Vefhönnuðir TM Software < Origo

 
 

Vefhönnuðir TM Software

19.01.2015

Á rúmu einu ári hafa þrír vefhönnuðir hafið störf hjá veflausnasviði TM Software. Fyrir þann tíma var einn vefhönnuður starfandi hjá TM Software, þetta er því talsverð breyting á áherslum hjá okkur, segir Soffía Kristín Þórðardóttir, forstöðumaður Veflausna TM Software.

Vefhönnun snýst um það fyrst og fremst að hanna jákvæða upplifun fyrir notendur veflausna hvort sem um er að ræða fagurfræðilega eða virknilega séð. Besta útkoman verður þegar þessir tveir þættir fara saman og bæta hvorn annan upp. 

Við viljum skapa veflausnir frá A-Ö og það þýðir að við þurfum að hafa hæfileikaríka vefhönnuði í okkar teymi. Verkefnastaðan hjá okkur var þannig að við gátum ekki lengur ofhlaðið verkefnum á eina manneskju og þá var bara um eitt að ræða, að fjölga vefhönnuðum. 

Ásta María Sigmarsdóttir, Oddur Helgi Guðmundsson og Guðbjörg Ólafsdóttir eru þetta frábæra fólk sem við fengum til liðs við okkur. Öll hafa þau mismunandi bakgrunn og menntun sem hefur á endanum leitt þau til okkar í TM Software. Hér gefst fólki tækifæri til að kynnast þeim aðeins betur og hvers konar hönnunarstefnu þau fylgja við hönnun veflausna hjá TM Software.

Hvað finnst ykkur skipta mestu máli þegar þið hannið vefi?

Ásta, Oddur og Guðbjörg eru öll sammála um að mestu máli skiptir að vita sem mest um tilgang og notendur vefsins. „Að mínu mati er mikilvægt að kynnast bæði kúnnanum og markhópnum vel, hver er tilgangur vefsíðunnar og hvaða ímynd er eigandi vefsíðunnar að leitast eftir“, segir Guðbjörg. „Já mestu máli skiptir að hafa góðar upplýsingar um markhópinn og hverjir eru að fara að nota vefinn“, segir Ásta. Oddur bætir við að maður þarf að setja sig í spor notandans allt frá fyrstu skrefum og horfa á heildarmyndina.

Hvernig geta vefstjórar best undirbúið verkefnin áður en vefhönnuður tekur við því?

Ásta svarar þessu og segir að gott sé að vita hvort viðskiptavinurinn eigi branding guide sem fara þurfi eftir eða annað efni sem hann vill að stuðst sé við. Best er þegar búið sé að taka saman efnið sem verður notað á vefnum. Það er alltaf betra að hanna vefi með raunverulegt efni sem á að nota á vefnum. 

Á hvaða tímapunkti er best að vefhönnuður komi að smíði á nýrri vefsíðu? 

Oddur segir að persónulega vilji hann koma mjög snemma inn í ferlið. „Mér finnst gott að vinna náið með verkefnastjóranum og sitja fundi með viðskiptavinum allt frá byrjun. Það er mikilvægt að fá innsýn í það hvað kúnninn er að pæla og hvert hann vill fara með verkefnið“. Guðbjörgu finnst einnig því fyrr því betra. „Það er alltaf gott að vera partur af öllu ferlinu frá byrjun til enda og vinna áhugaverðar og spennandi lausnir í samvinnu viðviðskiptavininn“.

Hvernig er hönnunarferlið hjá ykkur? 

Mér finnst alltaf gott að skoða núverandi vef hjá viðskiptavininum til að skilja hvaðan hann er að koma, segir Oddur. „Já það er mikilvægt að kynnast viðskiptavininum og komandi verkefni“, segir Guðbjörg. „Þegar allt efnið er tilbúið sem við höfum til að vinna út frá hefst maður handa við að hanna vefinn út frá þeim upplýsingum“, bætir hún við. 

Ásta segir að snemma þurfi að ákveða grind síðunnar og hvaða skjástærðir vefurinn þarf að virka best fyrir. „Flestir vefir eru í dag skalanlegir og þá er unnið með skalanlega hönnun. Yfirleitt vinnum við út frá wireframes sem hafa verið unnin í undirbúningsvinnunni og svo er byrjað tiltölulega fljótt að hanna í Photoshop og Illustrator. Þá fer vinnan líka meira að snúast um að velja liti, fonta, grafík o.fl.“, segir Ásta. 

Hvaða verkfæri notið þið helst við vefhönnun?

Öll segjast þau nota aðallega Photoshop og Illustrator þegar kemur að því að setja útlitið á vefinn. “Við undirbúningsvinnuna þá notum við líka pappírsskissur og setjum upp wireframes í Balsamiq“, segir Guðbjörg. „Við höfum líka verið að prófa okkur áfram með nýjustu tólin frá Adobe sem styðja við hönnunarferli á skalanlegri hönnun. Við munum áreiðanlega nota þau meira í framtíðinni“, segir Oddur.

Ásta heldur svo áfram: „Þegar hönnunin er að fæðast er líka mikilvægt að deila skissunum með öllum þátttakendunum í verkefninu til að fá umsagnir fljótt til baka og til að tryggja að maður sé á réttri leið. Við notum tólið frá Invisionapp til þess og það hefur reynst okkur mjög vel“.

Hversu miklu máli skipta tíska og hefðir í vefhönnun?

Ásta segir að það sé mikilvægt fyrir vefhönnuði að fylgjast vel með og vita hvað er í tísku hverju sinni. „Tíska í vefhönnun er mikilvæg en hún lifir oftast ekki mjög lengi“, segir Ásta. „Það eru nátturlega straumar og stefnur í öllu í dag og vefhönnun er enginn undantekning“, segir Oddur.

„Maður þarf að fara varlega í að detta alveg inn í þessa strauma og fer það bara allt eftir því hver kúnnin er. Það sem er inn í dag verður kannski út eftir mánuð“. Guðbjörg bætir við að það fari líka alltaf eftir hverju verkefni fyrir sig hvort maður fylgi nýjustu straumum eða haldi sig við hefðbundnari leiðir.

Hvaða verkefni eru skemmtilegust og hverju eruð þið stolt af?

„Okkur þykir vinnan okkar mjög skemmtileg og það eru mörg verkefni sem við erum stolt af. Við höfum mikið verið að setja upp vefi fyrir ferðaiðnaðinn líkt og Icelandair, Iceland Travel, Farmholidays og fleiri góða, en það sem situr kannski hæst eru góðgerðavefir og áheitavefir, það er alltaf gaman að fá tækifæri til að vefa til góðs”, segir Ásta. „Held að ég þurfi að taka undir það sem Ásta hefur sagt“ segir Oddur. „Það er gaman að sjá þegar vefum gengur vel og fá athygli“. Já það er alltaf skemmtilegt að byrja á spennandi og krefjandi verkefnum og enn betra að sjá vefsvæði fara í loftið og fá jákvæð viðbrögð“, segir Guðbjörg að lokum.