Google Trips - Smáforrit fyrir ferðamenn < Origo

 
 

Google Trips - Smáforrit fyrir ferðamenn

29.09.2016

Nýlega setti Google á markaðinn Google Trips, nýtt smáforrit (e. app) fyrir ferðamenn, sem fáanlegt er bæði fyrir iOS og Android.

Google Trips hjálpar notendum að skipuleggja ferðalög með því að sækja upplýsingar úr Gmail reikningi viðkomandi notanda sem og efni frá Google Maps og Google Destinations.

Markmið Google Trips er að sníða ferðalagið að notendum, vera persónulegur leiðsögumaður sem er alltaf við hendina (e. “Google Trips is a personalized tour guide in your pocket”).

Einfalt að skipuleggja ferðina

Eftir að notendur hafa valið áfangastað og dagsetningar geta þeir búið til nýja ferð og þannig nálgast gagnlegar upplýsingar um áfangastaðinn, t.d. hvað er hægt að gera og skoða, veitingastaði og samgöngur.

Google Trips býður einnig upp á tilbúnar dagsferðir en þar er að finna áhugaverða staði sem mælt er með að séu heimsóttir. Að auki er hægt að skoða dagsferðir sem henta þegar ferðast er með börn sem og dagsferðir með ákveðnu þema sem tengist áfangastaðnum.

Google Trips býður upp á ítarlegar upplýsingar fyrir um 200 stórborgir en upplýsingar um smærri borgir eru ekki eins viðamiklar.

Hægt er að nota Google Trips án nettengingar, en einfalt er að hlaða niður hverri ferð í símann.

Upplýsingar um staðina

Í boði er að skoða nánari upplýsingar um hvern stað sem er að finna í Google Trips, hvort sem er veitingastaði, söfn eða minnismerki, t.d. staðsetningu á korti og leiðarlýsingu, opnunartíma, símanúmer og margt fleira. Auk þess er birt stjörnugjöf við hvern stað sem og umsagnir viðskiptavina frá Google Review.

Hér er því enn frekari ástæða fyrir fyrirtæki að vera skráð hjá Google Business. Upplýsingar um fyrirtæki skráð þar eru birtar m.a. á Google Maps og Google Destinations en þaðan sækir Google Trips efni sitt.

Í gegnum Google Business geta fyrirtæki einnig fylgst með Google Review umsögnum viðskiptavina sinna auk annara gagna sem tengjast skráningu fyrirtækisins.

Allt í símanum

Með Google Trips eru allt um ferðina á einum stað. Upplýsingar um flug, gistingu og bílaleigu eru sóttar úr Gmail reikningi hvers notanda og allar upplýsingar um áfangastaðinn eru til staðar. Það er því auðvelt að sníða ferðina að eigin þörfum.