Vefhönnun og aðgengi < Origo

 
 

Vefhönnun og aðgengi

26.04.2016

Sú hugsun að ekki sé hægt að gera aðgengilega vefsíðu sem lítur vel út, er enn útbreidd. Áður var það oft raunin sökum tæknilegra hafta en núna er ekkert því til fyrirstöðu að fallegar vefsíður geti einnig verið aðgengilegar. 

Það eru þó nokkur atriði sem hafa þarf í huga og vissulega má segja að þau hamli hönnunarfrelsinu að einhverju leiti, þar sem til dæmis val á litum og litasamsetningum þurfa að standast ákveðnar kröfur.

Eftirfarandi atriði eru meðal þeirra sem hönnuðir aðgengilegra veflausna þurfa að taka tillit til, en þau eru hluti af WCAG viðmiðunarreglunum.

Litir

  • Skerpa (e. contrast) milli lita á texta og bakgrunni verður að vera nægilega há. Búið er að skilgreina ákveðið lágmarkshlutfall á skerpu sem gerir flestum notendum kleift að lesa texta á auðveldan hátt.
    Miðað er við hlutfallið 4.5:1 fyrir venjulega stærð á texta og 3:1 fyrir stórt letur (leturstærð 18 eða 14 í bold telst vera stórt letur). Til eru mörg tól sem reikna þetta hlutfall út - WebAIM býður til dæmis upp á Color contrast checker.

  • Litur má ekki vera það eina sem miðlar ákveðnum upplýsingum eða greinir hluti í sundur. Til dæmis geta litblindir og sjónskertir átt erfitt með að greina mun og missa þar af leiðandi af ákveðnum upplýsingum. Sumir notast einnig við eigin litastillingar, eins og svarthvítt. Þess vegna verður að notast við aðra aðgreiningu að auki. Gott dæmi um þetta eru tenglar inni í texta. Ef tenglar eru einungis aðgreindir frá textanum með lit, getur verið erfitt að sjá hvar þeir eru. Algengast er að undirstrika þá (og helst er mælt með því), en einnig væri hægt að feitletra eða notast við tákn.

Það er vert að taka það fram að notkun á litum er almennt jákvæð. Litir geta hjálpað til við að aðgreina og flokka hluti á fljótlegan hátt og gefa okkur yfirsýn, svo lengi sem þess er gætt að notast við aðra sjónræna aðgreiningu að auki.

Myndir

  • Ef myndir eru notaðar til annars en skrauts, skal sjá til þess að skilaboðin geti einnig komist til skila í texta, annað hvort í textanum umhverfis myndina, eða sem alt-texti.

  • Ekki nota myndir af texta. Margir notast við stækkunarhugbúnað eða stækkun í vafranum sem stækkar letur án þess að missa skerpu, en myndir af texta geta orðið verulega óskýrar. Að auki geta skjálesarar ekki lesið texta af myndum.

Margmiðlun

  • Ef myndbönd eða annað margmiðlunarefni er notað þarf að gæta þess að takkar til að spila og stöðva myndbandið séu til staðar, að undirtitlar séu í boði sem og handrit að myndbandinu (e. transcript).

Þær viðmiðunarreglur sem eiga við aðgengilegar vefsíður gagnast oftar en ekki öllum notendum. Flestum þykir óþægilegt að lesa ljósan texta á hvítum bakgrunni og að vafra í farsímanum við mismunandi birtuskilyrði getur til dæmis gert það að verkum að erfitt er að aðgreina liti eða lesa texta sem ekki hefur nægilega skerpu.

Með því að taka þessari áskorun og hugsa um ofangreind atriði, getur vefhönnuðurinn sýnt fram á að vel er hægt að hanna fallegar vefsíður sem jafnframt gera öllum notendum jafn hátt undir höfði.