Kostir og gallar við notkun á bókunarsíðum < Origo

 
 

Kostir og gallar við notkun á bókunarsíðum

23.06.2017

Sífellt fleiri ferðalangar nota gistibókunarsíður á netinu til að bóka sér gistingar. Þannig er auðvelt að fá yfirsýn yfir þá gististaði sem eru með framboð á ákveðnum dagsetningum á ákveðnum stað og hægt að bera saman verð, aðstöðu og staðsetningu á fljótlegan og einfaldan hátt. Það skapar einnig ákveðið traust að hafa millilið sem heldur utan um þínar bókanir og veitir jafnvel afslátt fyrir trygga viðskiptavini. 

Hollenski risinn Booking.com

Ein af þessum síðum er Booking.com en fyrirtækið var stofnað árið 1996 og býður upp á yfir milljón gististaða um allan heim. Á síðunni má finna gististaði í 226 löndum og úrvalið spannar allt frá tjaldstæðum upp í lúxusvillur, frá stökum sumarhúsum upp í hótel með þúsundir herbergja. 

Bæði vefsvæðið sjálft og þjónustuverið bjóða upp á yfir 40 tungumál til að koma á móts við viðskiptavini, en yfir 1.200.000 gistinætur eru bókaðar daglega í gegnum vefsíðuna eða Booking.com appið.

Booking.com er með skrifstofur í 70 löndum, þar með talið Íslandi - enda hefur gististaðamarkaðurinn hérlendis stækkað ört á síðustu árum.

Einungis viðskiptavinir sem hafa gist á viðkomandi gististað geta gefið einkunn og umsögn, sem tryggir réttmæti umsagna og gefur þeim trúverðugleika. Þessar umsagnir gefa komandi viðskiptavinum raunsæja mynd á upplifun og aðstöðu.

Kostir og gallar

En er eitthvað sem mælir á móti því að nýta sér bókunarsíður fyrir gististaðinn þinn? Gististaðir greiða ekkert fyrir að skrá sig en greidd eru umboðslaun fyrir hverja bókun, sem er ákveðið prósentuhlutfall. Þetta getur verið umtalsverð upphæð sem annars færi til gististaðarins ef bókað væri beint í gegnum hann.

Að auki hverfur vörumerki gististaðarins að ákveðnu leiti þegar hann birtist í leitarniðurstöðum á bókunarsíðum þar sem staðlað útlit er á birtingu gististaðanna.

Fyrir umboðslaunin fær gististaðurinn birtingu á svæði sem fær fleiri heimsóknir en nokkur önnur gistibókunarsíða í heiminum sem og kerfi sem heldur utan um bókanir, markaðssetningu á netinu, þjónustuver til staðar fyrir viðskiptavini og gististaðinn, kerfi sem heldur utan um umsagnir og einkunnir frá viðskiptavinum og margt fleira sem gerir það eftirsóknarvert og auðvelt fyrir viðskiptavininn að bóka sér gistingu.

4 heilræði fyrir árangursríkt samspil bókunarsíða og eigin vefsíðu

Raunveruleikinn er sá að ferðalangar nýta sér bókunarsíður og því getur viðvera á þessum síðum haft gríðarleg áhrif á sýnileika gististaðarins.

Til að fá hámarks nýtingu á þinni viðveru á bókunarsíðum og til að tryggja gott samspil milli þeirra og eigin vefsíðu og vörumerkis, er mikilvægt að hafa nokkur atriði í huga:

1. Hágæða ljósmyndir

Þar sem allir gististaðir birtast í stöðluðu sniðmáti inni á bókunarsíðum, er mjög mikilvægt að huga að gæðum ljósmynda til að vekja áhuga verðandi viðskiptavina og gefa þínum gististað sérstöðu. Gætið þess að hlaða upp björtum myndum í hárri upplausn sem sýna vel herbergin og alla aðstöðu sem í boði er, innan dyra jafnt sem utan. En gætið þess jafnframt að myndirnar séu raunverulegar og endurspegli það sem er í boði, svo að gististaðurinn mæti væntingum viðskiptavina. 

2. Fagmannleg vefsíða

Þó að gististaðir nýti sér þjónustu bókunarsíða er ekkert því til fyrirstöðu að vanda til við eigin vefsíðu. Sumir viðskiptavinir finna gististaði upprunalega á bókunarsíðum en fara síðan og skoða vefsíðu gististaðarins og kjósa jafnvel frekar að bóka beint í gegnum hana. Því ætti að leggja metnað í fallega og notendavæna vefsíðu sem vekur traust hjá viðskiptavininum.

3. Skalanleiki fyrir snjalltæki

Ferðalangar nýta sér í auknum mæli snjalltæki til að skipuleggja ferðalagið sitt, en yfir 70% af ferðalöngum með snjallsíma nýta sér hann til að skipuleggja ferðalög.

Ef erfitt er að nota síðuna og finna upplýsingar á snjallsímanum eru notendur fljótir að fara þaðan og leita annar staðar, en 88% notenda segjast leita á öðrum stöðum ef síðan uppfyllir ekki þeirra kröfur í snjallsímanum.

4. Sýnileiki á samfélagsmiðlum

Sýnileiki á samfélagsmiðlum getur hjálpað til við að bæta þekkingu á vörumerki gististaðarins meðal tilvonandi ferðalanga. Gætið þó að velja viðeigandi miðla og vanda til við innihald og myndefni.

Ef vel er hugað að ímynd gististaðarins og sýnileika utan Booking.com er ekkert því til fyrirstöðu að úr geti orðið farsælt samstarf, þar sem jafnvægi myndast milli fjölda bókana sem verða í gegnum bókunarsíðuna og beint í gegnum gististaðinn.