Origo verður bakhjarl VERTOnet < Origo

 
 
 

Origo verður bakhjarl VERTOnet

09.10.2018

Origo mun verða bakhjarl VERTOnet sem eru hagsmunasamtök kvenna í upplýsingatækni, og aðstoða þau í að efla veg kvenna í greininni. 

„Markmið VERTOnet felst í að hvetja konur til þátttöku í upplýsingatæknitengdu námi og störfum og styrkja tengslanet þeirra. Það er mikill akkur fyrir okkur að fá stuðning frá Origo sem er eitt af leiðandi upplýsingatæknifyrirtækjum landsins,“ segir Linda Stefánsdóttir hjá VERTOnet samtökunum.

„Origo leggur rækt við að laða til sín öflugt fólk af báðum kynjum. Fyrirtækið hefur fest í sessi jafnlauna- og jafnréttisáætlun auk aðgerðaáætlun jafnréttismála, þar sem meðal annars er lögð áhersla á jöfn laun og sömu tækifæri til starfsþróunar báðum kynjum til handa. Samstarf okkar við VERTOnet er enn ein varðan í þeirri vegferð,“ segir Dröfn Guðmundsdóttir mannauðsstjóri Origo.

VERTOnet á sér norska fyrirmynd en systursamtökin, Oda-Nettverk, hafa nýst vel í að efla hlut kvenna í upplýsingatækni þar í landi.

Origo er þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni, hjá fyrirtækinu starfa 450 manns.

Frá vinstri á mynd: Nanna Pétursdóttir, VERTOnet, Dröfn Guðmundsdóttir, Origo, og Linda Stefánsdóttir, VERTOnet.