Vélmenni í afgreiðslustörfum í ferðaþjónustu < Origo

 
 

Vélmenni í afgreiðslustörfum í ferðaþjónustu

21.07.2017

Fyrirtæki í ferðaþjónustu eru á meðal þeirra sem eru farin að nýta sér nýjustu tækni en ýmsir möguleikar eru nú í boði fyrir fyrirtæki sem vilja nýta sér vélmenni og gervigreind. 

1. Barþjónar á Bionic barnum

Fjögur skemmiferðaskip fyrirtækisins Royal Caribbean eru með svokallaðan Bionic Bar en á hverjum bar sjá tvö vélmenni um að útbúa drykki. Farþegarnir fara á barinn og panta drykki í gegnum spjaldtölvu sem vélmennin búa svo til. Bæði er hægt að panta af drykkjarseðli eða láta búa til sinn eigin drykk. 

Stórir skjáir á barnum sjá svo um að halda farþegum upplýstum um hvar þeir eru í röðinni og hversu margir eru að bíða. Auk þess eru birtar áhugaverðar staðreyndir um drykkjarpantanirnar og upplýsingar um drykkina sem verið er að búa til þá stundina.

Ítalska fyrirtækið Makr Shakr, stofnað 2014, á heiðurinn af þessum vélrænu barþjónum en fyrirtækið sérhæfir sig í vélfærafræði (e. robotics) fyrir veitingahús og bari. 

2. Connie svarar spurningum í móttökunni

Í fyrra starfaði vélmennið Connie í móttökunni hjá Hilton McLean hótelinu í Virginíufylki í Bandaríkjunum. Hann sá um að bjóða gesti velkomna og svara spurningum þeirra, t.d. um þjónustuna á hótelinu, veitingastaði í nágrenninu og þess háttar. Eftir því sem Connie fékk fleiri spurningar því meira lærði hann og því betri urðu svörin frá honum. Með Connie vildi hótelið bæta þjónustuna í móttökunni og um leið skemmta gestum sínum.

Connie var samstarfsverkefni Hilton hótelkeðjunnar, IBM Watson og WayBlazer en þetta var fyrsta vélmennið með Watson gervigreind sem IBM þróaði sérstaklega fyrir hótelbransann.  

3. Brytinn Botlr sér um afhendingar upp á herbergi

Brytinn Botlr starfar hjá Aloft hótelinu í Cupertino, Kaliforníu. Hann hjálpar til við herbergisþjónustuna en hann sér um að afhenda pantanir, eins og t.d. mat og drykk, rúmföt og tannkrem, upp á herbergin. Auk þess sér hann einnig um að afhenda handklæði til gesta í sundlauginni. Botlr á auðvelt með að rata um hótelið, kann á lyftuna og er til staðar allan sólarhringinn, allan ársins hring.

Botlr kemur frá fyrirtækinu Savioke sem sérhæfir sig í afhendingar-vélmennum (e. delivery robots) til notkunar innanhúss.