29/09/2022

Dröfn hlýtur Hvatningarverðlaun Vertonet

Dröfn Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá Origo, hlaut Hvatningarverðlaun Vertonet 2022. Með skýrri sýn Origo hefur Dröfn lagt sitt af mörkum í að gera tæknigeirann eftirsóknarverðari fyrir konur, fjölgað konum í tæknistörfum og stuðlað að fjölbreytileika innan geirans.

Hvatningardagur Vertonet var haldinn hátíðlegur í dag þar sem fjöldi kvenna í upplýsingatækni safnaðist saman í Iðnó og sótti sér innblástur frá reynslusögum annarra kvenna innan geirans.

Vertonet eru samtök kvenna sem starfa í upplýsingatækni á Íslandi og voru stofnuð á vordögum 2018. Markmið samtakanna er að skapa vettvang fyrir konur í margvíslegum störfum innan tæknigeirans til þess að tengjast, fræðast, styðja hver aðra og að fjölga konum í geiranum.

Hvatningardagur Vertonet

Starf Vertonet snýst um að halda reglubundna viðburði með áhugaverðum erindum frá konum innan tækninnar og auka sýnileika kvenna sem starfa innan geirans. Hátindurinn í viðburðahaldi samtakanna er Hvatningardagur Vertonet.

Dagskráin í ár byrjaði á hádegi og yfirskrift hvatningardagsins var „Viltu vera memm?“. Markmiðið með hvatningardeginum í ár, sem og áður, var að fá innblástur frá reynslusögum kvenna sem hafa synt á móti straumnum í tæknigeiranum.

Þórey Vilhjálmsdóttir stýrir pallborðsumræðum með Sigyn Jónsdóttur, Safa Jemai og Valgerði Hrund SkúladótturÞórey Vilhjálmsdóttir stýrir pallborðsumræðum með Sigyn Jónsdóttur, Safa Jemai og Valgerði Hrund Skúladóttur

Guðrún Helga Steinsdóttir, formaður Vertonet, opnaði daginn og Þórey Vilhjálmsdóttir, stofnandi Empower, var fundarstjóri dagsins. Dagskráin samanstóð af fræðandi og skemmtilegum erindum frá konum sem deildu með fundargestum ævintýrasögum þeirra úr tæknigeiranum og nýsköpun.

Meðal fyrirlesara voru Valgerður Hrund Skúladóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Sensa, Safa Jemai, framkvæmdastjóri Víkonnekt, Þórunn K. Sigfúsdóttir, sviðsstjóri Mannauðslausna Trackwell og Ásdís Eir Símonardóttir, mannauðsstjóri Lucinity. Efnt var til pallborðsumræða að erindum loknum og í lok dags var boðið upp á léttar veitingar.

Hvatningarverðlaun Vertonet 2022

Ár hvert tilnefnir Vertonet eina konu sem handhafa hvatningarverðlauna Vertonet en markmiðið er að heiðra þær konur sem hafa lagt sitt af mörkum í að gera upplýsingatæknigeirann eftirsóknarverðari fyrir aðrar konur.

Dröfn Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs Origo, hlaut Hvatningarverðlaun Vertonet 2022 . Hún hefur lagt sitt af mörkum í að efla þátttöku kvenna í geiranum og gefa konum tækifæri á spennandi störfum innan geirans með markvissum aðgerðum.

Linda B. Stefánsdóttir og Dröfn GuðmundsdóttirLinda B. Stefánsdóttir og Dröfn Guðmundsdóttir

„Hún hefur sýnt í orði og á borði hversu megnug hún er og hversu mikinn áhuga hún hefur fyrir því að hjálpa konum að öðlast framgöngu í sínu starfi innan tæknigeirans. Hún hefur búið til stefnu hjá sínu fyrirtæki sem miðar að því konum verði fjölgað í almennum störfum sem og stjórnunarstörfum og það hefur virkilega skilað árangri,“ sagði Linda B. Stefánsdóttir, fráfarandi formaður og stofnandi Vertonet, áður en hún rétti Dröfn verðlaunin.

Dröfn hlýtur Hvatningarverðlaun VertonetDröfn hlýtur Hvatningarverðlaun Vertonet

„Öll þessi ár sem ég hef starfað sem mannauðsstjóri hjá Origo hef ég haft mikinn metnað fyrir því að fjölga konum í tækninni því eins og við vitum að þá hallar verulega á konur í upplýsingatækni. Það er því mikilvægt að halda áfram að fjölga konum í tæknistörfum og stuðla að fjölbreytni innan geirans,“ sagði Dröfn þakklát fyrir viðurkenninguna.

Við óskum Dröfn innilega til hamingju með verðlaunin og þökkum Vertonet fyrir fróðlegan og skemmtilegan dag.

Deila frétt