Nýsköpun í ferðaþjónustu er mjög mikilvæg < Origo

 
 

Nýsköpun í ferðaþjónustu er mjög mikilvæg

20.09.2016

Er íslensk ferðaþjónusta tilbúin fyrir komandi tækninýjungar?

Ferðaþjónustan á Íslandi stendur frammi fyrir ótrúlega mörgum viðfangsefnum um þessar mundir og það er kallað eftir betrumbótum á innviðum og þjónustu við ferðamenn á Íslandi. Hluti þeirrar þjónustu mun snúast um tækni og stafrænar þjónustur. Við hjá TM Software viljum vera virkir þátttakendur í því að skapa nýjar lausnir fyrir ferðaþjónustuna og hjálpa fyrirtækjum í ferðaþjónustu að vaxa og dafna í heimi þar sem hraði tækninýjunga mun aukast enn frekar á komandi árum.

Ferðalausnir TM Software stofnað

Í yfir áratug hefur TM Software unnið að þróun veflausna á sviði flugs og ferðaþjónustu. Í byrjun þessa árs urðu tímamót hjá okkur þegar ákveðið var að stofna sérstakt ferðalausnasvið innan TM Software. Hið nýja svið mun starfa áfram að þeim ferðalausnum sem fyrirtækið hefur unnið að undanfarin ár en jafnframt er ætlunin að leita nýrra tækifæra í þróun lausna fyrir innlendan sem erlendan markað.

Travel Hackathon - vettfangur til að skapa nýjar og spennandi lausnir fyrir ferðaþjónustuna

Þann 7. og 8. október næstkomandi mun TM Software halda Travel Hackathon þar sem tilgangurinn er að skapa nýjar og spennandi lausnir fyrir ferðaþjónustuna. Með þessu móti vill TM Software styðja við nýsköpun í hugbúnaðargerð innan ferðaþjónustunnar. Travel Hackathon TM Software er viðburður sem má líkja við maraþon í hugbúnaðargerð þar sem teymi skrá sig til leiks, taka þátt og vinna að að því að búa til nýjar lausnir á 1-2 dögum.

Innlendir og erlendir samstarfsaðilar úr ferðaþjónustunni opna gögn sín

Þátttakendur fá tækifæri til að vinna með gögn og vefþjónustur nokkurra öflugra innlendra og erlendra fyrirtækja sem opnað hafa aðgang að gögnum sínum gagngert fyrir hakkaþonið. Við höfum boðið breiðum hópi samstarfsaðila til þátttöku í Travel Hackathon og þeirra á meðal eru fyrirtæki á borð við Icelandair, Iceland Travel, Gray Line Iceland, Ferðamálastofa, Travelaer, Dohop, Bókun og IBM Bluemix. Þetta er í fyrsta skipti á Íslandi sem slíkur viðuburður er haldinn þar sem jafn margir aðilar úr ferðaþjónustunni koma saman, opna gögn sín og leyfa þátttakendum í hakkaþoni að vinna með þau.

Af hverju að taka þátt í Travel Hackathoni?

Það er mikil gróska í nýsköpun ferðatengdra tæknilausna um þessar mundir. Það er góð ástæða fyrir fólk til að taka þátt í hakkaþoni sem þessu, en þar gefst tækifæri til að vinna með gögn sem ekki hafa verið aðgengileg áður, efla tengslanetið og bæta við nýrri þekkingu á ferilsskránna.

Allar nánari upplýsingar um Travel Hackathon TM Software má finna á travelhackathon.is