Origo fær jafnlaunavottun < Origo

 
 
 

Origo fær jafnlaunavottun

19.02.2019

Upplýsingatæknifyrirtækið Origo hefur hefur innleitt jafnlaunakerfi í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012, sem er ætlað að tryggja að ákvarðanir um laun karla og kvenna séu teknar á sama hátt og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðunum feli ekki í sér kynjamismun. Jafnlaunakerfið hefur verið vottað af BSI á Íslandi og hefur Origo fengið heimild Jafnréttisstofu til að nota jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins.

Við innleiðingu á jafnlaunakerfinu var stuðst við mannauðs- og launakerfið Kjarna, en kerfið einfaldar fyrirtækjum að innleiða og viðhalda þeim upplýsingum sem þurfa að liggja til grundvallar þegar launagreiningar eru framkvæmdar. Þá var einnig stuðst við gæðakerfið CCQ sem heldur utan um skráð verklag og úttektir á jafnlaunakerfinu. Origo hefur þróað báðar þessar lausnir og hafa fjölmörg fyrirtæki hér á landi nýtt sér þær til einföldunar við innleiðingu og viðhalds á jafnlaunakerfinu sínu en samkvæmt lögum þurfa öll fyrirtæki hér á landi að öðlast vottun fyrir árslok 2022.

„Markmið okkar hjá Origo er að vera eftirsóttasti vinnustaðurinn og laða þannig að fyrirtækinu hæfasta starfsfólkið til frambúðar. Til að ná því markmiði er afar mikilvægt að tryggja að allar launaákvarðanir séu teknar með sambærilegum hætti. Það er frábært að geta notað eigin hugbúnað til að einfalda okkur skrefin og um leið þroskað og þróað þær lausnir sem við búum yfir. Við erum stolt af því að bera jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins,“ segir Dröfn Guðmundsdóttir mannauðsstjóri Origo.

Um 450 sérfræðingar í upplýsingatæknilausnum vinna hjá Origo.