Næsta skref í gagnageymslum < Origo

 
 

Næsta skref í gagnageymslum

26.10.2015

Á undanförnum misserum hafa SSD diskar verið að sækja í sig veðrið og orðið sífell hagstæðari valkostur á móti hefðbundnum hörðum diskum. Vissulega hefur stærð þeirra verið takmörkuð við 100-250GB án þess að verðið hækki skarpt en í fyrirtækjaumhverfi má segja að 250GB SSD sé yfirdrifið nóg fyrir flesta notendur. Sala á borð- og fartölvum hjá Nýherja hefur vaxið jafnt og þétt og er hlutfall véla með SSD diska nú orðið um 40% af sölunni. Reynslan hefur leitt í ljós að bilanatíðni SSD diska er einstaklega lág og ending þeirra hefur farið fram úr væntingum á markaðnum. Það ásamt miklu meiri afköstum, 5-100x hraðari gagnaflutningi, hefur aukið vinsældir SSD diska hratt.

Nú eru hins vegar áhugaverð teikn á lofti með nýrri kynslóð SSD diska sem reiða sig á 3D TLC (triple level cell) þar sem tekist hefur að setja miklu meira af gögnum á hvern NAND bita. Nánar um SSD hér.

Nokkrir stórir framleiðendur eru að kynna slíkar lausnir sem koma á markað 2016 og gefa til kynna að gagnapláss SSD diska getur orðið allt að 16TB og hraði þeirra amk. fimmfaldast.  Það ásamt verulegum verðlækkunum per GB verður til þess að SSD diskar ná yfirhöndinni í venjulegum tölvum sem gerir notkun þeirra hraðari og mun skemmtilegri.

Optane 3D Xpoint

Intel hefur hins vegar kynnt enn hraðari lausnir sem þeir kalla Optane 3D Xpoint minni og er enn áhugaverðari tækni sem brúar bilið á milli minnis og SSD disks og er stærsta framför á minnismarkaði síðustu 25 ár. Optane er 1000x hraðara og 1000x endingarbetra en NAND og er því nánast eins og minniskubbur sem getur geymt gögn eins og SSD.

Bjartir tímar frammundan

Það má því vel ímynda sér tölvu framtíðar með 1TB gagnaplássi sem hagar sér eins og öll gögnin séu í innra minni hennar, svo hraðvirk verður hún. Hins vegar má ekki gleyma því að nútíma stýrikerfi og tölvur eru ekki gerðar til þess að hafa öll gögn alltaf í minni og þarf því verulegar breytingar á högun tölvunnar til þess að ná þessu marki. Það er magnað að sjá að M.2. diskatengi nútímans hafa aðeins 2GBps flutningsgetu þegar fyrstu kynslóðar Optane SSD eru 3,5Gps. Við munum fyrst sjá Optane tækni í SSD diskum og smám saman færast yfir í að vera minnislausn tölvunnar en það verður snúið að uppfæra eldri tölvur þar sem Optane minni þarf 12V spennu.