06/10/2021

Spilar á píanó og æfir hnefaleika

Anna Laufey Stefánsdóttir starfar sem verkefnastjóri hjá heilbrigðislausnum Origo. Hún leiðir teymi hugbúnaðarsérfræðinga sem gera öpp fyrir heilbrigðisgeirann. Henni er margt til lista lagt og spilar m.a. á píanó og æfir hnefaleika.

,,Ég kom til Origo fyrir þremur árum og hef verið að byggja upp teymið okkar sem samanstendur af fimm starfsmönnum í augnablikinu. Ég leiði teymið og er svo lánsöm að vera með frábært samstarfsfólk. Það eru tveir aðrir app forritarar, einn bakendaforritari og einn prófari. Þetta er besta teymi sem hægt er að biðja um. Þau eru algjörir snillingar," segir Anna Laufey.

Anna Laufey kom til Origo frá Stokki Software þar sem hún starfarði í þrjú ár. ,,Ég er með sex ára reynslu af app forritun á bakinu. Þetta er mjög skemmtileg vinna. Ég gerði lokaverkefnið mitt í Háskólanum í Reykjavík sem var app fyrir sykursjúka."

Anna Laufey er Hafnfirðingur og alin upp í Norðurbænum en flutti til Reykjavíkur þegar hún stofnaði heimili 22 ára gömul. Ég fór úr Firðinum til Reykjavíkur og bý í Grafarvoginum með manninum mínum, tveimur sonum, 9 ára og eins árs og kettinum okkar. Það er líf og fjör á heimilinu og sérstaklega gaman að stússast með eins árs soninn sem fær auðvitað mikla athygli."

Hún á ýmis áhugamál, spilar á píanó, æfir hnefaleika og hefur gaman af því að stússast í gróðurhúsinu, ,,Ég komst að því að ég var svo léleg í boltaíþróttum að ég fór í einstaklingsíþróttir. Ég æfi hnefaleika í Æsi. Það er hörkumikið stuð eins og gefur að skilja og góð útrás. Ég spila líka á píanó. Ég ákvað það allt í einu þegar ég var 25 ára að var að læra á píanó og það er mjög skemmtilegt og gefandi. Það æfir heilann vel.
Mér finnst einnig gaman að stússast í gróðurhúsinu mínu. Það fylgdi húsinu í Grafarvoginum. Við í teyminu skiptumst regulega á afleggjurum á plöntunum sem við eigum. Ég safna einnig rúbikskubbum í öllum stærðum og gerðum. Ég á orðið mjög fallegt safn af þeim," segir Anna Laufey.

Deila frétt