Hraði vefs snýst um upplifun notenda - Viðtal við Denys Mishunov < Origo

 
 

Hraði vefs snýst um upplifun notenda - Viðtal við Denys Mishunov

22.11.2016

Á ráðstefnu TM Software, Snjallar veflausnir í ferðaþjónustu 2016, sem fram fer föstudaginn 25. nóvember kl. 13:00-16:00, mun Denys Mishunov halda fyrirlestur, "The Psychology of Performance", auk þess sem hann verður með vinnustofu , "Deconstructing Performance" sama dag kl. 8:30-11:20.

Denys hefur starfað sem viðmótsforritari um árabil en síðan 2014 hefur hann starfað hjá Digital Garden AS í Osló þar sem á meðal verkefna hans er að bæta upplifun fólks á vefsíðunum fastname.no og uniweb.no.

Við fengum Denys til að svara nokkrum spurningum áður en hann kemur í heimsókn til okkar.

Segðu okkur í stuttu máli frá sjálfum þér 

Ég er viðmótsforritari og bý og starfa í Noregi en ég ferðast um allan heiminn sem talsmaður sálfræðilegrar bestunar (e. "psychological optimization").

Ég útskrifaðist sem verkfræðingur en ég er einnig með gráðu frá listaháskóla, og ég hef brennandi áhuga á sálfræði, eðlisfræði, sagnfræði og teikningu.

Í vinnu minni finnst mér skemmtilegast að komast til botns í því hvernig hlutir og ferlar virka. Ég byrjaði sem CSS forritari en frá árinu 2000 hef ég unnið við viðmótsforritun. Síðustu ár hef ég einbeitt mér að Javascript forritun auk þess sem ég vinn við að bæta upplifun notenda á vefjum Digital Garden AS.

Fyrir utan vinnuna hef ég t.d. áhuga á hjólreiðum, ljósmyndum, málverkum Impressjónista og mörgu fleiru.

Hvernig endar verkfræðingur með gráðu frá listaháskóla í vefforritun?

Þegar ég var í verkfræðináminu áttaði ég mig á því að það að starfa sem verkfræðingur í Úkraínu, þar sem ég átti heima, var ekkert sérstaklega spennandi. Svo ég starfaði sem þjónn í nokkra mánuði áður en ég keypti mér tölvu og ákvað að ég ætlaði að verða vefforritari. Á þeim tíma var talið mjög flott að vinna við vefmál þó það sé kannski ekki þannig lengur.

Eftir að hafa lesið nokkra kafla um Perl forritunarmálið, í bókinni "Programming Perl", áttaði ég mig á því að forritun, allavega í Perl, var ekkert meira spennandi en að vinna sem verkfræðingur í Úkraínu. Svo ég fór að lesa bókina "Designing with Web Standards" eftir Jeffrey Zeldman, sem fjallaði um vefstaðla og viðmótsforritun, og þá var framtíð mín ráðin.

Vinnustofan þín heitir "Deconstructing Performance". Hvað þýðir það?

Í stuttu máli þá stendur það fyrir yfirferð á þeim mælieiningar sem við erum vön að tengja við hraða (e. "performance") vefs og athuga hvort þær séu að skila okkur réttum niðurstöðum. Þegar við bætum upplifun notenda inn sem mælieiningu opnast nýjar leiðir til að besta notendaupplifunina.

Í vinnustofunni munum við skoða af hverju hraði vefs skiptir máli og hvernig er hægt að fylgjast með vefnum, og breyta og bæta notendaupplifunina með því að nýta bæði tækni og sálfræði.

Hvernig hjálpar "Deconstructing Performance" fyrirtækjum sem vilja besta vefinn sinn?

"Deconstructing Performance" útskýrir nokkur meginatriði sem gerir fyrirtækjum kleift að skoða og meta hraða (e. "performance") vefs á fjölbreyttari hátt en áður. Í stað þess að t.d. einblína einungis á bætingar um einhver sekúndubrot er athyglinni líka beint að notendum vefsins og þeirra upplifun. Í framhaldinu geta fyrirtækin nýtt þessar upplýsingar til að besta notendaupplifun vefsins.

Hvernig er best að mæla notendaupplifun?

Í vinnustofunni munum við fara yfir nokkur tól sem hægt er að nota en fyrst og fremst er mikilvægt að nýta sér notendaprófanir. Það er einfaldlega ekkert betra tól sem hægt er að nota.

Einnig mun ég fara yfir nokkur verkefni þar sem notendaprófanir leiddu í ljós vandamál nógu snemma í ferlinu til að hægt var að lagfæra þau áður en illa fór.

Hverjar eru helstu áskoranirnar þegar verið er að hanna og forrita frá sjónarhóli notenda?

Það er langerfiðast að vita hverjar þarfir notenda eru í raun og veru. Stundum höldum við að við vitum hvað notendur vilja, en ef við skoðum vefmælingar og niðurstöður notendaprófana, þá höfum við oftast rangt fyrir okkur.

Hverjar eru helstu áskoranirnar fyrir vefsvæði í dag?

Að týna sér í nýrri tækni og gleyma því að það sem skiptir máli er notandinn. Aðalatriðið er að skilja notendur vefsins og nýta svo tæknina til að uppfylla þarfir þeirra.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú er að vinna í þessa stundina?

"Deconstructing Performance" vinnustofan. Ekki spurning. 

Er eitthvað sérstakt sem þig langar að gera á meðan þú ert á Íslandi?

Góð spurning. Ég hef aldrei komið til Íslands áður en því miður get ég ekki verið lengi á landinu að þessu sinni. Ég vona samt að ég fái margar hugmyndir fyrir næstu heimsókn.

Þýðandi: Sigurlaug Sturlaugsdóttir