Notendapróf - ómissandi hluti af vefmálum < Origo

 
 

Notendapróf - ómissandi hluti af vefmálum

14.05.2015

Hvernig getur þú vitað hvort að vefurinn þinn standi undir væntingum og nái settum markmiðum? Langar þig að vita hvað notendum finnst um vefinn þinn? Viltu vita hvernig notendur vafra vefinn og/eða hvort þeir eigi auðvelt með að finna það sem þeir leita að? Hvernig getur þú séð hvort að blái eða græni hnappurinn grípi meiri athygli notenda, á hvorn hnappinn smella notendur frekar á? Hvernig veistu hvort að notendur komist í gegnum kaupferlið án vandræða?

Þessum spurningum og fleiri til er hægt að svara með notendaprófum og í þessari grein ætlar höfundur að fara yfir nokkur notendapróf sem vefstjórar og/eða aðrir hagsmunaaðilar geta framkvæmt hratt og auðveldlega.

Kannanir/Spurningalistar (e. Customer Surveys)

Það getur verið mjög auðvelt að setja upp könnun eða spurningarlista á vef og til eru mörg frí tól sem hægt er að nýta sér við það, sem dæmi má nefna Google Consumer Surveys og Survey Monkey. Algengt er að notendur séu spurðir í byrjun heimsóknar sinnar á vefinn hvort þeir vilji taka þátt í að betrumbæta vefinn og upplifun notenda með því að svara nokkrum spurningum. Til þess að svörin úr könnuninni séu marktæk þarf að spyrja réttu spurninganna. Almenn regla er sú að spurningarnar eiga að vera opnar, skiljanlegar og einfaldar og oft er gott að setja þær upp þannig að notendur geta valið svar á skala, t.d. frá 1-5 eða 1-10.

Spjalda flokkun (e. Card Sorting) og tré próf (e. Tree Test)

Spjalda flokkun (e. Card Sorting) er notendapróf sem er fyrst og fremst notað til að fá endurgjöf á uppröðun vefsins, þ.e. á veftrénu eða leiðarkerfinu. Aðferðin gerir notendunum kleift að búa til sína eigin uppröðun á vefnum eins og þeim finnst passa best. Til þess eru notuð spjöld sem er búið er að merkja með titli eða innihaldi hverrar síðu fyrir sig og notendur eru beðnir um að raða spjöldum eftir því sem þeim finnst að uppröðun vefsins ætti að vera. Það er hægt að gera þessa aðferð á gamla góða mátann með því að nota pappír og penna en það er líka hægt að notast við hugbúnaðinn OptimalSort frá Optimal Workshop eða hugbúnað frá UserZoom.

Það er líka til öfug spjalda flokkun eða svo kallað tré próf (e. Tree Test). Í tré prófi er leiðarkerfið á vefnum tekið fyrir og uppröðun þess eða veftréð er kynnt fyrir notandanum án þess að hönnun vefsins eða efnið trufli notandann, hann getur einbeitt sér að leiðarkerfinu og engu öðru. Notandinn þarf þá að vafra veftréð til þess að leysa fyrirfram ákveðinn verkefni. Tré próf er líka hægt að framkvæma með pappír og penna en það er líka til hugbúnaður eins og TreeJack frá Optimal Workshop sem hægt að er nota til að gera tré próf.

A/B próf (e. A/B Testing eða Split Testing)

A/B notendapróf er góð aðferð til að prófa hvort að einhver breyting á vefnum, s.s. orðalag eða litur skili sér í meiri eða minni viðbrögðum frá notendum. Til dæmis er hægt að prófa hvort að notendur smelli frekar á bláan eða grænan hnapp á vefnum með því að setja upp einfalt A/B próf.

