Skipuleggja ferðalagið í snjallsímanum < Origo

 
 

Skipuleggja ferðalagið í snjallsímanum

02.12.2016

Hegðun ferðalanga á vefnum hefur breyst í kjölfar snjallsímavæðingarinnar. 70% ferðamanna leita að ferðatengdum upplýsingum í snjallsímanum sínum og því er mikilvægt að leitarniðurstöðurnar séu viðeigandi og veki áhuga.

Fólk fer í snjallsímann og leitar að þeirri þjónustu sem það mest þarf á að halda þá stundina, hvort sem það er nýr áfangastaður, hótelgisting eða afþreying. Þessi augnablik sem á ensku hafa verið kölluð “micro moments” eiga sér stað á öllum tímum ferðalagsins jafnt fyrir bókun ferðar og á meðan ferð stendur.

Notendur grípa í snjallsímann, hvar sem er og hvenær sem er, og þeir leita oftar og eyða styttri tíma í hverja leit. Það er því nauðsynlegt fyrir ferðaþjónustuaðila að sýnileiki í snjalltækjum sé góður og að leitarniðurstöðurnar eigi við og séu áhugaverðar þegar notendur leita að ferðatengdri þjónustu.

Nokkur atriði sem stuðla að betri sýnileika í leitarniðurstöðum á snjalltækjum

1. Efni sem notendur tengja við

Það mikilvægasta í góðri notendaupplifun er efni sem vekur áhuga notenda og svarar spurningum þeirra. Því er nauðsynlegt að skilja þarfir notenda, greina mikilvægustu verkefnin þeirra (e. "top tasks") og í framhaldinu útfæra efni vefsins á þann hátt að það uppfylli væntingar notenda. 

2. Einfalt að nota vefinn

Vefurinn er hannaður til að auðvelda notendum að finna og klára það sem þeir vilja gera. Hvort sem það er að hafa samband við fyrirtækið, deila efni á samfélagsmiðlum eða bóka gistingu. 

Mikilvægt er að greina hvaða verkefni (e. "top tasks") notendum finnast mikilvægust og setja vefinn upp í samræmi við þær niðurstöður.

3. Skalanlegur vefur

Til þess að efni vefsins komist sem best til skila í öllum tækjum þarf vefurinn að vera skalanlegur. Það tryggir að:

  • Framsetning efnis er sérsniðin fyrir notendur eftir tækjum
  • Samræmda notendaupplifun
  • Aðeins ein vefslóð er í notkun fyrir öll tæki
  • Auðveldara að deila efni vefsins, t.d. á samfélagsmiðlum

4. Google Search Console

Til að ná sem bestum árangri í leitarniðurstöðum Google er nauðsynlegt að skrá vefinn hjá Google Search Console en þar er m.a. hægt að:

  • Fá staðfest hvort efnið á vefnum sé aðgengilegt leitarvélum
  • Senda inn nýtt efni og fjarlægja efni úr leitarniðurstöðum
  • Sjá hvaða leitarorð skiluðu notendum á vefinn

Hér hefur aðeins verið tæpt á helstu atriðunum sem tryggja betri sýnileika í leitarniðurstöðum á snjalltækjum. Hægt er að nálgast ítarlegri upplýsingar hjá Google, Micro-Moments: Your Guide to Winning the Shift to Mobile.