Frá skissu að vef - Tripical ferðaskrifstofa < Origo

 
 

Frá skissu að vef - Tripical ferðaskrifstofa

04.08.2017

Nýr vefur - tripical.is

Vefur ferðaskrifstofunnar Tripical fór í loftið með krafti á vormánuðum 2017 með tilheyrandi húllúmhæi. Vefurinn er hannaður og þróaður af TM Software og er settur upp í WordPress vefsumsjónarkerfinu. 

Um Tripical

Tripical er framúrstefnuleg ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í spennandi ferðum á framandi áfangastaði. Tripical leggur megin áherslu á að bjóða upp á ævintýraferðir, hreyfiferðir og hópaferðir fyrir allar stærðir hópa, allt frá saumaklúbbum og stórfjölskyldum til útskriftarhópa eða fyrirtækjahópa. Lykilmarkmið Tripical er að að gera ferðalög að ógleymanlegum ævintýrum.

Markmið

 • Vera fersk, litrík og skemmtileg og koma Tripical tilfinningunni fram í gegnum vefinn.
 • Vera með sterka viðurvist á samfélagsmiðlum og góða tengingu á milli vefs og samfélagsmiðla.
 • Gefa notendum færi á að bóka ferðir í gegnum vefinn á einfaldan og skilvirkan hátt.
 • Nýta fulla skjábreidd í skalanlegum vef.

Kröfur

 • Leitarvélabestun (SEO).
 • Greining og skissugerð.
 • Persónuleiki í hönnun, emotional design.
 • Notendaupplifun (UX).
 • Nytsemisgreining.
 • Prófanir og notendaprófanir.
 • Sérsniðin Wordpress lausn.

Fyrsti fasi - greining og prototyping

Tripical komu til okkar tilbúin að fara út fyrir kassann og setja vefmál í forgang, þar sem vefurinn er þeirra helsti sölumiðill. Gamli vefurinn þeirra var settur upp í keyptu sniðmáti fyrir Wordpress og við vissum strax að við myndum vilja sérsníða vef fyrir þau sem myndi henta öllum þeirra þörfum. Fyrsta skrefið var að greina þarfirnar og lykilverkefnin á vefnum og vinna náið með auglýsingarstofunni Brandenburg við að þróa vörumerkið Tripical. Grindin af vefnum var skissuð upp, rýnd og svo ítruð eftir þörfum.

Annar fasi - hönnun

Þegar grindin var tilbúin var byrjað að hanna vefinn. Þar sem Tripical er öðruvísi ferðaskrifstofa, vildum við leika okkur með vefinn án þess að fara langt fram úr vefvenjum. Vefur Tripical er í raun vefverslun og því er mjög mikilvægt að vefurinn sé einfaldur og auðvelt að finna þá vöru sem leitað er að. Þrátt fyrir það, vildum við líka koma persónuleika Tripical á framfæri en það var m.a. gert með ferskum litum, teiknaðri grafík og skemmtilegum myndum.

Þriðji fasi - útfærsla og forritun

Vefurinn er í Wordpress og notast við WooCommerce til að halda utan um ferðir og Yoast fyrir leitarvélabestun. Bakendinn í Wordpress var líka sérhannaður til að gera það einfalt og skiljanlegt fyrir Tripical að setja inn efni. Mikil vinna fólst í því að skilgreina hvernig væri best að setja upp bakendan því ferðirnar sem Tripical bjóða upp á, eru mjög fjölbreyttar og markaðsettar að mismunandi markhópum. 

Árangur

Tripical er heldur betur búið að koma sér á kortið, en þau hjá Tripical eru dugleg á samfélagsmiðlum og nýta sér kraft áhrifavalda á Snapchat. Árangurinn hefur svo sannarlega ekki látið á sér standa, en Tripical eru að finna fyrir mikilli aukningu í bókunum sem og aukinni umræðu og þekkingu á vörumerkinu þeirra. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu hjá þeim, en heimsóknir á vefinn eru að aukast og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs með þeim. 

En hvað finnst Tripical um samstarfið?

Það var mjög þægilegt að vinna með TM Software í gerð nýs vefs okkar. Við höfðum verið í ýmsum hugleiðingum í langan tíma og ekki gengið að fanga hugsunina okkar í vefslóða áður. Ferlið gekk mjög vel og samskipti milli okkar og teymisins hjá TM Software var mjög gott. Við byrjuðum á ýmiss konar hugmyndavinnu þar við fórum yfir okkar þarfir (og óþarfir) sem síðar var teiknuð á blað og loks smíðuð að vefsíðu. Þau voru liðleg, full af hugmyndum og maður tók eftir því að þeim þótti vænt um verkefnið – sem skipti okkur miklu máli. Við hlökkum því til að halda áfram að þróa vefinn okkar með þessu frábæra fólki!

Styrmir Elí Ingólfsson, Tripical Travel