Að skrifa fyrir netið, 7 góð ráð < Origo

 
 

Að skrifa fyrir netið - 7 góð ráð

28.08.2017

Við lesum texta á netinu á annan hátt en prentaða miðla. Við skönnum með hraði, lesum fyrstu málsgreinar og fyrirsagnir og leitum að einstaka lykilorðum og setningum.

Rannsókn frá Norman Nielsen group sýnir fram á að 79% notenda skanna texta á netinu en einungis 16% notenda lesa orð fyrir orð. Rannsóknin er gömul, en niðurstöður hennar gilda enn þar sem athygli notenda á netinu hefur ekki aukist með árunum, þvert á móti. 

F-formið

Með hjálp augnskanna (e. eyetracker) var hægt að sjá hvernig notendur skanna vefi og lesa texta. Hitakort (e. heatmap) sýndi ákveðið mynstur sem var gegnumgangandi, en það er kallað F-formið eins og kunnugt er orðið. Notendur lesa flestir efstu línurnar, færa sig ögn neðar og lesa inn í næstu málsgrein áður en þeir skanna lóðrétt niður. Neðsti hluti textans fær örlitla athygli.

F-formið

Til að þinn boðskapur komist til skila og til að auðvelda notendum að leita sér upplýsinga á þínum vef er hægt að hafa nokkur atriði í huga.

7 ráð til að skrifa fyrir netið

1. Stuttar málsgreinar

Málsgreinar ættu að vera hæfilega stuttar, ekki mikið lengri en 5 setningar. Gætið þess að setningar séu ekki of langar, en ágætt er að miða við 20 orð að hámarki.

Takið fyrir eitt efni í hverri málsgrein, það hjálpar notendum sem skanna síðuna að finna viðeigandi upplýsingar.

2. Fyrirsagnir

Notist við fyrirsagnir og millifyrirsagnir til að auðvelda notendum að finna þær upplýsingar sem þá vantar á fljótlegan hátt. Fyrirsagnir ættu að vera lýsandi fyrir efnið og gefa til kynna á augljósan hátt hver efnistökin eru.

3. Mikilvægasta fyrst

Eins og á við í blaðamennsku þá eiga mikilvægustu upplýsingarnar að koma fyrst, eða öfugi pýramídinn. Minna mikilvægar upplýsingar eiga heima neðar í textanum.

 Ef mikilvægustu upplýsingarnar koma fyrst eru meiri líkur á því að notandinn lesi þær.

4. Einfalt tungumál

Notist við einfalt og skýrt tungumál í óformlegum tón. Forðist klisjur, slangur eða skammstafanir sem einungis ákveðinn hópur þekkir. Það er fljótlegra að skanna auðlesanlegan texta sem ekki krefst of mikils af notandanum.

5. Lýsandi hlekkir

Hlekkir inni í texta grípa augað, þar sem þeir eru oftast í öðrum lit og/eða undirstrikaðir. Þess vegna er mikilvægt að textinn fyrir hlekkinn sé lýsandi og gefi til kynna hver tilgangur hans sé.

Dæmi:

A: Til að lesa meira um jákvæða notendaupplifun á netinu smellið hér.

B: Til að lesa meira um jákvæða notendaupplifun á netinu smellið hér.

„Hér” er ekki lýsandi fyrir hlekkinn, og þarf notandinn þá að leita í kringum hlekkinn að tilgangi hans. Í seinna dæminu fer ekki á milli mála hvert hlekkurinn leiðir þig. 

6. Listar

Það er auðveldara að lesa lista en samfelldan texta. Það ætti því að nota lista þar sem tilefni er til, sérstaklega ef um er að ræða upptalningu á nokkrum atriðum.

Dæmi:

A: Í vinning er flug á fyrsta farrými, gisting á fimm stjörnu hóteli, safaríferð um þjóðgarðinn og aðgangur fyrir tvo í heilsulind og dekur.

B: Í vinning er

  • Flug á fyrsta farrými
  • Gisting á fimm stjörnu hóteli
  • Safaríferð um þjóðgarðinn
  • Aðgangur fyrir tvo í heilsulind og dekur

Skilaboðin eru þau sömu en í seinna dæminu er auðveldara að fá yfirsýn yfir það sem er í vinning. 

7. Vinstri-jafnaður texti

Texti ætti að vera vinstri jafnaður (e. left align). Það auðveldar auganu að finna næstu línu ef línurnar byrja alltaf á sama stað, lengst til vinstri. Ef texti er miðjaður þarf augað að leita að næstu línu í hvert skipti. 

Vinstri jafnað vs miðju jafnað

Sumir kjósa að miðja texta til að halda í ákveðna samhverfu (e. symmetry) útlits vegna, en best er að gera notendum greiða með því að vinstri jafna texta svo þægilegt sé að lesa hann.  

Það er ekki til nein töfralausn sem tryggir það að allir notendur lesi allar þær upplýsingar sem finnast á þinni síðu, en með því að fylgja ofangreindum ráðum ætti textinn að vera þægilegri að lesa og gera notendum auðveldara fyrir að finna þær upplýsingar sem þeir leita eftir.