Virgin Hotels leggja áherslu á upplifun hótelgesta < Origo

 
 

Virgin Hotels leggja áherslu á upplifun hótelgesta

15.06.2017

Richard Branson, frumkvöðull, viðskiptajöfur og stofnandi Virgin Group, byrjaði í ferðabransanum árið 1984 þegar hann stofnaði Virgin Atlantic flugfélagið. Þann 15. janúar 2015 var svo loksins komið að því að opna fyrsta Virgin hótelið.

Hótelið er staðsett í Old Dearborn Bank byggingunni í Chicago, sem áður var banki. Bræðurnir Cornelius Ward Rapp og George Leslie Rapp hönnuðu bygginguna. Þeir voru þekktastir fyrir hönnun kvikmyndahúsa en Old Dearborn Bank er önnur af tveimur skrifstofubyggingum sem þeir hönnuðu.

Nýsköpun, tækni og þjónusta höfð að leiðarljósi við breytingar

Það tók Virgin Hotels teymið og hönnunarstofuna Rockwell Group Europe tvö ár að breyta byggingunni í nútímalegt og tæknivætt 250 herbergja hótel sem leyfir upprunalega Art Deco stílnum sem og sögu byggingarinnar að njóta sín.

Frá byrjun lagði Richard Branson áherslu á að upplifun gestanna væri sem allra best og að þeir fengju persónulega þjónustu sem væri sniðin að þörfum þeirra.

Einnig lagði Richard sérstaka áherslu á að atriði sem honum fannst ekki í lagi hjá öðrum hótelkeðjum yrðu ekki til staðar á Virgin hótelinu.

Nokkur dæmi um atriði sem voru bestuð hjá Virgin Hotels

1) Engin falin gjöld

  • Það eru engin gjöld fyrir að hætta við bókun eða fyrir að skrá sig inn snemma og/eða skrá sig út seint.
  • Allt í minibarnum kostar það sama og út úr búð.
  • Frí nettenging.
  • Frí hamingjustund (e. happy hour) á hverjum degi frá kl. 19 - 20 fyrir alla hótelgesti.

2) Já! sími

Það er sími í hverju herbergi og fyrir ofan tölustafina er einn takki sem á stendur Já! (e. Yes!). Gestir þurfa einungis að ýta á Já! takkann til að fá samband við starfsmann hótelsins. Hér þarf því ekki að hafa samband við mismunandi deildir eftir því hvað vanhagar um. Einn hnappur gefur samband við einn starfsmann sem leysir úr málunum.

3) Sérhannað rúm (e. The Lounge Bed)

Samkvæmt rannsóknum Virgin þá vinna flestir viðskiptaferðamenn (e. business travelers) frekar með tölvuna uppi í rúmi heldur en við skrifborð svo að Virgin teymið sérhannaði rúm sem þægilegt er að sitja í og vinna. Allt að þrír geta setið í rúminu og unnið við tölvu en rafmagnsinnstungur eru nálægt hverju vinnusæti. Rúmið sló í gegn hjá gestum hótelsins og eftir að hafa borist fjöldi fyrirspurna um hvar væri hægt að kaupa rúmið hefur Virgin ákveðið að bjóða það til sölu til almennings. 

4) Smáforritið LUCY

Hótelgestir geta nýtt sér smáforritið (e. app) LUCY til að sjá um allt sem tengist dvöl þeirra á hótelinu. Með LUCY er meðal annars hægt að:

  • Bóka herbergi
  • Uppfæra bókun
  • Skrá sig inn og út
  • Panta herbergisþjónustu
  • Bóka tíma í heilsulindinni (e. spa)
  • Stjórna hitanum í herberginu  

Virgin Hotels Chicago var valið Besta hótelið í Bandaríkjunum árið 2016 af lesendum Condé Nast Traveler. Næsta Virgin hótel verður opnað í San Francisco á seinni hluta árs 2017.