Hvað er WCAG? < Origo

 
 

Hvað er WCAG?

24.09.2015

Web Content Accessibility Guidelines (WCAG) eru viðmiðunarreglur sem ná yfir breitt svið af ráðleggingum til að gera efni á vefsvæðum aðgengilegra fyrir fólk með einhverja skerðingu eða fötlun, þ.m.t. blindu og litla sjón, heyrnarleysi og heyrnarskerðingu, námsörðugleika, vitsmunalegar takmarkanir og takmarkaða hreyfigetu o.s.frv.

Einnig má nefna eldri borgara sem dæmi um þá sem geta haft gagn af vel aðgengilegum vefsíðum, þar sem sjón og heyrn geta daprast með aldrinum. Vaxandi aldur almennings er staðreynd í Evrópu og víðar og telur hópur 65 ára og eldri um 13% Íslendinga (Hagstofan).

Að fylgja þessum reglum gerir vefi ekki einungis aðgengilegri fyrir fatlaða og eldri borgara, heldur fyrir alla notendur. Áætlað er að allt að 15-20% notenda veraldarvefsins séu með ákveðnar sérþarfir og með tileinkun á þessum reglum, breikkar notendahópurinn ekki einungis töluvert, heldur gerir það að verkum að allir verða jafnir á vefsvæðinu og geta notað vefinn til fullnustu. 

WCAG samanstendur af 12 atriðum sem falla undir 4 meginreglur; Perceivable, Operable, Understandable og Robust. Fyrir hverja meginreglu, eru prófanleg viðmið um velgengni, sem flokkast undir þrjú stig: A, AA, og AAA.

Hvað þýða þessar fjórar meginreglur?

Perceivable - Sjáanlegt

Þessi atriði eiga við um möguleikana til að sjá eða skynja efni vefja á fleiri en einn hátt. Allt efni sem er sett fram í öðru formi en texta þarf einnig að vera aðgengilegt sem texti til að notendur geti nýtt sér aðra framsetningu.

  • Dæmi: Myndir verða að innihalda lýsandi alt texta fyrir sjónskerta og myndbönd þurfa að vera textuð fyrir heyrnaskerta.

Operable - Nothæft

Allar síður þurfa að búa yfir fullri virkni hjá notendum sem nýta sér eingöngu lyklaborð við skoðun vefja.

  • Dæmi: Það þarf að vera hægt að nota tab hnappinn á lyklaborði til að vafra síður.

Understandable - Skiljanlegt

Vefsvæðið þarf að vera skiljanlegt notendum óháð þeim leiðum sem þeir nota til að skoða vefinn. Útfæra þarf leiðir til að hjálpa notendum að finna efni og ákvarða hvar þeir eru staddir á vefsvæðum hverju sinni. Það getur til dæmis tengst því að notandi sjái hvar hann hann er staddur ef hann notar tab til að vafra vefinn og að allar einingar séu rétt merktar í kóða. Villumeldingar þurfa að vera skiljanlegar og gefa notandanum til kynna hver villan er og hvernig rétt sé að bregðast við henni.

  • Dæmi: Villumelding um að svæði sé ekki rétt út fyllt þarf að taka fram hvaða svæði það er og hvernig á að fylla það út.
  • Dæmi: Allir hlekkir og tenglar þurfa að vera lýsandi fyrir efni síðunnar sem þeir benda á. “Lesa meira” tenglar og “Nánar” tenglar eru gott dæmi um tengla sem eru ekki lýsandi.

Robust - Traust

Allt þarf að vera rétt merkt í kóðanum og engar villur mega vera til staðar. Ganga þarf úr skugga um að öll tækni vefsins fylgi stöðlum, tryggja þarf að framtíðartækni og hjálpartæki sem notendur nýta sér til að skoða vefi virki.

  • Dæmi: Allar síður á vefjum þurfa að birtast rétt og virka vel í öllum vöfrum og hjálpartækjum. Hjálpartæki geta til dæmis verið skjálesarar, blindraskjáir og tæki sem birta vefinn með margfaldri stækkun.

Hver er munurinn á A, AA og AAA?

Þessi stig gefa til kynna hversu aðgengileg veflausn á að vera, þar sem A er lágmarkið og AAA hámarkið. Flestir vefir sem vinna að góðu aðgengi í dag notast við AA sem viðmið og þær reglugerðir sem settar hafa verið varðandi aðgengi hjá opinberum stofnunum og fleirum miðast einnig við WCAG 2.0 AA.

Ástæðan fyrir því að hæsta stig aðgengis, AAA, er almennt ekki sett fram sem krafa, er sú að ekki er hægt að uppfylla öll skilyrðin fyrir sumar tegundir innihalds.

Hvar er hægt að nálgast nánari upplýsingar?

Á vef W3C er hægt að finna mikið af upplýsingum um WCAG sem og á vef WebAim. Einnig eru til mörg tól sem aðstoða við að meta aðgengi á vefjum og ber þá helst að nefna WAVE og aXe.