Jákvæð notendaupplifun - aukin velgengni < Origo

 
 

Jákvæð notendaupplifun - aukin velgengni

15.02.2016

Á hverjum einasta degi eigum við flest í samskiptum við annað fólk. En við eigum ekki einungis í samskiptum við annað fólk, heldur eigum við líka í samskiptum við tölvur og tæki, vörur og þjónustur og það mjög oft í gegnum netið.

Fyrstu samskipti okkar við fyrirtæki er oft í gegnum vefsíður þeirra. Því má segja að andlit fyrirtækis út á við sé vefsíða þess. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli að vefsíðan endurspegli fyrirtækið, gildi þess og markmið, til þess að vefsíðan hafi jákvæð áhrif á notendurna.

Þegar við eigum í samskiptum við vefsíðu, þá erum oft búin að mynda okkur skoðun um þessa vefsíðu, innihald hennar, hönnun hennar, fyrirtækið sem stendur fyrir henni og vörurnar og/eða þjónustuna, á örfáum sekúndum. Þessi skoðun, felur í sér skynjun okkar á hve ánægð eða óánægð við erum á meðan við notum og eftir að við höfum notað þessa tilteknu vefsíðu. Skynjun okkar og þessar tilfinningar sem myndast innra með okkur í þessum samskiptum, hafa áhrif á upplifun okkar af vefsíðunni. En hve vel vefsíða kemur fyrir hefur áhrif á marga þætti eins og heimsóknarhlutfall og heimsóknartíma, brottfallshlutfall, meðmæli, umsagnir og síðast en ekki síst sölu og velgengni.

Það að hugsa vefsíður og þróun þeirra út frá upplifun notenda og sjá til þess að notendur fái góða upplifun, er UXO. UXO stendur fyrir User Experience Optimization, en UXO snýst um það að besta vefi með notendur og upplifun þeirra í fararbroddi.

Hvernig get ég tileinkað mér UXO?

Það er ýmislegt hægt að gera til að nýta sér hugmyndir og kenningar UXO. Hér fylgja nokkrar aðferðir sem er gott að prófa sig áfram með þegar hugsað er út frá notendaupplifun og UXO kenningum.

Skilagreina mælanleg markmið

Gott fyrsta skref er að skilgreina markmið lausnar eða vöru. Mjög gott er að hafa markmiðin mælanleg svo að það sé hægt að mæla hvort að lausnin eða varan hefur uppfyllt þessi markmið. Dæmi um mælanleg markmið getur verið lengri eða styttri heimsóknartími á ákveðnum síðum. Lægra brottfall í kaupferli og jafnvel fleiri heimsóknir á síður sem þið viljið fá auknar heimsóknir á.

Fylgja aðgengisreglum

Við viljum að allir, ungir sem aldnir geti notað veflausnirnar okkar. Þess vegna er mjög gott að tileinka sér aðgengisreglur eins og WCAG (Web Content Accessibility Guidelines). WCAG eru viðmiðunarreglur sem ná yfir breitt svið af ráðleggingum til að gera efni á vefsvæðum aðgengilegra fyrir fólk með einhverja skerðingu eða fötlun sem og eldri borgara. Að fara eftir þessum reglum gerir lausnir ekki einungis aðgengilegri heldur líka notendavænni.

Greina skilvirkni með vefmælingum

Með Google Analytics eða öðrum vefmælingartólum er hægt að greina skilvirkni veflausna mjög auðveldlega. Það er gott að fylgjast reglulega með brottfalli viðskiptavina og skoða vel þær síður sem eru ekki heimsóttar reglulega og þær síður sem notendur eyða miklum og litlum tíma á, sem dæmi má nefna.

Leitarvélabesta

Leitarvélabestun eða SEO er einnig mikilvægur partur af notendaupplifun og UXO. Leitarvélabestun á margt sameiginlegt með aðgengismálum og notendaupplifun en hvernig notendur nota vefsíður og hvaða gildi vefsíður hafa fyrir notendur, geta haft áhrif á leitarniðurstöður.

Notendaprófa aftur og aftur

Með notendaprófunum er fljótt og auðveldlega hægt að komast að því hvað má gera betur og hvar möguleikarnir liggja. Það eru til margar tegundir notendaprófa og það þarf ekki að vera tímafrekt né kostnaðarsamt að prófa veflausnir. Gott er að prófa á öllum stigum þróunar en notendapróf eru ómissandi hluti vefmála að okkar mati.

Þetta er einungis hluti af þeim möguleikum sem eru til staðar til að notendabesta veflausnir og betrumbæta notendaupplifun.