikra skjólstæðinga. Það var því mikilvægt að fá appið í gagnið sem fyrst þannig að fólk þyrfti ekki að hittast og getað afgreitt málin beint í gegnum appið. Vinnslan gekk mjög vel og það má segja að heilt yfir hafi þetta heppnast mjög vel hjá heilbrigðisteyminu okkar í Origo.”

Stúlkan með rauða hárið vakti mikla athygli þegar hún kom út á Storytel. Stúlkan með rauða hárið vakti mikla athygli þegar hún kom út á Storytel.

Hefur unun af ljósmyndun

Róbert hefur stundað skriftir síðan 1997 og þá aðallega smásögur. ,,Sögur eftir mig hafa verið birtar í tímaritum og 2013 vann ég Gaddakylfuna. Í júní 2015 kom út mín fyrsta skáldsaga sem heitir Konur húsvarðarins. Um jólin 2016 kom barnabókin Litakassinn út. Þann 15. september 2017 kom út glæpasagan Umsátur. Nýjasta sagan er síðan Stúlkan með rauða hárið sem var gerð sérstaklega fyrir Storytel. Hún hefur gengið mjög vel á Storytel og það er afar ánægjulegt,” segir hann.

,,Það má segja að ég hafi verið að fanga augnablik síðan 2005. Ég hóf nám í ljósmyndun New York Institute of Photography 2016 og lauk því 2018. Ég hef verið að mynda mikið með Canon myndavélum sem við seljum í Origo. Ég hef mjög gaman af að skapa og hef unun af því að fá krefjandi verkefni. Gæludýr eru verkefni sem geta verið mjög erfið en gefandi þegar þau takast þar sem dýr eru erfið viðfangsefni. Ég á sjálfur svartan hund sem er ekki möguleiki á að mynda. Það er hún Lotta en hún er svo svört að ég þarf að vera í góðri lýsingu þannig að hún sjáist á mynd. Auk þess er hún ekki gefin fyrir fyrirsætustörf því hún snýr sér alltaf þegar ég er með myndavélina eða símann á lofti að reyna að mynda hana.”

Á ferð á flugi. Þannig líða dagarnir hjá Róberti. Á ferð á flugi. Þannig líða dagarnir hjá Róberti.

Róbert segist reyna að komast út á golfvöll þegar færi gefst. ,,Maður á svo mörg áhugamál þannig að ég reyni að finna tíma fyrir golfið líka. Ég var með 22 í forgjöf en hef ekki verið nógu duglegur að spila undanfarið. Ég er að spá í byrja upp á nýtt og vera aftur í 36 í forgjöf,” segir hann og brosir. Aðspurður um uppáhaldsgolfvöll segir hann það vera Brautarholtsvöll. ,,Það er ekta íslenskur „links“ golfvöllur meðfram ströndinni. Gaman að spila þar og hlusta á sjávarniðinn en maður að reynir að forðast fuglana,” segir hann og glottir.

Deila frétt