Umsagnir hafa jákvæð áhrif á kauphegðun á vefnum < Origo

 
 

Umsagnir hafa jákvæð áhrif á kauphegðun á vefnum

06.09.2017

Það er einfalt að nýta sér snjallsímann til að finna upplýsingar um ákveðnar vörur. Það skiptir engu máli hvort varan er dýr eða ódýr, notendur nýta sér tæknina til að afla sér upplýsinga um það sem í boði er.

Síðastliðin tvö ár hafa leitir í snjallsíma að bestu (e. best) vörunni aukist um 80% og leitir að umsögnum um vöru (e. product reviews) um 35%

Mikilvægt að sýna umsagnir um vörur

Samkvæmt könnun stafræna markaðsfyrirtækisins Fan & Fuel þá eru umsagnir um vörur eitt af því mikilvægasta sem fyrirtæki getur sýnt á vef sínum. Fyrir 92% notenda skiptir það mjög miklu máli að hægt sé að sjá umsagnir um vörur á vef fyrirtækis.

  • 97% segja að umsagnir hafi áhrif á hvort þau kaupi vöru eða ekki.
  • 94% lesa umsagnir um vörur.
  • 92% hika við að kaupa vöru ef það eru engar umsagnir.

Notendur vilja vera upplýstir

88% notenda treysta umsögnum á vefnum jafnvel og persónulegum meðmælum. Notendur leita því að umsögnum (e. reviews) og stjörnugjöf, myndum og bloggfærslum. Þeir vilja lesa um upplifunina af vörunni, fá álit og sjá myndir. 

Sem dæmi má nefna að:

  • 37% vilja sjá nákvæma lýsingu á upplifun annarra svo þau geti ákveðið hvort varan henti sér.
  • 31% vilja vita hvort aðrir hafi lent í vandræðum með vöruna.
  • 17% vilja vita hvort varan uppfyllir loforð framleiðandans.

Jákvæðar og neikvæðar umsagnir skipta máli

Notendur vilja vita hvað öðrum finnst um vöruna, bæði jákvætt og neikvætt. Þegar vara hefur bæði jákvæðar og neikvæðar umsagnir meta notendur sem svo að fyrirtækið sé ekki að fela neitt og í kjölfarið meta þeir jákvæðu umsagnirnar betur.

10% notenda lesa umsagnir sérstaklega til að sjá hvernig fyrirtæki svara neikvæðum umsögnum. Fjöldi fyrirtækja svara umsögnum á vefnum og þegar það er vel gert þá núllar svarið út neikvæðu umsögnina. Neikvæðar umsagnir geta því verið tækifæri til að sýna notendum fram á góða og fagmannlega þjónustu.