FjárfestafréttirUppgjör Nýherja hf. fyrir þriðja ársfjórðung 201022. október 2010
Nýherji skilar 169 mkr rekstrarhagnaði fyrir afskriftir á þriðja ársfjórðungi

Helstu niðurstöður 

•  169 mkr EBITDA á þriðja ársfjórðungi, en EBITDA var 107 mkr á sama tímabili
  2009. 
•  132 mkr heildarhagnaður á fyrstu níu mánuðunum, en heildartap var 178 mkr á
  sama tímabili í fyrra. 
•  Nýherji hf. jók hlutafé um 840 mkr að markaðsvirði. 
•  Lokið er samningum við viðskiptabanka félagsins um endurskipulagningu
  langtímalána. 
•  Fasteign Nýherja verður seld á 1.650 mkr, samhliða því að félagið gerir
  leigusamning til 15 ára.
•  Áætlað að vaxtaberandi skuldir félagsins lækki um 2.600 mkr.

Þórður Sverrisson, forstjóri:

„Mjög jákvæð þróun hefur verið í rekstri Nýherja og innlendra dótturfélaga á
árinu og er afkoman ágæt í þriðja ársfjórðungi 2010. Eftirspurn eftir tölvu- og
tæknibúnaði hefur aukist og er sala umfram áætlanir. Eftir umtalsverða fækkun
sérfræðinga á sviði hugbúnaðar hefur náðst jafnvægi við eftirspurn eftir
hugbúnaðarþjónustu innanlands og skilar sú starfsemi nú hagnaði. 

Nýherji jók hlutafé um 120 mkr að nafnvirði og seldi fjárfestum á genginu 7,0.
Samhliða var lokið samningum við viðskiptabanka félagsins um endurskipulagningu
á langtímalánum. Heildaráhrif aðgerðanna eru að eigið fé félagsins styrkist um
nálægt einn milljarð króna. Hlutafjáraukningin, sala fasteignar og lækkun
höfuðstóls skulda mun lækka vaxtaberandi skuldir um 2.600 mkr. Að loknum þessum
aðgerðum verður fjárhagsstaða Nýherja orðin sterk á ný og eiginfjárhlutfall
félagsins verður yfir 30% í lok árs. Félagið mun leggja megináherslu á að bæta
afkomuna enn frekar með áframhaldandi breytingum til hagræðingar í rekstrinum.“ 


Rekstrarniðurstaða fyrir þrjá ársfjórðunga 2010

Sala á vöru og þjónustu nam 10.273 mkr fyrstu 9 mánuði ársins 2010, samanborið
við 10.339 mkr á sama tímabili árið áður. Laun og launatengd gjöld námu 4.162
mkr, en voru 4.521 mkr fyrir sama tímabil árið áður. Laun vegna erlendrar
starfsemi hafa lækkað um 125 mkr. Meðalfjöldi stöðugilda fyrstu 9 mánuði ársins
2010 var 565 en var 652 fyrir sama tímabil árið áður. Rekstrarkostnaður var um
1.413 mkr, en var 1.826 mkr yfir sama tímabil í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir
afskriftir, fjármagnsliði og skatta - EBITDA - var 327 mkr á tímabilinu en
EBITDA var neikvæð um 9 mkr árið áður. 
 
Hrein fjármagnsgjöld voru 151 mkr í samanburði við 504 mkr á sama tímabili árið
2009. Heildarhagnaður fyrstu 9 mánuði ársins 2010 var 132 mkr en heildartap
fyrstu 9 mánuði ársins 2009 nam 178 mkr. 

Heildareignir í lok tímabilsins voru 9.970 mkr samanborið við 9.595 mkr í lok
ársins 2009. Langtímaskuldir hafa hækkað frá árslokum úr 1.526 mkr í 2.564 mkr
en samhliða því hafa skammtímaskuldir lækkað frá árslokum úr 6.805 mkr í 5.183
mkr. Vaxtaberandi skuldir námu 5.100 mkr, en voru 5.537 mkr í ársbyrjun 2010.
Eigið fé í lok september 2010 var 2.223 mkr og er eiginfjárhlutfall nú 22,3% en
var 13,2% um síðustu áramót. 


