Viðtal við Christopher Lee Ball < Origo

 
 

Viðtal við Christopher Lee Ball

05.05.2015

Á Veflausnadögum TM Software fengum við Christopher Lee Ball UX-hönnuð í heimsókn til okkar. Við gripum tækifærið og spurðum hann nokkurra spurninga.

Christopher Lee BallChristopher, getur þú sagt okkur í stuttu máli frá sjálfum þér?

Ég fæddist í Suðurríkjum Bandaríkjanna (í Asheville, litlum bæ í Norður Karólínufylki). Ég flutti til New York þegar ég var 18 ára, og þegar ég var 28 ára flutti ég til London. Ég hef búið í London í tæp 10 ár og mér finnst borgin vera sú besta í heimi. Ég er auðvitað hlutdrægur! Ég er nýorðinn breskur ríkisborgari og þegar fólk spyr mig hvaðan ég kem þá veit ég ekki alveg hvað ég á að segja. Ég er stjórnandi UX teymisins hjá DigitasLBi í Bretlandi.

Hvernig varðst þú UX hönnuður / ráðgjafi?

Ég lærði enskar bókmenntir og listasögu í háskóla svo ég byrjaði ekki að hanna fyrr en á tvítugsaldri þegar ég fór að hanna stafrænar vörur fyrir Thompson Reuters í New York. Ég kláraði Masters gráðu í Kvikmyndafræðum í London árið 2006 og eftir námið starfaði ég sem einn aðalhönnuður YouView (áður Canvas) IPTV stýrikerfisins sem notað var af BBC. Árið 2009 hóf ég störf hjá DigitasLBi, en á meðal viðskiptavina þeirra eru Virgin Atlantic, BT, AstraZeneca, Cunard, Renault og Nissan.

Hver er þín hugmyndafræði sem UX hönnuður?

Ég hef lært að það er engin töfralausn til þegar á að hanna framúrskarandi vöru. Þegar hönnunarferlið gerir ráð fyrir þörfum viðskiptavinarins í bland við ríflegan skammt af nýsköpun geta frábærir hlutir gerst. Ég einbeiti mér að nytsemi - ef ég myndi bara vilja hanna fallega hluti þá væri ég málari. Það að leysa vandamál á að vera undirstaðan í ferlinu.

Yfir hvaða færni er mikilvægast fyrir UX hönnuð að ráða yfir?

Allir góðir UX hönnuðir kunna að hlusta og hafa ríka samkennd. Þeir eru athugulir og rökrænir. Síðast en ekki síst þá eru þeir áhugasamir um umhverfi sitt og hafa raunverulega löngun til að bæta það.

Hvað finnst þér vera mikilvægast þegar fyrirtæki fara í endurhönnun?

Flest fyrirtæki skilja enn ekki hvernig Netið virkar og það að gera netmálin að grunnstoð fyrirtækisins er erfitt en algjört grundvallaratriði. Það þýðir að allt fyrirtækið þarf að koma að endurhönnuninni og fylkja sér um hana, ekki bara markaðs- eða upplýsingatæknideildin. Þegar allir í fyrirtækinu einbeita sér að viðskiptavininum - og átta sig á því að hann er að finna á netinu - þá verður endurhönnunin hnitmiðaðri, skýrari og mun líklegri til að ná góðum árangri.

Af hverju er mikilvægt fyrir fyrirtæki að tryggja það að vörumerki þeirra skili sér á vefinn?

Netið er stútfullt af efni og fyrirtæki sem leggja áherslu á að skera sig úr fjöldanum mun ganga betur en vörumerki sem falla í hópinn og hafa enga sérstöðu. Viðskiptavinir eru hverflyndir og fljótir að breyta til. Það er ekki lengur nóg að mæta væntingum viðskiptavinarins; vörumerki verða að fara fram úr væntingum.

Hvernig geta fyrirtæki tryggt að vörumerki þeirra skili sér á netið?

Gildi fyrirtækisins þurfa að komast til skila á netinu, ekki bara í gegnum útlitið heldur skiptir innihaldið líka máli sem og öll samskipti og upplifun. Viðskiptavinir eiga að upplifa vörumerkið eins hvort sem um er að ræða smáforrit, þjónustuver, samfélagsmiðla eða vef.

Hvernig færðu fyrirtækin með þér?

Viðskiptavinir mínir verða ánægðir þegar þeir sjá árangur og með því að nota Agile aðferðarfræðina vita þeir alltaf stöðuna. Því hraðar sem við getum komið verkefninu frá okkur og til notenda, því hraðar getum við sannað að verkferlið okkar virkar. Við notum endurgjöf frá notendum til að bæta verkefnið og það gerir það að verkum að allir sem koma að ferlinu taka þátt í hönnuninni, þetta er samvinna ekki einstefna, svo að viðskiptavinurinn upplifir sig sem jafnmikinn þátttakanda í verkferlinu eins og við.

Hvað gerir þú og teymið þitt til að örva sköpunargáfuna í verkefnum?

Ég hvet teymið mitt til að fara og skoða og upplifa nýja hluti, til dæmis leiksýningar eða framúrstefnulegar kvikmyndir, og einnig að fylgjast með viðskiptavinum okkar í sínu rétta umhverfi. Það er mikilvægt að halda sér ferskum og örva andagiftina svo að við búum til og leysum verkefni saman. Einnig erum við dugleg að deila hugmyndum og ræða þær. Að auki koma allir að hönnuninni, sama hvaða starfsheiti þeir bera, sem tryggir það að við fáum góðar hugmyndir frá öllum, ekki bara frá yfirmönnum.

Hvernig var að vinna að Virgin Atlantic verkefninu?

Virgin Atlantic var draumaverkefni af því að þar var að finna svo marga frábæra hluti, flott vörumerki, viðskiptavinurinn í aðalhlutverki, Agile aðferðarfræðin og nýsköpun. Virgin Atlantic var einn sá besti viðskiptavinur sem ég hef unnið með þar sem starfsmenn fyrirtækisins stóðu algjörlega fyrir gildi fyrirtækisins.

Hvaða UX/UI vefverkefnum ert þú að vinna í núna?

Ég er að vinna í verkefni fyrir bílaframleiðendur, sameiginlegan grunn fyrir vörumerki eins og Renault og Nissan. Þetta er risastórt verkefni: þrír stórir viðskiptavinir, alþjóðlegt greiðslukerfi og krefjandi tímaáætlun.

Áttu þér einhver áhugamál sem tengjast ekki vefnum?

Ég skrifa skáldsögur en einmitt þessa stundina skrifa ég aðallega smásögur og gutla við kvikmyndaframleiðslu. Sumar af styttri heimildamyndum mínum hafa verið sýndar hjá BBC.

Við hverju býstu í heimsókn þinni til Íslands?

Þetta er fyrsta heimsóknin mín til Íslands og ég veit ekki alveg við hverju ég á að búast, nema norðurljósum, vingjarnlegu fólki og möguleikanum á því að lenda í eldgosi! Ég verð sáttur við eitthvað/allt af þessu þrennu.

Þýðandi: Sigurlaug Sturlaugsdóttir