Nokkur atriði til að auka sölu og bæta notendaupplifun á ferðavefjum < Origo

 
 

Nokkur atriði til að auka sölu og bæta notendaupplifun á ferðavefjum

25.08.2016

Fjöldi ferðamanna sem koma til Íslands eykst ár frá ári. Fjölbreyttir hópar fólks hvaðanæva úr heiminum flykkjast til Íslands til að sjá stórbrotna náttúru okkar og flestir leita sér að og bóka sér ferðir í gegnum netið.

Til þess að fá sem flesta til að kaupa ferð á tilteknum vef er ekki einungis mikilvægt að bjóða upp á aðlaðandi og spennandi ferðir, heldur skiptir líka gríðarlega miklu máli að efni, myndir og texti sé framsett á skiljanlegan, notendavænan og síðast en ekki síst grípandi hátt.

Eftirfarandi atriði geta hjálpað til að auka sölu og bæta notendaupplifun viðskiptavina af ferðavefjum:

Skalanlegur vefur (e. responsive)

Miklu máli skiptir að vefurinn skalist niður í öll tæki eins og síma og spjaldtölvur. Einnig þarf að hafa í huga að vefurinn skalist upp í stóra skjái. Notendur nú til dags nota oft fleira en eitt tæki til að skoða vefi og vöntun á skalanlegum vef getur fælt framtíðar viðskiptavini frá. 

Stuttir og hnitmiðaðir textar

Textar sem eru vel skrifaðir, stuttir og hnitmiðaðir skila mun meiru en ritgerðir á vefnum. Mjög gott er að temja sér að skrifa auðlesnar setningar og halda sér við efnið. Lýsingaorðagleði getur virkað fráhindrandi og miklu máli skiptir að það séu engar stafsetningar-, málfars- né innsláttarvillur í textum.

Fallegar myndir í góðum gæðum

Myndir af ferðum ættu að vera lýsandi fyrir ferðina, sýna stórkostlega náttúru Íslands (að sjálfsögðu) og vera í góðum gæðum. Til dæmis geta lélegar myndir, sem eru of litlar fyrir vefinn eða skalast illa, virkað fráhrindandi á viðskiptavini. Myndir þurfa að skalast rétt og líta vel út bæði lóðrétt (e. portrait) og lárétt (e. landscape) því fólk notar snjalltæki bæði lóðrétt og lárétt. Einnig þurfa myndirnar að vera í það góðum gæðum að þær séu kristaltærar á retina skjám eins og eru í flestum Mac tölvum í dag.

Skýrt leiðakerfi

Leiðakerfi þurfa að vera skýr og ekki of yfirþyrmandi. Oft eru mjög margir tenglar í leiðakerfum og þess vegna getur verið gott að taka út/færa þá tengla sem notendur smella ekki á. Það er auðveldlega hægt að sjá gögn um þetta í Google Analytics eða með því að setja upp hitakort. Mikilvægast er nefnilega að leiðakerfi séu einföld og þægileg í notkun.

Skalanlegt leiðakerfi

Það getur verið góð hugmynd að láta leiðakerfið skalast hægt og rólega niður í snjalltækjum (e. mobile menu) í staðinn fyrir að skipta beint yfir í það. Sum leiðakerfi hoppa beint í heild sinni niður í farsímaleiðakerfi sem er falið bakvið hamborgaraíkon (e. hamburger icon) eða eitthvað annað. Það eru einnig til rannsóknir sem mæla ekki með notkun hamborgaraíkons og að texti með hamborgaraíkoninu eða jafnvel hnappur sem er merktur "meira" eða "valmynd" skili fleiri smellum en stakt hamborgaraíkon. Lesa meira um farsímaleiðakerfi og hamborgaraicon.

Leitarvélabestun (e. SEO)

Ein árangursríkasta leiðin til að auka sölu á ferðavefjum er að leitarvélabesta. Grunnatriði leitarvélabestunar byggja á góðri textasmíði og það að hafa lýsandi titla og fyrirsagnir, góð lykilorð/kjarnaorð (e. keywords) og lýsingu (e. description) er mjög góð byrjun á áhrifaríkri leitarvélabestun. Uppbygging vefslóða er líka mikilvæg og gott er að tileinka sér að nota frekar bandstrik en undirstrik í slóðum.

Þessi sex atriði eru einungis brotabrot af því sem er hægt að gera til að endurbæta ferðavefi og auka sölu í gegnum þá.