Windows takmarkar notkun á eldri stýrikerfum < Origo

 
 

Windows takmarkar notkun á eldri stýrikerfum

28.01.2016

Með tilkomu nýju Intel Skylake örgjörvanna þá hefur Microsoft kynnt nýja stefnu í stuðningi stýrikerfa við nýjar tölvur. Þeir hafa gefið út að neytendavélar með Skylake geta aðeins notað Windows 10 og sama á við um fyrirtækjavélar með undantekningum. Það þýðir að ef fyrirtæki vilja nota eldri stýrikerfi þá hafa þeir úr fáum tölvutegundum að velja og verður sá stuðningur aðeins í 18 mánuði (endar 17. júlí 2017)

Þær vélar sem Microsoft hefur gefið út að styðji eldri stýrikerfi eru í meðfylgjandi lista frá Lenovo og það er ekki sjálfgefið að þessar vélar verði til sölu með Windows 7 uppsettu. Kaupendur þurfa því sjálfir að setja upp Windows 7 og má finna helstu rekla hjá Lenovo, t.d. hér og hér. Aðrar vélar verða svo að nota Windows 10 sem er reyndar frábært í sjálfu sér.

Hraðasta útbreiðsla frá upphafi

Nýherji mun bjóða nýjar vélar með Windows 10 stýrikerfum og aðstoða þá notendur sem þurfa að aðlagast Windows 10 stýrikerfinu. Það er mikilvægt að prófa umhverfi viðskiptavina vel en almennt hefur notkun Windows 10 gengið þrautalaust en eins og ávallt koma upp einstaka hnökrar sem yfirleitt leysast á einfaldan hátt. Að sögn Microsoft eru rúm 75% allra fyrirtækja nú þegar að nota Windows 10 eða í ýtarlegum prófunum á því svo að útbreiðsla Windows 10 hefur verið sú hraðasta frá upphafi. 

Nýjasta tryllitækið í örgjörvaheiminum

Skylake eru nýjustu Intel örgjörvarnir af 6. Kynslóð og bera flestir númer 6xxx. Það eru fjölmargar nýjungar í þessari kynslóð örgjörva sem eru sparneytnari, hraðvirkari og hitna minna en áður. Þeir auðvelda framleiðendum að hanna enn þynnri vélar en áður og verður næsta kynslóð tölva þvi mjög spennandi. Frá því fyrstu Windows 7 vélarnar komu á markað hefur rafhlöðuending þrefaldast ásamt mikilli afkastaaukningu á öllum sviðum.

Stuðningur Microsoft við eldri stýrikerfi er eftirfarandi:

  • Windows 7 verður stutt á eldri búnaði til ársins 2020.
  • Windows 8.1 verður stutt á eldri búnaði til ársins 2023

Windows 10 verður eina stýrikerfið sem er stutt á öllum Skylake vélum og næstu kynslóð tölva eftir það.

Það er því ekki til setunnar boðið að huga að innleiðingu Windows 10 svo að mögulegt sé að njóta nýju vélanna sem koma á markað í febrúar.