Verslun Origo við Kaupang á Akureyri verður lokað föstudaginn 18. janúar. Breytingin er í takt við stafrænar áherslur Origo, aukna sjálfvirknivæðingu og breyttar þarfir viðskiptavina.
Markmiðið er að gera viðskipavinum kleift að afgreiða sig sjálfa í auknum mæli í gegnum netverslun Origo, tryggja skjóta afhendingu á búnaði, lausnum og þjónustu og leggja áherslu á enn betri þjónustuupplifun.
"Það skref sem við erum að taka á Akureyri er í takt við breyttar þarfir neytenda bæði hér á landi og annars staðar; þeir vilja vörur með einföldum hætti eða einum músarsmelli. Við búum yfir einstöku úrvali af vörum og lausnum í netverslun.is, sem er ein sú stærsta sinnar tegundar hér á landi, eða 10 þúsund vörunúmer í 150 vöruflokkum. Netverslunin hefur verið stórefld og við væntum mikils af þessari einingu okkar í takt við áherslur fólks," segir Emil Einarsson framkvæmdastjóri Notendalausna.
"Jafnhliða ætlum við að efla sölu á notendabúnaði í gegnum samstarfsaðila okkar á Akureyri og nágrenni," segir Emil.
Origo mun áfram starfrækja öflugt sölu- og lausnateymi fyrir fyrirtæki á Akureyri og hyggst efla enn frekar þjónustu á því sviði. Skrifstofa Origo á Akureyri verður áfram staðsett við Kaupang, á 2. hæð. Síminn er 516-1300 og netfangið akureyri@origo.is.