FréttEBITDA Origo hf. 102 mkr. á fyrsta ársfjórðungi
25.04.2018 16:57

Origo hf. - Uppgjör 1. ársfjórðungs 2018

EBITDA Origo hf. 102 mkr. á fyrsta ársfjórðungi

REYKJAVÍK - 25. apríl 2018 - Origo kynnti í dag uppgjör fyrsta ársfjórðungs 2018

Finnur Oddsson, forstjóri:
„Um 5% tekjusamdráttur og aukinn kostnaður leiddu til 26 mkr taps á fyrsta fjórðungi 2018.  Rekstrarhagnaður var jákvæður en lækkaði verulega á milli ára.  Vörusala á tæknibúnaði dróst saman, m.a. vegna vöruskorts í lykilflokkum, færri stórar sölur á miðlægum búnaði gengu í gegn á fjórðungnum en venja er til ásamt því að töluverður einskiptiskostnaður féll til vegna sameiningar Nýherja, Applicon og TM Software, nafnabreytingar og tilheyrandi markaðssetningar. Aukinn launakostnaður, m.a. vegna hækkunar kjarasamninga, hefur svo áfram neikvæð áhrif á afkomu Origo.  

Helstu vaxtasprotar Origo eru í þróun og sölu hugbúnaðar- og viðskiptalausna og horfum við til þess að slíkar lausnir verði æ stærra hlutfall tekna til framtíðar, þá helst í formi áskriftartekna. Félagið hefur fjárfest verulega í þróun á eigin lausnum á undanförnum misserum, auk þess að festa kaup á nokkrum rekstrareiningum, eins og Timian og Dynamics NAV, með það að markmiði að efla þjónustuframboð til viðskiptavina. Nú undir lok fjórðungs bættist okkur enn frekari liðsstyrkur í Benhur ehf. sem þjónustar hugbúnaðarlausnir fyrir rannsóknarstofur á heilbrigðissviði. Góð eftirspurn hefur svo verið eftir gæðastjórnunarlausninni CCQ og bílaleigulausninni Caren.

Rekstur Tempo gekk vel á tímabilinu, en þar byggjum við einnig á lausnasölu í áskrift, sem tryggir stöðugar tekjur yfir lengra tímabil. Tekjur síðustu 12 mánaða standa nú í 18,1 mUSD og hafa aukist um 25% á milli ára. Áskriftarsala á skýjalausnum jókst um 31% miðað við sama tímabil í fyrra, sem er sérstaklega jákvæð þróun, en Tempo er sem fyrr ein vinsælasta vara á markaðstorgi Atlassian.  Hlutfall tekna af skýjalausnum nemur nú 37% af heildartekjum Tempo og endurspeglar styrk nýrrar útgáfu af Tempo Cloud for Jira frá í fyrra. Áður tilkynnt söluferli á hlut í Tempo ehf. í samstarfi við fjárfestingabankann AGC Partners í Boston er enn í vinnslu og er gert ráð fyrir að því ljúki fyrir mitt ár.

Sala á vél- og tæknibúnaði var sem fyrr umfangsmikil í okkar starfsemi, þó þar hafi orðið nokkur samdráttur frá því í fyrra.  Búnaðarsala verður áfram ein helsta tekjustoð Origo, en félagið hefur engu að síður markað sér stefnu um að selja lausnir í auknum mæli í áskrift í stað einskiptissölu. Slík breyting mun með tímanum stuðla að jafnari tekjudreifingu yfir ársfjórðunga og minnka sveiflur. Ofangreindar breytingar eru líklegar til að hægja á tekjuvexti til skemmri tíma, en á móti gefa félaginu verðmætara tekjustreymi til lengri tíma. Þessi þróun endurspeglast í okkar rekstri í dag, en samdráttur varð í sölu á búnaði fyrir miðlæga innviði á meðan tekjur af rekstrarþjónustu aukast frekar.

Þó að við séum ekki sátt við rekstrarniðurstöðu Origo á fyrsta fjórðungi ársins, þá erum við bjartsýn á árið framundan.  Birgðastaða er góð ólíkt því sem var á fyrsta fjórðungi og góð eftirspurn eftir tæknibúnaði. Nýju vörumerki hefur verið afar vel tekið, kynning hefur gengið vel og sýna kannanir sterka tengingu þess við upplýsingatækni og þjónustu. Þessi sterka staða og hagræði sem hlýst af sameiningu rekstrar okkar undir einn hatt gerir okkur kleift að takast á við spennandi tíma framundan og þjóna viðskiptavinum okkar enn betur.“

Helstu upplýsingar:

  • Sala á vöru og þjónustu nam 3.781 mkr á fyrsta ársfjórðungi [F1 2017: 3.996]
  • Framlegð nam 908 mkr (24,0%) á fyrsta ársfjórðungi [F1 2017: 976 mkr (24,4%)]
  • EBITDA nam 102 mkr (2,7%) á fyrsta ársfjórðungi [F1 2017: 242 mkr (6,0%)]
  • Heildartap á fyrsta ársfjórðungi nam 26 mkr [Heildarhagnaður F1 2017: 71 mkr (1,8%)]
  • Eiginfjárhlutfall var 41,8% í lok fyrsta ársfjórðungs, samanborið við 41,6% í lok árs 2017
  • Starfsmenn innleystu kauprétti að kaupvirði 112 mkr á fyrsta ársfjórðungi, til greiðslu í byrjun apríl
  • Kannanir á vörumerkjavitund sýna sterka stöðu nýs vörumerkis Origo
  • Horfur í rekstri eru jákvæðar, mikil eftirspurn eftir vörum og þjónustu Origo m.v. núverandi stöðu, en hlutfall launa og tekna áfram ögrandi verkefni

Uppgjörið í heild sinni.

Sjá fleiri fréttir

Hefur þú verkefni í huga?

origo-logo
Skiptiborð
Mánudagar - föstudagarkl. 08:00-16:00Sími: 516-1000
Verslun í Borgartúni 37105 Reykjavík
Mánudagar - föstudagarkl. 08:00-17:00Laugardagarkl. 11:00-15:00
Verkstæði og vöruafgreiðslaKöllunarklettsvegi 8104 Reykjavík
Mánudagar - föstudagarkl. 09:00-17:00
StarfsstöðvarAkureyriÍsafjörðurNeskaupsstaðurEgilsstaðir
Origo, Borgartún 37, 105 Reykjavík, kt: 530292-2079. S: 516 1000