Rekstrarniðurstaða á þriðja ársfjórðungi 2010

Sala á vöru og þjónustu nam 3.234 mkr í þriðja ársfjórðungi, samanborið við
3.301 mkr á sama tímabili árið 2009 og hafa tekjur því lækkað um 2% frá þriðja
ársfjórðungi 2009. 

Laun og launatengd gjöld námu 1.187 mkr en voru 1.357 mkr fyrir sama tímabil
2009. Meðalfjöldi stöðugilda í þriðja ársfjórðungi var 553 en var 631 á sama
tíma í fyrra. Launakostnaður innanlands hefur lækkað um 47 mkr frá því á þriðja
ársfjórðungi 2009. Laun starfsmanna erlendis hafa lækkað um 123 mkr milli
þriðja ársfjórðungs 2009 og 2010. 
 
Rekstrarkostnaður var 434 mkr í þriðja ársfjórðungi en var 527 mkr á sama tíma
á árinu 2009. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta -
EBITDA - var 169 mkr á tímabilinu en EBITDA var 107 mkr á sama tímabili fyrir
árið 2009. 

Hrein fjármagnsgjöld voru 73 mkr í þriðja ársfjórðungi í samanburði við 171 mkr
í þriðja ársfjórðungi 2009. Heildarhagnaður í fjórðungnum nam 32 mkr, en
heildartap í þriðja ársfjórðungi í fyrra nam 107 mkr. 


Samningar við banka og aukning hlutafjár

Nýherji jók í þriðja ársfjórðungi hlutafé um 120 mkr að nafnvirði. Félagið gekk
frá samningum við fjárfesta um kaup á því hlutafé á genginu 7,0 og var heildar
söluverð því 840 mkr. Einnig var gengið frá samningum við Arion banka annars
vegar og Íslandsbanka hins vegar um endurskipulagningu á langtímalánum
félagsins, þar sem greiðslutími verður lengdur. Til að lækka skuldir félagsins
enn frekar hefur Nýherji gert samning um sölu á fasteign félagsins við
Borgartún 37 og er söluverðið 1.650 mkr. Samhliða hefur félagið gert 15 ára
leigusamning um Borgartún 37. 


Yfirlit yfir rekstur 

Eftirspurn eftir tölvubúnaði og tæknilausnum fór vaxandi á þriðja ársfjórðungi
hjá samstæðunni, einkum á fyrirtækjamarkaði. Sala á IBM netþjónum og
gagnageymslulausnum og Lenovo tölvubúnaði var talsvert umfram áætlun. Þá jókst
eftirspurn eftir IBM hugbúnaði og Canon fjölnota prentbúnaði í fjórðungnum.
Sala á sviði hljóð- og myndlausna var samkvæmt áætlunum, en meðal annars var
unnið verkefni fyrir Háskólann á Akureyri. Sala á neytendabúnaði, svo sem
sjónvörpum og myndavélum frá Canon og Sony, var stöðug. 

Rekstrar- og hýsingarþjónusta samstæðunnar hefur lagt áherslu á hagræðingu og
lækkun rekstrarkostnaðar sem hefur skilað sér í bættri afkomu þrjá ársfjórðunga
í röð og er að nást jafnvægi í þessari starfsemi. Aukin eftirspurn er eftir
útstöðvaþjónustu og alrekstri í prentþjónustu. Þá hefur verið samið við
landskjörstjórn um rafræna skönnun við talningu á atkvæðaseðlum fyrir
stjórnlagaþing í nóvember. 

Rekstur innlendra eininga á sviði viðskiptahugbúnaðar gekk vel á tímabilinu.
Þjónusta og vörusala var talsvert umfram væntingar. Vöruframboð var eflt með
smíði á lausnum og þekking aukin á stefnumótandi þáttum, svo sem á sviði
viðskipgreindar. Verkefnastaða og horfur, bæði á innlendum og erlendum
vettvangi, eru vænlegar. 

