Skýr samfélagsmiðlastefna er nauðsynlegur áttaviti fyrirtækisins < Origo

 
 

Skýr samfélagsmiðlastefna er nauðsynlegur áttaviti fyrirtækisins

28.04.2015

Niðurstöður rannsóknar Hagstofunnar á samfélagsmiðlanotkun íslenskra fyrirtækja sem birtar voru í nóvember 2013 sýndu að 58,8% fyrirtækjanna nota samskiptavefi á borð við Facebook og LinkedIn. 47,5% fyrirtækjanna nota samfélagsmiðla fyrir markaðssetningu en einungis 20% fyrirtækja höfðu sett sér formlega stefnu um notkun samfélagsmiðla.

Það kemur e.t.v. ekki á óvart að íslensk fyrirtæki hafa verið fljót að tileinka sér nýja miðla. Íslensk fyrirtæki tróna á toppnum varðandi notkun samfélagsmiðla þegar þau eru borin saman við notkun annarra Evrópuþjóða.

Fljótt skipast veður í vefumræðum

Skoðanaskipti á netinu hafa stóraukist undanfarin ár t.d. í gegnum umræðuþræði fréttamiðla og samfélagsmiðla á borð við Facebook og Twitter. Sitt sýnist hverjum um þá þróun enda fara neikvæðar rökræður og gagnrýni nú fram fyrir allra augum þar sem allir geta blandað sér í umræðuna.

Aukin þátttaka fyrirtækja í samskiptum á samfélagsmiðlum kallar á aðlögun fyrirtækja að þeirri umræðuhefð sem hefur skapast síðustu ár og að þau setji sér stefnu um með hvaða hætti þau vilji taka þátt í umræðunni. Oft virðist sem fyrirtæki haldi af stað af meira kappi en forsjá. Þau fyrirtæki sem hafa ekki mótað sér stefnu varðandi notkun og samskipti á samfélagsmiðlunum þyrftu að gera það.

Skýr og skynsöm samfélagsmiðlastefna

Skýr samfélagsmiðlastefna virkar sem siðareglur fyrirtækisins og starfsfólks í samskiptum á samfélagsmiðlum. Stefnan er leiðbeinandi um hvað má og hvað má ekki, hvernig bregðast skal við jákvæðri og neikvæðri umræðu um fyrirtækið eða vörumerkin á samfélagsmiðlum. Starfsfólk er fulltrúar fyrirtæksins hvar sem þeir koma fram og mikilvægt er að leiðbeina þeim um hvernig þeir koma fram í nafni fyrirtækisins.

Starfsfólk tekur þátt í umræðunni

Starfsfólk fyrirtækja er oft virkir þátttakendur í þjóðfélagsumræðu. Þá skapast sú áhætta að skoðanir starfsfólksins skarist á við hagsmuni fyrirtæksins, t.d. ef starfsmenn tjá sig um viðskiptavini fyrirtækisins. Brýnt er að fyrirtæki komi sér upp góðri samfélagsmiðla- og samskiptastefnu fyrir fulltrúa og starfsmenn fyrirtækisins á samfélagsmiðlum og í opinberri umræðu.

Góð samfélagsmiðlastefna

 • undirstrikar stuðning stjórnenda um virka þátttöku á samfélagsmiðlum
 • endurspeglar fyrirtækjamenninguna
 • tilgreinir hverju á að miðla og hvernig
 • útskýrir hverjir eru talsmenn fyrirtækisins á samfélagsmiðlunum
 • leiðbeinir starfsfólki um notkun samfélagsmiðla

Mörg fyrirtæki birta samfélagsmiðlastefnu sína á vefsvæði fyrirtækisins í þeim tilgangi að auka traust og tryggja gagnsæi varðandi aðgerðir fyrirtækisins á samfélagsmiðlum. Eins ólíkar og eftirfarandi skipulagsheildir eru, IBM, Southwest Airlines og Deparment of Justice í Viktoríufylki í Ástralíu hafa þær allar komið sér upp skýrum og aðgengilegum samfélagsmiðlastefnum sem fyrirtæki geta tekið sér til fyrirmyndar.

 • IBM
  IBM er þekkt fyrir sína góðu samfélagsmiðlastefnu en þeir hafa frá árinu 1997 hvatt starfsfólk sitt til að nota Netið á virkan hátt í sínu starfi.
 • Southwest Airlines
  Samfélagsmiðlastefna Southwest flugfélagsins er stutt og hnitmiðuð og rúmast á einu A4 blaði. Hún inniheldur upplýsingar um allt það sem starfsmenn þurfa að hafa í huga varðandi samskipti sín á samfélagsmiðlunum.
 • Deparment of Justice í Viktoríufylki í Ástralíu
  Dómsmálayfirvöld í Viktoríufylki Ástralíu hafa sett saman myndband fyrir starfmenn og talsmenn stofnunarinnar á samfélagsmiðlum. Myndbandið er aðgengilegt á YouTube og er dæmi um vel útfærða samfélagsmiðlastefnu.