FjárfestafréttirOrigo hf. - Uppgjör - Ágætur tekjuvöxtur og heildarhagnaður 366 mkr á fyrstu 9 mánuðum ársins.31. október 2019

Reykjavík, 31. október 2019 -  Origo kynnti í dag uppgjör þriðja ársfjórðungs 2019 

Helstu upplýsingar:

  • Sala á vöru og þjónustu nam 3.463 mkr á þriðja ársfjórðungi 2019 (9,4% tekjuvöxtur frá F3 2018, án tekna Tempo 2018) og 10.509 mkr á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 (8,1% tekjuvöxtur frá 9M 2018, án tekna Tempo 2018).  Tempo ehf. er ekki lengur hluti af samstæðureikningi félagsins á, en með tekjum Tempo 2018 drógust tekjur saman um 7,5% á F3 og 6,6% fyrstu níu mánuðum ársins.
  • Framlegð nam 747 mkr (21,6%) á þriðja ársfjórðungi og 2.520 mkr fyrstu níu mánuði ársins (24,0%) (F3 2018: 28,6%, 9M 2018: 26,5%)
  • EBITDA nam 254 mkr (7,3%) á þriðja ársfjórðungi og 704 mkr (6,7%) fyrstu níu mánuði ársins [F3 2018: 369 mkr (9,8%), 9M 2018: 705 mkr (6,3%)]
  • Þýðingarmunur vegna starfsemi dóttur- og hlutdeildarfélaga var neikvæður um 59 mkr í F3 2019 (var jákvæður um 3 mkr í F3 2018) og var jákvæður um 129 mkr fyrstu níu mánuði ársins (var neikvæður um 1 mkr á sama tímabili árið 2018)
  • Heildarhagnaður nam 15 mkr á þriðja ársfjórðungi (F3 2018: 146 mkr) og 366 mkr á fyrstu níu mánuðum ársins (9M 2018: 135 mkr)
  • Eiginfjárhlutfall er 60,2%
  • Veltufjárhlutfall er 1,51

Finnur Oddsson, forstjóri:
„Við erum ánægð með ágæta tekjuaukningu hjá Origo á þriðja ársfjórðungi, um 9%, og almennt er ákveðinn stöðugleiki í rekstrinum. Tekjuvöxt má að hluta rekja til áframhaldandi aukinna umsvifa í hugbúnaðartengdri starfsemi eins og verið hefur undanfarin misseri. Að auki var töluverð aukning í sölu á notendabúnaði, m.a. vegna kaupa Origo á Strikamerki og Tölvuteki fyrr á árinu. EBITDA nam 254 mkr á þriðja ársfjórðungi og 704 mkr EBITDA fyrstu níu mánuði ársins, sem er svipað og var í fyrra. Hagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins nam 366 mkr.

Afkoma Origo á fyrstu níu mánuðum ársins er viðunandi en nokkuð mismunandi á milli starfsþátta. Afkoma af hugbúnaðartengdri starfsemi var góð, en sala lausna í áskrift til viðskiptavina verður sífellt stærra hlutfall af heildartekjum. Fjárfesting í þróun og nýsköpun er áfram umtalsverð og hefur hugbúnaðarsérfræðingum fjölgað að undanförnu, bæði á Íslandi og erlendis.  Origo rekur nú þróunarsetur í Serbíu þar sem nú starfa á annan tug hugbúnaðarsérfræðinga.

Lakari afkoma hefur verið af rekstrarþjónustu og sölu á notendabúnaði, en við höfum leitast við að auka hagræði í öllum rekstri, m.a. með útvistun afmarkaðra verkefna og aukinni sjálfvirknivæðingu í eigin starfsemi og fyrir viðskiptavini okkar. Þeirri vegferð verður haldið áfram.

Afkoma í þjónusturekstri Origo er í járnum og er sérstök áhersla lögð á að leita hagræðis í þessum rekstrarþáttum, með aukinni sjálfvirkni og útvistun einfaldari verkefna út fyrir landsteina. Sífellt fleiri viðskiptavinir sjá hag sínum betur borgið með útvistun og kaupum á skýjalausnum í áskrift, í stað þess að reka sína eigin tölvuinnviði. Þetta kemur eðlilega niður á sölu á miðlægum búnaði sem sögulega hefur verið þungamiðja í okkar starfsemi, en um leið felast í þessari þróun töluverð tækifæri í ráðgjöf og sölu á skýjalausnum af ýmsu tagi. Því tengt þá er eftirspurn eftir öryggislausnum að aukast verulega, í takt við vitundarvakningu íslenska fyrirtækja á mikilvægi slíkra verkfæra. Við höfum fjárfest sérstaklega í þekkingu og lausnum á þessu sviði og fer sá hópur sérfræðinga í öryggislausnum ört stækkandi hjá okkur, vel studdur af traustu baklandi erlendra samstarfsaðila.

Ágæt tekjuaukning er í sölu á notendabúnaði, PC tölvum, afgreiðslukerfum og hljóð- og myndlausnum.  Hluti aukningarinnar er til kominn vegna Strikamerkis og Tölvuteks, sem víkka lausnaframboð Origo og stækka viðskiptamannahóp. Afkoma í sölu á notendabúnaði hjá Origo er þó heldur undir væntingum, en þess ber að geta að hagræðingaráhrif af kaupum á Tölvutek og Strikamerki eru enn ekki komin fram í rekstri. Unnið er að hagræðingu í rekstri, sjálfvirknivæðingu og stafrænum áherslum hjá Notendalausnum, sem miða að því að einfalda og fækka snertiflötum en auka um leið þjónustustig til viðskiptavina, m.a. með snjallboxum og sjálfsafgreiðslu í gegnum netverslun.

Hjá Origo erum við stolt af því að vera í 6. sæti Framúrskarandi fyrirtækja sem uppfylla ströng skilyrði greiningar Creditinfo árið 2019. Þessi sterka staða Origo er afrakstur mikillar vinnu frábærs hóps starfsfólks á undanförnum árum, sem jafnframt verður nýtt í sókn sem er framundan. Við getum enn gert betur á öllum sviðum í okkar rekstri, hvort sem horft er til sölu á búnaði, rekstrarþjónustu eða í hugbúnaðartengdri starfsemi. Að auki horfa viðskiptavinir í auknum mæli til ávinnings af upplýsingatækni til að efla þeirra rekstur, og þar erum við hjá Origo í góðri stöðu til að hjálpa til. Horfur í rekstri Origo eru því góðar“.origo-logo
Skiptiborð
Mánudagar - föstudagarkl. 08:00-16:00Sími: 516-1000
Verslun í Borgartúni 37105 Reykjavík
Mánudagar - föstudagarkl. 08:00-17:00Laugardagarkl. 11:00-15:00
Verkstæði og vöruafgreiðslaKöllunarklettsvegi 8104 Reykjavík
Mánudagar - föstudagarkl. 09:00-17:00
StarfsstöðvarAkureyriÍsafjörðurNeskaupsstaðurEgilsstaðir
Origo, Borgartún 37, 105 Reykjavík, kt: 530292-2079. S: 516 1000