Fundur fólksins - Skiptir stafrænt aðgengi máli? < Origo

 
 

Fundur fólksins - Skiptir stafrænt aðgengi máli?

15.09.2016

Fundur fólksins fór fram dagana 2.-3. september í Norræna húsinu. Einn af dagskráliðum var umræðufundur á vegum Blindrafélagsins um stafrænt aðgengi: Hvað er það og skiptir það einhverju máli? Á fundinum komu saman fagaðilar og áhugafólk um mikilvægi þess að efni á netinu sé öllum aðgengilegt.

 Meðal umræðuefna á dagskránni voru: 

  • Hvað er stafrænt aðgengi og nýtist það öðrum en blindum og sjónskertum?

  • Eru vefumsjónaraðilar upplýstir um stafrænt aðgengi og hversu miklu máli það skiptir að vefsíður séu aðgengilegar?

  • Er það ekki sjálfsögð mannréttindakrafa að allir skuli eiga rétt og möguleika til að nýta sér Internetið?

Fundargestir voru sammála um að það þarf að auka vitund fólks um stafrænt aðgengi. Það eru mun fleiri sem hafa gagn að aðgengilegum vefsvæðum en flesta grunar, en oft beinist talið eingöngu að blindum eða sjónskertum. Það er áætlað að á milli 80 - 120 milljón manns í Evrópu hafi einhverjar sérþarfir sem gera það að verkum að erfitt getur reynst að ferðast um vefi. Hreyfihamlaðir, sjónskertir, lesblindir og einfaldlega aldraðir eru dæmi um notendur sem hafa gagn að stafrænu aðgengi.

Það ætti því ekki að vera nein spurning að það skiptir máli að huga að þessum notendum, til að auka mögulega umferðina á þinni síðu. Ef notandinn getur fengið þær upplýsingar og/eða framkvæmt þær aðgerðir sem hann þarf á netinu, getur það mögulega sparað símtal og minnkað álag á þjónustuver.

Gott aðgengi gagnast öllum

Annar kostur þess að huga að aðgengi er sá að mörg þau atriði sem þurfa að vera til staðar gagnast öllum notendum. Sem dæmi:

  • Yfirskriftir (e. captions) á myndböndum. Það gagnast ekki einungis heyrnarskertum að hafa yfirskriftir á myndböndum, heldur einnig notendum sem eru í aðstæðum þar sem ekki er hægt að hafa kveikt á hátölurum, engin heyrnatól til staðar eða einfaldlega of mikil umhverfishljóð til að geta heyrt í myndbandinu.

  • Litasamsetning milli texta og bakgrunns (e. contrast). Góður litamismunur milli texta og bakgrunns gagnast sjónskertum notendum en einnig öllum þeim sem þurfa að lesa á skjá í mikilli birtu eða á dekktan skjá til að spara rafhlöðuna. Almennt allar aðstæður þar sem skilyrði til að lesa af skjánum eru ekki ákjósanleg.

  • Lyklaborðsaðgengi. Notendur skjálesara geta ekki notað mús og treysta því á að hægt sé að ferðast um síðuna með lyklaborðinu. Margir notendur (oftar en ekki ofurnotendur) kjósa að nýta heldur lyklaborðið og flýtileiðir frekar en músina. Einnig kannast flestir við að smella á Tab fyrir næsta reit þegar verið er að fylla út form á netinu. Flestir notendur kunna að meta gott lyklaborðsaðgengi.

  • Leitarvélar. Google kann að meta gott aðgengi. Það er stór partur af aðgengi að bjóða upp á efni á textaformi og það er líka það eina sem Google skilur. Alt-textar á myndum og yfirskriftir á myndböndum sem dæmi, hjálpa Google að finna efnið á þínum vef.

Fyrir utan allar þessar góðu ástæður að ofan, ætti aðgengi að vera sjálfsagður hlutur til að tryggja öllum notendum möguleikann á því að lifa sjálfstæðu lífi í nútíma samfélagi.

Hvað stendur í veginum?

Það eru þrjár meginástæður sem oftast virðast hamla vefumsjónaraðilum frá því að taka aðgengi með í myndina.

  1. Þekkingarleysi. Þ.e. að vita ekki, eða vera ekki meðvitaður um að ákveðinn hópur notenda geti mögulega ekki notað veflausnina þeirra.

  2. Kostnaður. Hræðsla við það að þetta sé of stórt og dýrt verkefni, að það þurfi að umturna öllu til að gera vefsvæðið aðgengilegt. Vissulega er hagstæðast að hafa aðgengi í huga alveg frá byrjun, en það er vel hægt að bæta núverandi lausnir svo um munar, með minniháttar vinnu. Stór hluti góðs aðgengis felst líka í því að kóðinn sé réttur, almennt bestu venjur (e. best practice) sem að auki auðveldar viðhald.

  3. Útlit. Margir halda að aðgengilegar vefsíður séu óspennandi í útliti, en það er í rauninni ekkert því til fyrirstöðu að fallegar vefsíður geti einnig verið aðgengilegar. 

Aukin vitundarvakning þarf að eiga sér stað til að upplýsingasamfélagið geti orðið að veruleika fyrir alla.