Til eru ýmis tól sem gera mest alla vinnuna fyrir þig án þess að þurfi að eiga neitt við kóða vefsins. Sem dæmi má nefna þá er hægt að nota Google Analytics Experiments eða Optimizely. Þú ákveður hvaða breytur þú vilt prófa (hægt er að setja upp tvær eða fleiri útgáfur til að prófa) og tólin splitta upp notendunum sem heimsækja vefinn og vísa part af þeim á hverja útgáfu fyrir sig í fyrirfram ákveðinn tíma (tímalengd A/B prófa er oft talin mikilvægari en magn þátttakenda til að fá marktækar niðurstöður). Tólin skrá niðurstöðurnar og sýna svo svart á hvítu hvaða útgáfa af vefnum kemur best út.

Það getur verið sniðugt að prófa t.d. þrjár útgáfur af vefnum í u.þ.b. tvær vikur, skoða niðurstöðurnar og prófa svo útgáfuna sem stendur sig best gegn útgáfunni sem var í öðru sæti í aðrar tvær vikur. Ef að útgáfan sem stóð sig best í fyrra prófinu stendur sig enn þá best í seinna prófinu, veistu fyrir víst að vinningsútgáfan er besta útgáfan.

Hugsa upphátt aðferðin (e. Think Aloud)

Hugsa upphátt eða Think Aloud aðferðin er mjög þekkt aðferð til að notendaprófa vefi og fleira. Í þessari aðferð er notendum gefið verkefni til að leysa á vefnum. Verkefnin geta verið hvað sem er, eins og t.d. að finna eitthvað sérstakt á vefnum, senda fyrirspurn á fyrirtækið í gegnum vefinn eða kaupa eitthvað á vefnum. Notendur eru svo beðnir um að hugsa upphátt þ.e. að lýsa því hvað þau eru að gera, af hverju þau eru að gera það sem þau eru að gera, hvernig þeim líður með það o.s.frv.

Leiðbeinandinn, sá sem stýrir prófinu, fylgist með og skráir allt hjá sér og tekur upp  prófið ef mögulegt er (með myndbandsupptöku, skjáupptöku eða hljóðupptöku). Leiðbeinandinn þarf samt að passa sig að skipta sér eins lítið af notandanum og hægt er til þess að hafa ekki áhrif á hann. Sem dæmi má nefna er ekki æskilegt að segja notandanum hvað hann á að gera til þess að leysa verkefnið, heldur bara leggja verkefnið fyrir notandann og fylgjast með hvað hann gerir. Með því að gera það, fær leiðbeinandinn frekar að sjá raunverulega upplifun notandans af vefnum og hvernig hann vafrar vefinn til að leysa verkefni. Gott er að nýta sér almenna skynsemi og meta sjálfur hvernig maður vill hafa prófið og hvað maður vill fá út úr því.

Hvenær á að prófa og hve marga þátttakendur þarf?

"Test early, test often" er þekkt tilvísun frá Steve Krug sem er bandarískur sérfræðingur í notendaprófum, en hann heldur því fram að það sé aldrei hægt að prófa vefi of oft.

Hann og fleiri sérfræðingar mæla með því að prófa snemma í ferlinu (þegar það er verið að koma nýjum vef í loftið) og að oft séu fimm þátttakendur í notendaprófi nóg.

Hve margir þátttakendur ættu að vera í hverju prófi fyrir sig fer eftir tegund prófsins og hve marga er hægt að fá til að taka þátt. Almennt er talið betra að prófa oftar með færri þátttakendum en að prófa sjaldan með mörgum þátttakendum. Til dæmis er oft auðveldara að fá marga til að taka þátt í könnunum og prófum sem taka stuttan tíma heldur en vígamiklum rannsóknum.

Það er líka sniðugt að prófa eins snemma og hægt er, því að ef það er reiknað með að prófa þegar nýr vefur er að fara í loftið t.d., þá er oft lítill tími eða hvað þá fjármagn til þess að breyta vefnum ef að notendaprófin sýna fram á eitthvað sem ætti að breyta.

Frekari notendaprófanir - Sérfræðiálit

Til er mjög mörg mismunandi notendapróf sem hægt er að gera í eigin persónu eða í gegnum netið (e. remote user testing). Það fer allt eftir markmiðunum og hvað þú vilt prófa hvaða notendapróf henta best.