Hvað er það erfiðasta við að vafra um á netinu?

Hvað er það erfiðasta við að vafra um á netinu, ef þú ert með fötlun?”

Nýlega spurði forritarinn Safia Abdalla þessarar spurningar á Twitter. Þrátt fyrir að til séu leiðbeiningar og viðmiðunarreglur um hvað gerir vef aðgengilegan getur verið erfitt að setja þær í samhengi og setja sig í spor notenda sem hafa gagn af þessum reglum.

Sænska hugbúnaðarfyrirtækið Axess Lab sérhæfir sig í aðgengilegum lausnum, og þau tóku saman helstu svörin við þessari spurningu á Twitter. 

Texti á myndböndum

Myndbönd án texta (e. captions) var ein stærsta hindrunin sem notendur Twitter minntust á. Heyrnarlausir og heyrnarskertir þurfa á texta að halda til að innihald myndbands komist til skila, en notkun myndbanda hefur aukist gríðarlega upp á síðkastið. Fleiri notendur en heyrnarskertir minntust á þetta, til að mynda notendur með athyglisbrest og einhverfu.

Truflanir

Hreyfing á vefsíðum og óreiða á innihaldi veldur notendum með athyglisbrest miklum truflunum. Hvers kyns hreyfingar á bakgrunni, hnöppum, myndasýningum og fleira sem spilast sjálfkrafa geta valdið notendum miklum óþægindum og dregið athygli þeirra frá því innihaldi eða verkefni sem máli skiptir á vefsíðunni.

Samfelldur texti

Textaveggur (e. wall of text) lýsir þessu fyrirbæri ansi vel, en verið er að tala um langan texta sem hvergi er brotinn upp með fyrirsögnum eða málsgreinum. Þetta gerir lesblindum sérstaklega erfitt fyrir, sem og notendum með athyglisbrest og greindarfrávik.

Það er mikilvægt að hafa texta á netinu stuttan og hnitmiðaðan, nota fyrirsagnir og brjóta upp í málsgreinar. Listar og punktar eru líka hentugir til að koma mikilvægum upplýsingum á framfæri.

Raunar kunna allir notendur vel að meta stuttar málsgreinar með fyrirsögnum, enda er það þekkt að við skönnum yfir texta á netinu frekar en að lesa hann ítarlega. 

Smátt letur

Sjónskertir eiga í erfiðleikum með að lesa of smátt letur, en engir aðgengisstaðlar segja til um hversu smátt letur má vera. Það er hægt að nota vafrann til að stækka letur, ef sá möguleiki hefur ekki verið gerður óvirkur. Hinsvegar á viðmótið það til að brotna þegar stækkað er um nokkur hundruð prósent.

Það þarf því að gæta þess að nota ekki of smátt letur og einnig þarf að vera hægt að nota síðuna með góðu móti, sé hún stækkuð í vafranum um allt að 400% (samkvæmt nýjustu útgáfu WCAG).

Litaval og myndir af texta

Það verður ekki ítrekað nógu oft hversu miklu máli það skiptir að hafa nægan mun milli lita á texta og bakgrunni (e. contrast). Góður litamismunur gagnast sérstaklega sjónskertum en aðrir notendur kunna einnig að meta vel læsilegan texta

Texti ofan á ljósmyndum er mjög truflandi og ætti að forðast, nema þess sé gætt að flöturinn undir textanum sé einsleitur og nægur munur sé á milli lita texta og bakgrunns.

Vefhönnuðir verða að huga að litasamsetningum og gæta þess að þær standist kröfur um contrast. Það er einnig hægt að nýta sér ýmis tól sem aðstoða við val á litum. 

Virkni háð músanotkun

Margir notendur geta ekki, eða eiga erfitt með, að nota mús. Virkni sem er háð músanotkun getur því valdið þessum notendum miklum erfiðleikum.

Þeir notendur sem nota lyklaborð eingöngu þurfa að sjá fókus utan um virka hluti til að vita hvar þeir eru staddir á síðunni.

Gætið þess að hægt sé að virkja alla hluta vefsíðunnar með lyklaborði og snertiskjá, og ekki fela fókusinn með CSS. 

Stærð á smellanlegum einingum

Þetta er tengt vandamálinu að ofan, en margir notendur minntust á stærð á smellanlegum flötum. Notendur með hreyfihamlanir svo sem CP eða skjálfta í höndum geta átt erfitt með að smella á litla reiti.

 

Hér er stiklað á stóru en mörg önnur svör bárust við þessari spurningu á Twitter. Það á við ofangreind atriði sem og önnur aðgengismál að þau gagnast flestum notendum, óháð því hvort viðkomandi sé með fötlun eða ekki.

Munurinn er sá að fyrir marga notendur geta þessi atriði gert það að verkum að vefsíður, og þar með þjónusta og upplýsingar á netinu, verði algjörlega óaðgengilegar fyrir viðkomandi.

 

Guðný Þórfríður Magnúsdóttir

Guðný er vefráðgjafi og aðgengissérfræðingur hjá Ferðalausnum Origo. Guðný hóf störf hjá fyrirtækinu í september 2015. Hún er með MSc gráðu í Digital Design og Communication frá IT-háskólanum í Kaupmannahöfn, með áherslu á User Centered Design.