Góð afkoma var í sölu hugbúnaðalausna sem hafa verið þróaðar af
hugbúnaðarfyrirtækjum samstæðunnar. Unnið var að þróun á Sögu sjúkraskrárkerfi
í samstarfi við Landspítalann og heilbrigðisráðuneytið auk verkefna sem
tengjast rafrænum sendingum yfir Heklu heilbrigðisnet, en með rafrænum
sendingum heilbrigðisgagna má ná fram mikilli hagræðingu fyrir aðila á
heilbrigðissviði og bæta þjónustu við sjúklinga. Þá voru smærri
hugbúnaðarlausnir seldar yfir netið til fyrirtækja víða um heim og unnið að
hugbúnaðarverkefnum í Svíþjóð, Danmörku, Bretlandi og í Mið-Austurlöndum.
Jafnvægi er að nást í innlendri hugbúnaðarþróun og afkoma betri en á sama tíma
í fyrra. 

Afkoma af starfsemi Applicon í Svíþjóð er ágæt og í samræmi við áætlun en meðal
samninga við fyrirtæki má nefna Álandsbankann, Nordea og TeliaSonera. Rekstur
Applicon í Danmörku skilar jákvæðri afkomu en er undir áætlun. Dansupport
skilar nú jákvæðri afkomu en tap var á rekstri þess félags á síðasta ári.
Samkvæmt spá greiningafyrirtækja mun eftirspurn eftir þjónustu í
upplýsingatækni á Norðurlöndum fara vaxandi og mun það styrkja rekstur
félaganna erlendis. 


Horfur

Rekstur Nýherja og dótturfélaga hefur styrkst á undanförnum ársfjórðungum og
eru horfur fyrir fjórða ársfjórðung góðar. Jafnvægi fer að skapast í rekstri
félagsins m.v. núverandi eftirspurn og stöðu í efnahagsmálum. Ágætar horfur eru
um að afkoma af rekstri samstæðunnar haldi áfram að batna á næstu misserum,
verði ekki bakslag í efnahagsþróun hérlendis. 


Fjárhagsdagatal fyrir 2010:

28. janúar 2011 - Ársuppgjör

Samþykkt árshlutareiknings
Árshlutauppgjör fyrir þriðja ársfjórðung 2010 var samþykkt á stjórnarfundi
Nýherja hf. 22. október 2010. Árshlutauppgjör Nýherja hf. er gert í samræmi við
alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS-International Financial Reporting
Standards). Árshlutauppgjörið hefur hvorki verið endurskoðað né kannað af
endurskoðendum félagsins. 


Nánari upplýsingar

Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, í síma +354 893 3630.

Nýherji hf.
Hlutverk Nýherja hf. er að skapa viðskiptavinum sínum virðisauka með þekkingu
starfsmanna á upplýsingatækni, rekstri fyrirtækja og þörfum viðskiptavina.
Nýherji býður fyrsta flokks ráðgjöf og fagþjónustu á sviði upplýsingatækni og
vandaðan tölvu-, skrifstofu- og hugbúnað ásamt traustri tækni- og
rekstrarþjónustu. Félög Nýherjasamstæðunnar í rekstri eru 18 bæði hér heima og
erlendis og eru stöðugildi 540. Hlutabréf Nýherja hf. eru skráð í NASDAQ OMX
Iceland hf. (Kauphöll Íslands). 

Stjórn Nýherja: Benedikt Jóhannesson, stjórnarformaður, Árni Vilhjálmsson og
Guðmundur Jóh. Jónsson. Þórður Sverrisson er forstjóri Nýherja.
origo-logo
Skiptiborð
Mánudagar - föstudagarkl. 08:00-16:00Sími: 516-1000
Verslun í Borgartúni 37105 Reykjavík
Mánudagar - föstudagarkl. 08:00-17:00Laugardagarkl. 11:00-15:00
Verkstæði og vöruafgreiðslaKöllunarklettsvegi 8104 Reykjavík
Mánudagar - föstudagarkl. 09:00-17:00
StarfsstöðvarAkureyriÍsafjörðurNeskaupsstaðurEgilsstaðir
Origo, Borgartún 37, 105 Reykjavík, kt: 530292-2079. S: 516 1000